Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Alls hefur 72 útlendingum verið birt ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun frá Íslandi vegna ýmiss konar refsilagabrota frá því lög um útlendinga tóku gildi hinn 1. janúar 2017, en síðan er liðið tæplega hálft níunda ár. Þetta jafngildir ríflega átta einstaklingum á ári.
Flestir brottvísaðra, eða 51, voru án dvalarleyfis hér á landi, í 19 tilvikum höfðu viðkomandi einstaklingar ótímabundið dvalarleyfi, en tveir voru handhafar slíks leyfis tímabundið, skv. upplýsingum frá Útlendingastofnun. Ekki fengust svör frá Útlendingastofnun um hversu margar þessara brottvísana séu komnar til framkvæmda, en svara þar um er þó að vænta.
Flestar brottvísanirnar eru á grundvelli d-liðar 1. mgr. 98. gr. útlendingalaganna, þar sem það varðar brottvísun hafi viðkomandi verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði, eða hann hefur oftar en einu sinni verið dæmdur til fangelsisrefsingar á síðustu þremur árum. Þeir sem hér um ræðir voru ekki með dvalarleyfi hér á landi.
Næstflestar brottvísanirnar voru á grundvelli a-liðar 1. mgr. 100. gr. laganna, en þær voru 19 talsins og áttu þar hlut að máli aðilar sem höfðu ótímabundið dvalarleyfi hér á landi. Sú lagagrein kveður á um brottvísun hafi viðkomandi afplánað refsingu eða verið dæmdur til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað þriggja ára fangelsi eða meira og átti sér stað á síðustu fimm árum, erlendis eða á síðasta ári hér á landi.
Þá hafa tveir handhafar dvalarleyfis sætt brottvísun með stoð í ákvæði c-liðar 1. mgr. 99. gr. laganna sem mælir fyrir um að brottvísað skuli, hafi viðkomandi verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en eitt ár, eða oftar en einu sinni verið dæmdur í fangelsi á síðustu þremur árum.
Einungis einum handhafa dvalarleyfis hefur verið verið vísað burt á grundvelli f-liðar 1. mgr. 98. gr. laganna sem áskilur brottvísun þegar það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.
Útlendingastofnun bendir á að hafa beri í huga að ákvarðanir um brottvísanir geta verið teknar á grundvelli fleiri en eins ákvæðis útlendingalaga. Fyrir hverja ákvörðun sé þó aðeins hægt að velja einn grundvöll í upplýsingatæknikerfi stofnunarinnar. Þetta þýði að athafnir framangreindra kunna að hafa stangast á við fleiri lagagreinar en þær sem hér eru tilfærðar.