80 ára Jón Þór fæddist og ólst upp í austurbæ Reykjavíkur, en hefur búið í Garðabæ síðustu 27 árin. Hann var meðal stofnenda og lengi aðaleigandi Sagafilm og þrátt fyrir aldurinn er hann ennþá viðloðandi kvikmyndabransann

80 ára Jón Þór fæddist og ólst upp í austurbæ Reykjavíkur, en hefur búið í Garðabæ síðustu 27 árin. Hann var meðal stofnenda og lengi aðaleigandi Sagafilm og þrátt fyrir aldurinn er hann ennþá viðloðandi kvikmyndabransann. Hann rekur fyrirtækið Stuðland ásamt Ágústi Guðmundssyni leikstjóra. Þeir hafa gert heimildarmyndir um íslenska tónlistarmenn og hljómsveitir, eins og Stuðmenn, Björgvin Halldórsson og nýlega mynd um Gunnar Þórðarson tónskáld. Hann segist vera „almennur starfsmaður“ á plani hjá kvikmyndafyrirtækinu Republik en það fyrirtæki eiga og reka synir hans, Lárus og Árni Þór.

„Það er gaman að sjá að kvikmyndaverið í Fossaleyni er aftur komið í gagnið, en það byggði ég ásamt Friðriki Þór og fleiri góðum mönnum árið 2001. Ég er mjög sáttur við að sjá stúdíóið verða að veruleika og að upphaflega hugmyndin nýtist einmitt vel núna.“

Jón Þór hefur lengi verið viðloðandi körfubolta en seinni árin hefur áhuginn á ensku rugby ágerst. Söngáhugi Jóns Þórs er mikill og er hann ennþá að syngja með félögum sínum við ýmis tækifæri. „Okkur hjónunum hefur alltaf þótt gaman að ferðast en síðan við eignuðumst húsið okkar á Svalbarðsströnd í Eyjafirði höfum við notið þess að dvelja þar og njóta rólegheita og fegurðar Eyjafjarðar annaðhvort í góða veðrinu fyrir norðan eða í góða veðrinu fyrir sunnan.“

Fjölskylda Eiginkona Jóns Þórs er Valgerður Lárusdóttir, f. 6. júlí 1944, hjúkrunarfræðingur og flugfreyja. Synir þeirra eru Hannes Lárus, f. 1968, og Árni Þór, f. 1975. Barnabörnin eru 6. Foreldrar Jóns Þórs voru hjónin Hannes Gamalíelsson fulltrúi, f. 1906, d. 1995, og Jóhanna Kristín Jensen húsmóðir, f. 1904, d. 1992.