Spenna í stjórnmálum eykst, brestir í ríkisstjórninni, fylgi stjórnarflokka á fallanda fæti, en Samfylkingin undir stjórn Kristrúnar Frostadóttur með upp undir 30% fylgi.
Það er dágott í ljósi þess að þingflokkur Samfylkingar er smár og „gamla Samfylkingin“ þar í meirihluta; ný stefnumál Kristrúnar flest óframkomin og fátt vitað um nýja frambjóðendur, þó til standi að endurnýja þingflokkinn og mögulega 18-20 þingsæti í boði.
Sumir hafa í því samhengi minnst á Dag B. Eggertsson, fv. borgarstjóra, sem vel geti hugsað sér að fara yfir í landsmálin. Aðrir munu meira efins; árangur hans í kosningum sé misjafn, hann geti orðið of fyrirferðarmikill og svo geti fjárhagskröggur borgarinnar, lóðaúthlutanir og fleira reynst honum og flokknum fótakefli.
Því vakti athygli að í morgunþætti Bylgjunnar í gær ræddi Kristrún húsnæðiskreppuna í Reykjavík og lá ekkert á þeirri skoðun að borgin hefði brugðist. Hún nefndi Dag ekki á nafn en talaði gegn stefnu hans, þétting dygði ekki, byggja þyrfti ný hverfi: „Ég get alveg verið mjög gagnrýnin á þetta, bæði gagnvart sveitarfélögum og ríkinu. […] Það hefur ekki verið haldið almennilega á þessum málum.“
Það bendir ekki til þess að Dagur sé ofarlega á blaði Kristrúnar fyrir „nýju Samfylkinguna“.