Inga Þórhildur Jónsdóttir fæddist 12. október 1929. Hún lést 11. maí 2024.

Útför hennar fór fram 23. maí 2024.

Við kvöddumst um síðustu jól. Mjúkur koss og faðmlag eins og alltaf. Mig grunaði þá að þú værir að pakka niður fyrir sumarlandið.

Þú varst vön að segja með þinni dæmigerðu kímni að þú hefðir erft augun hennar ömmu og fæturna hans afa. Þegar þetta tvennt bilar eru lífsgæðin orðin mögur þótt hausinn sé skarpur. Í gegnum árin ræddum við dægurmálin og bókmenntir, sjaldan pólitík. Við flugum hærra en svo. Með þessu barstu í mig endalausar trakteringar svo maður þurfti að losa minnst um tvö göt á beltinu þegar yfir lauk. Bækur voru þitt hjartans mál og þegar það er frá manni tekið er fátt um fína drætti.

Við áttum langa fundi yfir gömlum myndum og ferðuðumst vestur í andanum, meira en öld aftur í tímann. Það voru fáir sem þú gast ekki nefnt á þessum myndum og sögur fylgdu flestum svo ljóslifandi að engu var líkara en að ég hefði stigið inn í tímavél. Þú þekktir meira að segja kornabörnin, sem engin leið var fyrir mig að greina muninn á. Þarna voru myndir af lautarferðum fjölskyldunnar í Aðalstræti. Amma, afi, Finnur, Hjörtur, Didda, Grímur, Árni og pabbi, allir í sínu fínasta pússi úti í náttúrunni. Öll sumarævintýrin á Gilsbrekku og einnig myndir af heimsborgaranum Ingu í Köben með barðastóran hatt, hámenntuð „confiseuse“ í heitustu tísku samtímans. Þessum dögum gleymi ég aldrei og minnist þeirra með þakklæti og söknuði.

Þegar ég var fjögurra eða fimm ára fóstruðuð þið Leifur mig á meðan mamma og pabbi fóru suður. Þessi bláeygi glókollur var þó ekki allur þar sem hann var séður og þessi stutta vist hefur líklega náð festa sig varanlega í órituðum annálum Hnífsdælinga.

Þarna tókst mér að brugga fyrirmyndardrengnum þínum honum Palla Skúla dáraleg launráð og gera hann samsekan í því þegar okkur lánaðist næstum að brenna ofan af ykkur húsið. Við brenndum skótauið á Heimabæ í logandi tunnu, dreifðum síldinni hans Leifs niður alla götu, sporð í sporð. Ekki var það nóg því við náðum líka að henda öllum þríhjólum þorpsins í Hnífsdalsána. Þrátt fyrir þetta vorum við ekki skammaðir svo ég muni. Þú varst of barngóð til þess. Jafnvel þegar þessi andsetni frændi úr kaupstaðnum hleypti upp samkomu Hjálpræðishersins í barnaskólanum sem varð til þess að herinn kom aldrei aftur til að flytja fagnaðarerindið í Hnífsdal. Engar skammir þar, bara kímið blik á bak við alvörulausar ákúrur. Við hlógum að þessu síðar, þú taldir þetta vel af sér vikið. Þetta kryddaði bara lífið í þorpi þar sem það var stórfrétt ef einhver keypti sér nýjar gardínur.

Þú skilur eftir tóm sem aldrei verður fyllt í mínu sinni og ég mun sakna þín sárt, Inga mín. Forpokaður efasemdarmaður eins og ég hengi ekki vonir mínar á handanlíf, en svo á hinn bóginn vita efasemdarmenn ekki nokkurn skapaðan hlut. Þeir eiga bara efann. Sannfæring þarf sér enga stoð svo kannski hittumst við aftur. Ég bara vona það.

Þinn frændi,

Jón Steinar Ragnarsson.