Úrsúla Jünemann
Úrsúla Jünemann
Fækkun skordýra á heimsvísu er því miður staðreynd. Þessar smáu lífverur gegna afgerandi hlutverki í samspili náttúruferla.

Úrsúla Jünemann

Árið 2017 kom út bók eftir norska rithöfundinn Maju Lunde. Hún er þekkt sem náttúruunnandi og umhverfissinni. Þema þessarar bókar er hve illa mannkynið fer með umhverfið og skemmir lífríkið sem er nauðsynlegt fyrir okkur til að lifa af. Bókin lýsir hvernig ástandið er orðið í Kína þar sem engar býflugur eru lengur til að frjóvga ávaxtatré og vinnufólk er fengið til að handfrjóvga ávaxtablómin með mikilli fyrirhöfn.

Fækkun skordýra á heimsvísu er því miður staðreynd. Þessar smáu lífverur gegna afgerandi hlutverki í samspili náttúruferla. Það er alveg óskiljanlegt að við menn notum ennþá eitur til að drepa skordýr, oft í þekkingarleysi. Eiturefnið Roundup til dæmis er ennþá til sölu í garðyrkjubúðum og hver og einn getur notað þennan óþverra að vild. Eiturefnaúðun í stórum stíl í landbúnaði er því miður ennþá stunduð. Þetta er vítahringur, með því að drepa smáverurnar skemmum við einnig afkomu lífvera sem gætu unnið á þeim. Fuglar til dæmis eiga erfitt með að finna fæðu þegar skordýrum og lirfum fækkar.

Humlur, býflugur og geitungar eru frekar nýir landnemar og ennþá eru til menn sem fara hjá sér þegar þessar saklausu og nytsamlegu verur birtast. Þá er kallað í meindýraeyði eða notað hárlakk til að úða á þær.

Víða finnst fólki flott að hafa snyrtilega garða. Snöggt slegið gras, mikið af steinum, hellum og pöllum er í uppáhaldi hjá mörgum. Gott og vel ef framboð af blómstrandi plöntum er einnig nóg. Það er líka hægt að skilja smá horn eftir með villiblómum, sérstaklega ef garðurinn er stór. Túnfífillinn til dæmis er fallegur, gefur skordýrum rækilega fæðu og kannski er óþarfi að eltast við hann eins og versta óvin.

Í mörgum sveitarfélögum er kappkostað að hafa alla grasfleti snöggslegna. Það má helst ekki sjá stingandi strá, þá eru ræstar stórvirkar sláttuvélar. Sveitarfélögin gætu sparað útgjöldin með að slá sjaldnar og kannski ekki endilega alls staðar. Villiblómaengi og gular fífilbrekkur finnst mér augnayndi. Nýjasta æðið, að láta róbóta burra um og slá grasfleti ótt og títt, er fáránlegt.

Garðyrkjan er skemmtileg en kostar vinnu og fyrirhöfn. Þetta er hin besta líkamsrækt og heilsubætandi. Það er komin góð þekking á eiturefnalausum aðferðum til að skapa jafnvægi í náttúrunni. Allir ættu að kynna sér þær.

Gleðilegt sumar.

Höfundur er kennari á eftirlaunum og náttúruvinur.

Höf.: Úrsúla Jünemann