Kári Freyr Kristinsson
karifreyr@mbl.is
Vopnuð útköll sérsveitarinnar hafa næstum tífaldast á síðustu tíu árum samkvæmt skriflegu svari Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Njáls Trausta Friðbertssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
Árið 2013 voru vopnuð útköll sérsveitarinnar samtals 50 en til samanburðar voru þau orðin 461 á síðasta ári. Á sama tíma hefur fjöldi útkalla þar sem almenn lögregla vopnast nær tvöfaldast frá því árið 2016. Á því ári voru tilvikin samtals 90 talsins en árið 2023 voru þau 180.
Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, segir í samtali við Morgunblaðið að líkleg skýring á fjölguninni sé aukinn vopnaburður almennings. Segir hann lögreglu lengi hafa vakið athygli á þeirri þróun.
„Vopnuðum útköllum hefur fjölgað og það var ein röksemdanna fyrir rafvarnarvopnunum á sínum tíma, að fleiri hnífar og vopn eru í umferð,“ segir Fjölnir. Hann segir að ef það liggi fyrir að menn séu vopnaðir þegar lögreglan er kölluð út sé sérsveitin fengin til liðs við lögregluna ef hún er laus.
„Það eru strangari reglur um að hafa fullan viðbúnað og taka enga áhættu,“ segir Fjölnir. Það sé meiri umræða um það hversu mikið af vopnum sé í umferð. Bendir hann á að fleiri fréttir hafi verið fluttar af hnífstungum og skotárásum síðustu misseri en áður.
„Ég sem formaður óttast öryggi lögreglunnar og að þetta sé orðið hættulegra starf en það var,“ segir Fjölnir. Vopnum sé beitt í auknum mæli en ekki einungis notuð til þess að ógna eða hóta mönnum.
„Það vill enginn lifa í óttasamfélagi þar sem allir eru með vopn. Ég held að það sé ósk lögreglunnar að sem fæstir séu vopnaðir,“ segir Fjölnir að lokum.