Rotterdam Mikael Anderson og Hákon Arnar Haraldsson í baráttu við Jerdy Schouten, miðjumann Hollendinga, í leiknum í gærkvöld.
Rotterdam Mikael Anderson og Hákon Arnar Haraldsson í baráttu við Jerdy Schouten, miðjumann Hollendinga, í leiknum í gærkvöld. — Ljósmynd/Alex Nicodim
Hollendingar reyndust ofjarlar íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á De Kuip-leikvanginum í Rotterdam í gærkvöld og unnu mjög sannfærandi sigur, 4:0. Eftir góðar upphafsmínútur íslenska liðsins tóku Hollendingar smám saman völdin

Landsleikur

Víðir Sigurðsson

Gunnar Egill Daníelsson

Hollendingar reyndust ofjarlar íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á De Kuip-leikvanginum í Rotterdam í gærkvöld og unnu mjög sannfærandi sigur, 4:0.

Eftir góðar upphafsmínútur íslenska liðsins tóku Hollendingar smám saman völdin. Xavi Simons kom þeim yfir á 23. mínútu eftir skallasendingu frá Denzel Dumfries og staðan var 1:0 í hálfleik.

Virgil van Dijk skoraði annað markið í byrjun síðari hálfleiks með skalla eftir hornspyrnu, 2:0, og þar með var Holland endanlega með undirtökin.

Íslenska liðið átti góða spretti upp úr miðjum síðari hálfleik. Stefán Teitur Þórðarson átti þá hörkuskot í stöng af 25 metra færi og Sverrir Ingi Ingason skallaði rétt fram hjá markinu eftir aukaspyrnu Jóhanns Bergs Guðmundssonar.

En þetta voru einu færi Íslands og Hollendingar léku af miklum krafti eftir það. Donyell Malen skoraði, 3:0, eftir sendingu frá Memphis Depay og í uppbótartíma skoraði Wout Weghorst eftir sendingu frá Malen.