Gunnar V. Kristjánsson fæddist 22. mars 1928. Hann lést 27. maí 2024.

Útför Gunnars fór fram 10 júní 2024.

Látinn er kær vinur hann Gunni á Sólbakka. Gunnar kvaddi þessa tilvist á brúðkaupsdeginum þeirra Jónu og hélt til veislu í sumarlandinu til Jónu sinnar, Lindu dóttur þeirra og annarra fallinna ástvina sem hafa örugglega tekið á móti honum með útbreidda faðma. Það er ekki sjálfgefið að ná 96 ára aldri og það er örugglega erfitt þegar heilsan gefur sig og mein hola manninn innan frá og ég er viss um að hann hefur tekið hvíldinni fagnandi og hún verið léttir frá þrautum.

Gunnar og Jóna frænka voru einstök og ávallt gott að kíkja til þeirra í kaffisopa og spjall í gegnum árin. Á fallega heimilinu þeirra fann maður að þar ríkti ást og hamingja og þar var gestum vel tekið og ég man ekki eftir að hafa komið eða farið þaðan án þess að fá faðmlag.

Þau hjónin voru samrýmd og nutu þess að ferðast, þau voru miklar félagsverur og voru meðal annars driffjaðrir í ferðaklúbbnum Eddu sem fór víða um heim og var Gunnari þar ásamt fleirum falið að skipuleggja ferðir og uppákomur.

Gunnar sinnti um ævina ýmsum störfum, var m.a. vöru- og leigubifreiðarstjóri en mestan hluta starfsævinnar var hann starfsmaður í Fríhöfninni.

Eftir að Jóna lést árið 2016 hélt Gunnar áfram heimili þeirra á meðan hann hafði heilsu til en síðustu mánuðina dvaldist hann á Hlévangi í Keflavík.

Ég kveð þennan öðling sem var mér kær eins og frændi.

Huldu, Einari og Lindu ásamt fjölskyldum og afkomendum sendum við hjónin hugheilar samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum, megi hinn hæsti höfuðsmiður styrkja ykkur. Minningin um góðan mann lifir.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Valþór S. Jónsson.