Skúli Óskarsson, einn litríkasti og dáðasti íþróttamaður Íslandssögunnar, er allur. Ævi hans og afrekum eru gerð skil á blaðsíðu 8 í blaðinu í dag en það er bara hluti af lífshlaupi tvöfalda íþróttamanns ársins og heimsmethafans í kraftlyftingum

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Skúli Óskarsson, einn litríkasti og dáðasti íþróttamaður Íslandssögunnar, er allur.

Ævi hans og afrekum eru gerð skil á blaðsíðu 8 í blaðinu í dag en það er bara hluti af lífshlaupi tvöfalda íþróttamanns ársins og heimsmethafans í kraftlyftingum.

Ég kynntist honum sem barn og unglingur austur á Fáskrúðsfirði. Skúli var einn af bestu fótboltamönnum Leiknis, var eldfljótur kantmaður sem átti minnisstæðar rispur upp völlinn með boltann á tánum.

Ekki síst þegar hann átti í höggi við Sigurþór tvíburabróður sinn sem var bakvörður í liði Hugins á Seyðisfirði.

Af og til fór hann með okkur guttana á fótboltaæfingar í litla íþróttasalnum við barnaskólann eða var með okkur á sparkvellinum þar fyrir neðan.

Hann var líka magnaður spretthlaupari. Við vorum samherjar í frjálsíþróttaliði Leiknis sumarið 1975 þegar við urðum Austurlandsmeistarar og Skúli hljóp á sundskýlunni einni fata þegar hann vann 100 metra hlaupið með yfirburðum.

Þá hafði hann þegar stundað lyftingar í nokkur ár með góðum árangri og var farinn að láta að sér kveða. Gott ef hann setti ekki einhvern tíma Íslandsmet í félagsheimilinu Skrúði þegar hann sýndi hvernig ætti að lyfta lóðum á sjómannadeginum.

Síðustu árin lágu leiðir okkar Skúla oft saman í sundlauginni eða þreksalnum í Versölum í Kópavogi þar sem hann var fastagestur á báðum stöðum.

Hann var orðinn lélegur til gangs og hreyfingar en góða skapið var alltaf á sínum stað. „Ég get alla vega enn þá sagt sögur,“ sagði Skúli og hló innilega síðast þegar við hittumst við sundlaugina. Takk fyrir allt, Skúli Óskarsson.