Efnilegur Kantmaðurinn ungi Lamine Yamal er vonarstjarna Spánverja.
Efnilegur Kantmaðurinn ungi Lamine Yamal er vonarstjarna Spánverja. — AFP/Jamie Reina
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Evrópumótið í knattspyrnu karla í Þýskalandi hefst eftir þrjá daga með leik Þýskalands og Skotlands í München. Morgunblaðið ætlar á næstu dögum að taka riðla mótsins fyrir, tvo í senn. Í A-riðli eru gestgjafar Þýskalands, Skotland, Sviss og…

EM 2024

Jökull Þorkelsson

jokull@mbl.is

Evrópumótið í knattspyrnu karla í Þýskalandi hefst eftir þrjá daga með leik Þýskalands og Skotlands í München. Morgunblaðið ætlar á næstu dögum að taka riðla mótsins fyrir, tvo í senn.

Í A-riðli eru gestgjafar Þýskalands, Skotland, Sviss og Ungverjaland og í B-riðli eru ríkjandi Evrópumeistarar Ítalíu, Spánn, Króatía og Albanía. Riðlarnir tengjast að öðru leyti en með bókstöfum því liðin sem hafna í öðru sæti í hvorum riðli fyrir sig mætast í 16-liða úrslitunum.

Tvö lið komast áfram úr hvorum riðli auk þess sem fjögur af þeim sex liðum sem enda í þriðja sæti riðlanna komast líka í 16-liða úrslit.

Þjóðverjar valdið vonbrigðum

Þýskaland hefur valdið miklum vonbrigðum á síðustu þremur stórmótum en liðið komst ekki upp úr riðlinum á síðustu tveimur heimsmeistaramótum og aðeins í 16-liða úrslit á EM 2021. Þjóðverjar eru þó með ungt, efnilegt og öðruvísi lið í ár. Miklar væntingar eru bundnar við jafnaldrana Florian Wirtz og Jamal Musiala.

Síðan var mikill hvalreki fyrir Þjóðverja að Toni Kroos ákvað að koma aftur og spila sitt síðasta mót á ferlinum á heimavelli í sumar. Hvað sem gerist er nokkuð ljóst að Þjóðverjar eru langlíklegastir til að vinna A-riðilinn.

Mun reynslan hafa áhrif?

Hvað varðar hin þrjú liðin er erfitt að segja en þau eru öll nokkuð jöfn fyrir mót. Sviss hefur staðið sig hvað best af liðunum og er með mestu reynsluna þegar kemur að stórmótum undanfarin ár. Leikmenn eins og Granit Xhaka og Manuel Akanji munu þá ýta liðinu áfram en Xherdan Shaqiri virðist einnig alltaf stíga upp á stórmóti.

Ungverjar eru með spennandi lið sem hefur staðið sig frábærlega undanfarin misseri og fór á EM með miklum yfirburðum úr erfiðum riðli. Dominik Szoboszlai er aðalkallinn í Ungverjandi en reynsluboltinn Willi Orban á líka eftir að segja sitt. Þrátt fyrir frábæran árangur Ungverja í aðdraganda móts er liðið ekki með eins mikla reynslu og Sviss, sem gæti orðið Ungverjalandi að falli.

Hvað geta Skotar gert?

Sagan er ekki með Skotlandi þegar kemur að stórmótum. Skotar hafa tekið alls 11 sinnum þátt á stórmóti en aldrei komist upp úr riðlinum.

Skoska liðið stóð sig hins vegar vel í undankeppni EM og vann meðal annars Spán 2:0. Ensku úrvalsdeildarleikmennirnir Andrew Robertson, Scott McTominay og John McGinn munu þurfa að eiga gott mót vilji Skotar komast upp úr riðlinum í fyrsta sinn í sögu þjóðarinnar.

Riðill dauðans

Mikil spenna verður í B-riðlinum en fyrir mótið má skilgreina hann sem dauðariðilinn. Spánn, Ítalía og Króatía hafa öll verið á meðal fremstu landsliða heims undanfarin ár og voru þau þrjú til að mynda öll í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar í fyrra.

Spánverjar eru líklegastir en þeir fóru þægilega í gegnum erfiðan riðil í undankeppni EM. Spænska liðið er með gæði alls staðar en miðjumennirnir Pedri og Rodri eru lykilmenn. Þá fær hinn 16 ára gamli Lamine Yamal að öllum líkindum stórt hlutverk í liði Spánar en hann er einn mest spennandi leikmaður heims.

Ítalir eru ríkjandi Evrópumeistarar en þrátt fyrir það komst þjóðin ekki á HM í Katar árið 2022. Ítalía komst upp úr C-riðli í undankeppni EM á markatölu en liðið fékk jafnmörg stig og Úkraína sem fór í umspil og mætti Íslandi. Þrátt fyrir það er líkt og á síðasta Evrópumóti aldrei hægt að útiloka Ítalíu, en liðið á í miklum kynslóðaskiptum um þessar mundir.

EM ekki verið mót Króata

Króatía er þriðja stórliðið í riðlinum en EM hefur í gegnum tíðina ekki verið mót þjóðarinnar, miklu frekar HM. Luka Modric hefur verið fremsti leikmaður Króata undanfarin ár en ungir leikmenn eins og Josko Gvardiol munu þurfa að stíga upp í sumar.

Albanía er síðasta þjóð riðilsins en Albanir fóru afar sannfærandi á mótið í gegnum E-riðil undankeppninnar. Framherjinn Armando Broja verður að vera á skotskónum ef Albanía vill eiga einhvern möguleika í þessum óheppilega riðli.

A-RIÐILL

Þýskaland

Skotland

Ungverjaland

Sviss

14.6. Þýskaland – Skotland 19

15.6. Ungverjaland – Sviss 13

19.6. Þýskaland – Ungverjal. 16

19.6. Skotland – Sviss 19

23.6. Sviss – Þýskaland 19

23.6. Skotland – Ungverjal. 19

B-RIÐILL

Spánn

Króatía

Ítalía

Albanía

15.6. Spánn – Króatía 16

15.6. Ítalía – Albanía 19

19.6. Króatía – Albanía 15

20.6. Spánn – Ítalía 19

24.6. Albanía – Spánn 19

24.6. Króatía – Ítalía 19

Höf.: Jökull Þorkelsson