Ólöf Jónsdóttir fæddist í Minni-Hattardal í Súðavíkurhreppi 15. apríl 1948. Hún lést á heimili sínu 2. júní 2024.

Foreldrar Ólafar voru Ragnhildur Magnúsdóttir, f. 20.7. 1922, d. 3.6. 1986, og Jón Björnsson, f. 24.8. 1916, d. 18.3. 1982, bændur í Minni-Hattardal. Ólöf var fjórða í röð ellefu systkina. Hin eru: Björn Halldór, f. 1943, Einar, f. 1945, Ásmundur, f. 1946, d. 1972, Magnús, f. 1949, d. 2003, Gísli, f. 1953, Guðbjörg, f. 1955, Sigríður, f. 1956, drengur f. 1961, lést sama ár, Halldóra Björk, f. 1962, og Ingibjörg Rúna, f. 1967.

Ólöf giftist Jóhanni Sigurði Guðmundssyni, f. 1942, d. 2005. Þau skildu. Sonur þeirra er: 1) Jón Ólafur, f. 26. nóvember 1966, kærasta hans er Helga Braga Jónsdóttir, börn hans eru sex: a) Katrín Inga, f. 1982, börn hennar Þorgils Uxi og Þorgnýr Tjaldur, b) Elín Fjóla, f. 1985, sambýlismaður Geir Magnússon, barn þeirra Eva Glódís. Börn Elínar eru Embla Rán og Lena Þöll. Fyrir átti Geir Róbert, Sögu Þöll og Ými Darra. c) Arnór Smári, f. 1989. d) Ingi Rúnar, f. 1993. e) Patrekur, f. 1995, sambýliskona Celina, barn þeirra Ilma. f) Juliane, f. 1998.

Ólöf giftist Baldri Jónssyni, f. 1947, d. 2016. Þau skildu. Dætur þeirra eru þrjár: 2) Ragnhildur Guðrún, f. 27. október 1972, maki Róbert Rúnar Sigmundsson, börn þeirra a) Arnar Þór, f. 1990, sambýliskona Arna Rán Arnarsdóttir, sonur þeirra Róbert Arnar, b) Ágústa Rós, f. 1998, sambýlismaður Baldur Ingi Agnarsson. 3) Rósamunda Jóna, f. 19. febrúar 1974, maki Ingi Þór Ágústsson, börn þeirra a) Kristófer Snær, f. 2006, b) Katrín Lóa, f. 2008. Fyrir á Ingi Þór tvær dætur, c) Telmu, f. 1989, maki Gunnar Már Þráinsson, börn þeirra eru Sesselja Sól, Þráinn Máni og Gunnar Stormur, d) Andreu, f. 1995, sambýlismaður Þorsteinn Rúnar Steinþórsson. 4) Ásmunda Björg, f. 14. mars 1977, maki Hafliði Páll Guðjónsson, barn þeirra a) Guðjón Berg, f. 2018. Barnsfaðir Finnur Guðni Þórðarson, sonur þeirra er b) Baldur Már, f. 1999, maki Rakel Heba
Ingadóttir, dóttir þeirra Íris Björg. Fyrir á Hafliði fjögur börn, c) Christopher, d) Unu Rakel, maki Aron Daníelsson, börn þeirra Daníel Orri og Máney Harpa, e) Droplaugu Maríu, sambýlismaður Hilmir Guðni Heimisson, og f) Matthildi.

Ólöf ólst upp í Hattardal og stundaði skólagöngu í Súðavík. Á fullorðinsárum flutti hún á Ísafjörð og hóf sinn búskap þar. Á árinu 2001 flutti hún til Akraness og bjó þar til dánardags. Á ævi sinni vann hún ýmis verkamannastörf. Það lék allt í höndum Ólafar og skilur hún eftir sig mikið safn af fallegum hannyrðum, sérstaklega sem hún hafði prjónað, og skörtuðu börn, barnabörn og aðrir iðulega flíkum sem hún hafði hannað sjálf og prjónað. Hún var virk í starfi slysavarnafélagsins á Akranesi og í félagi eldri borgara.

Útför Ólafar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 12. júní 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku mamma.

Ég veit ekki hvar ég á að byrja enda er ég ekki ennþá búin að meðtaka að þú sért farin. Litli guttinn minn bara 5 ára og átti eftir að gera svo margt með ömmu sinni. Manni fannst eins og maður ætti svo langan tíma eftir með þér og núna vildi maður að tíminn hefði verið nýttur ennþá betur.

Alla tíð hefur þú alltaf staðið fast við bakið á mér og mínum sama hvað maður hefur tekið sér fyrir hendur og hvað gengið hefur á. Alltaf léstu þarfir allra annarra ganga fyrir og hugsaðir síðast um þínar. Þvílík vinnusemi og dugnaður einkenndi þig. Bættir við þig vinnu til að við systkinin gætum gert það sem okkur langaði til, æft íþróttir eða farið á dansnámskeið, eða hvað sem það nú var hverju sinni.

Alltaf verið sjálfstæð og séð um hlutina sjálf. Man ekki einu sinni eftir að hafa heyrt þig kvarta þótt sjónin hafi nánast verið farin, heldur bara hélst áfram og skammaðir mann ef maður ætlaði að aðstoða of mikið. Gast alveg gert hlutina sjálf.

Þvílík listakona í höndunum og skilur eftir þig allar þessar peysur, vettlinga, sokka og ýmsar aðrar gersemar sem börn og barnabörn skarta, já og margir aðrir líka. Það var ótrúlegt að sjá þig prjóna eftir minni eftir að sjónin fór. Þá eru líka ófáar flíkur sem þú hefur saumað í gegnum árin. Áttir heldur ekki í vandræðum með að skella upp veisluborðum hvort sem það var fyrir afmæli, skírnir eða fermingar.

Fylgdist vel með öllum barnabörnunum og varst endalaust stolt af þeim. Elskaðir að eyða tíma með þeim og gerðir allt sem þú gast fyrir þau. Baldur minn var heppinn að fá góðan tíma með þér í sinni æsku, sérstaklega á þeim árum sem við bjuggum saman. Alltaf stökkstu af stað ef það var eitthvað sem okkur vantaði. Ljómaðir svo öll þegar litla daman hans Baldurs, hún Íris Björg kom.

Ég mun alltaf brosa út í annað og hugsa til þín þegar karlinn í tunglinu skín skært þar sem hann fékk allan matinn minn í æsku í viðleitni þinni til að fá mig til að borða eitthvað af honum.

Mamma, ég elska þig og sakna þín. Vona að þér líði vel á þeim stað sem þú ert á í dag. Trúi því að við eigum eftir að hittast aftur.

Þín dóttir,

Ásmunda Björg.

Elsku mamma.

Það er svo erfið tilhugsun að vita að ég fái ekki að hitta þig aftur eða heyra í þér. Þú ert sú manneskja sem ég lít mest upp til þó að ég hafi kannski ekki beint áttað mig á því fyrr en ég var orðin fullorðin hversu sterk þú varst og hversu lífið var oft erfitt og ósanngjarnt. Þú varst alltof ósérhlífin, svakalega dugleg, ákveðin og næstum því þrjóskasta og þverasta manneskja sem ég þekki. Það lék allt í höndunum á þér, allar fallegu prjónaflíkurnar og það sem þú saumaðir. Það er ótrúlegt að hugsa til þess hvað þú komst yfir að gera þegar við vorum að alast upp. Þú vannst baki brotnu en hafðir samt tíma til að sauma og prjóna á okkur flíkurnar, klippa eða setja permanent í hárið á sjálfri þér eða vinkonum þínum. Skrúfa í sundur rafmagnstæki, laga þau og setja saman aftur. Það mátti aldrei henda neinu heldur átti alltaf að nýta allt og þú lagaðir hlutina sjálf.

Þú kvartaðir aldrei og áttir erfitt að biðja um eða fá hjálp, t.d. þegar kom að dekkjaskiptum á bílnum og maður spurði þig hver hefði náð í dekkin niður í geymslu þá kom svarið: ég gerði það sjálf og þá skipti ekki máli þó að þú værir komin yfir sjötugt og skýringin var kannski: heldur þú að ég sé algjör aumingi. Oftast fór maður í að gera hlutina og hjálpa til þó að þú bæðir ekki um það. En alltaf varstu þakklát fyrir.

Alltaf varstu reiðubúin að stökkva til ef maður bað þig um eitthvað. Það var ómetanlegt fyrir okkur þegar við fluttum til Akureyrar að þú hefðir á fyrstu skóladögum Kristófers og Katrínar Lóu í nýjum skóla verið til taks fyrir þau og tekið á móti þeim að skóladegi loknum. Þér fannst lítið mál að setja allt til hliðar og dvelja hjá okkur í margar vikur. Það var svo gaman að sjá ykkur Lóurnar sitja svo tímunum skipti við að prjóna og að sjá hversu hæfileikarík og fljót hún Katrín Lóa var að ná því sem þú varst að kenna henni. Það var ótrúlegt að sjá það sem hún var að prjóna og með þig sér við hlið tókst það allt svo vel.

Það er ómetanlegt fyrir okkur að hafa allar þessar minningar, þegar krakkarnir voru að tala um að þú værir örugglega í mafíunni og líklega foringinn þá hlóstu með þeim og varst ekkert að draga úr bullinu í þeim.

Þessir dagar eftir að þú kvaddir hafa verið mjög erfiðir. Þegar viðburðir voru í lífi krakkanna þá hringdum við í þig og sögðum þér frá. Það var erfitt að vita til þess að við vorum ekki búin að hringja í þig og láta þig vita af nemendaverðlaunum og einkunnum við útskrift Katrínar Lóu. Þú fylgdist með og alltaf hrósaðir þú þeim og lést þeim líða vel með það sem þau voru að gera. Það verður skrítið að geta ekki hringt í þig þegar ég er að keyra heim úr vinnunni. Þó að þú hafir oft í upphafi samtals sagt að ekkert væri að frétta þá töluðum við oftast saman þangað til ég lagði bílnum fyrir framan húsið hjá mér og jafnvel lengur.

Elsku mamma, ég er ekki tilbúin að kveðja þig og mér finnst svo ósanngjarnt að þú sért rifin frá okkur á þennan hátt, að sjá að í síðustu verslunarferð þinni hafir þú keypt fleiri prjóna sem segir mér bara að þú hafir sjálf ekki verið að búast við því að kveðja strax. Minningarnar lifa með okkur og við munum halda þeim á lofti.

Elsku mamma, ég sakna þín, elska þig og takk fyrir allt.

Þín

Rósamunda Jóna.

Elsku amma.

Orð geta ekki lýst hversu mikið ég sakna þín. Ég mun sakna þess að heyra þig gagnrýna það að ég hrærði í vitlausa átt þegar við bökuðum saman. Þegar við fórum saman á rúnt í Einarsbúð að kaupa snarl ásamt öllum löngu stundunum sem við vörðum saman að prjóna.

Þú varst alltaf til staðar fyrir mig þótt ég hafi kannski ekki alltaf áttað mig á því. Ég hef þekkt þig frá því að ég man eftir mér og þú gerðir allt fyrir mig. Allar þær minningar sem ég á af þér verða mér ávallt ofarlega í huga. Ég gat alltaf talað við þig og gat líka alltaf treyst á að þú nenntir að sitja með mér og prjóna í marga daga ef ekki vikur í sumum tilfellum.

Ég var kannski ekki auðveldasta barnið til að fá í heimsókn upp á Skaga. Ég man alveg eftir að nágrannarnir komu kvartandi til þín en við náðum alltaf að hlæja að því strax á eftir. Við bökuðum alltaf eitthvað gómsætt þar sem þú varst alltaf með bestu uppskriftirnar og í mínum huga varstu alltaf bara besti bakarinn í öllum heiminum.

Við eigum mun fleiri minningar saman en ef ég færi að telja það allt upp myndi þetta breytast í vel langa bók.

Ég elska þig amma og mun alltaf gera það.

Þín

Katrín Lóa.

Að fá þær fregnir að kvöldi 2. júní sl. að þú værir búin að kveðja okkur er erfitt að meðtaka. Það voru ekki nema tíu dagar frá því við töluðum saman í myndsímtali þar sem þú varst að frá fregnir af okkur hvernig við hefðum það, held að þér hafi fundist ég hálfofvirk þar sem þú fékkst að hjálpa mér að taka úr þvottavél, setja í hana aftur og baka á meðan við spjölluðum og hlógum hvor að annarri, ég er svo þakklát fyrir þetta spjall okkar, en að það hafi verið það síðasta er eitthvað sem ég vil ekki meðtaka.

Ég hef oft hugsað út í það hvernig það hafi verið fyrir þig á mínum yngri árum þegar ég notaði símanúmerið þitt eins og neyðarlínu. Símtal til þín þegar ég var að fá móðusýkis- og astmakast í kjölfarið, ef mamma var ekki heima þegar ég datt inn um dyrnar eftir að hafa verið úti að leika. En alltaf gat ég treyst á að hringja í Lóu frænku eða farið heim til hennar bara til að róa mig niður, ég held að það hafi fáir verið eins góðir í því að ná mér niður eins og þú. Þú varst alltaf til staðar fyrir mig.

Lóa frænka var handlagin hvort sem var í prjóna- eða saumaskap, og ekki voru uppskriftir að þvælast fyrir. Þú prjónaðir dress á hann elsku Moncha minn, sem hann er enn að nota þessi elska og er alltaf í því, enda á hann ekkert annað til skiptanna! Ég hef alltaf haldið mikið upp á þetta dress hans. Einnig held ég mikið upp á færeyska dressið sem þú prjónaðir á hann Einar minn, það var húfa, peysa, buxur og sokkar og var notað sem spari og er mjög fallegt.

Ýmislegt var brallað úti í Krók hjá þér, eitt sinn þegar ég var í pössun og við vorum að fara í afmæli þá var hún Gunna þín með það á hreinu hvaða hárgreiðsla var málið, það var túbering, en það var ekki alveg jafn gaman þegar þú hjálpaðir mér að greiða það niður, því við vissum ekkert að það væri gott að fara í sturtu og henda slatta af hárnæringu í hárið og greiða en þú bjargaðir þessu eins og öllu öðru.

Eitt sinn sem oftar vorum við þar komin frændsystkinin að leika okkur, og í þetta sinn í bílkerrunni, en máttum það örugglega ekki, við vorum að labba á milli enda til að láta kerruna vega salt, ég fell við og dett með hökuna á kerrukantinn og fékk stórt sár. Þeir félagar Baldur heitinn og Bjössi frændi létu mig hafa stóran plástur sem ég var svo hamingjusöm með, hljóp á móti þér til að sýna þér sárið og opnaði plásturinn. Þá sendirðu mig inn í bíl og fórst með mig á sjúkrahúsið til að láta laga sárið, og ég man enn í dag þegar læknirinn var að líma sárið saman þá sagði hann alltaf við hvern plástur sem hann setti: líma, líma, líma.

Ekki má gleyma viðskiptunum sem þú áttir í fermingunni minni, þegar rússneskir sjómenn bönkuðu upp á og spurðu hver ætti Löduna á hlaðinu, og það var þín, fyrr en varði varstu búin að selja bílinn.

Ég gæti haldið svona lengi áfram en einhvers staðar verður að láta staðar numið, ég á eftir að sakna símtala okkar og það verður tómlegra án þeirra.

Kæra Lóa, minning þín lifir.

Börnum og fjölskyldu Lóu sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Ragnhildur Einarsdóttir.