Óli Björn Kárason
„Þótt mikill meirihluti mannkyns búi við ófrelsi og óhæft stjórnarfar, göngum við Íslendingar út frá því sem sjálfsögðum hlut, að hér muni ætíð ríkja lýðfrelsi,“ sagði í leiðara Morgunblaðsins 17. júní árið 1969. Þá var 25 ára afmæli lýðveldisins fagnað: „En þegar hugleitt er, að jafnvel í gamalgrónum lýðræðisríkjum hafa þjóðirnar verið sviftar frelsi sínu, verður ljóst að ekki er það ómerkur árangur að varðveita og efla lýðræðið.“
Höfundur leiðarans hafði uppi varnaðarorð: „… þjóðir glata ekki einungis sjálfstæði sínu vegna þess að þeim tekst ekki að stjórna málefnum sínum innbyrðis á heilbrigðan hátt, heldur og vegna þess, að kúgunaröfl sækja að utan og svifta þær frelsi. Dæmi þess eru deginum ljósari frá fyrri tímum, og enn í dag eru slíkir atburðir að gerast. Við Íslendingar vorum svo gæfusamir á fyrstu árum lýðveldisins, að framsýnir menn réðu stefnu okkar í utanríkismálum og okkur auðnaðist að tryggja öryggi okkar til jafns við stórveldi með þátttöku í Atlantshafsbandalaginu Og þótt við deilum stundum á stjórnvöld okkar fyrir að taka ákveðna afstöðu á alþjóðavettvangi – eða taka ekki afstöðu – þá er það staðreynd, að Íslendingar njóta í augum umheimsins fyllstu virðingar, vegna þess að utanríkismálastefna okkar hefur verið ábyrg.“
Næstkomandi mánudag fögnum við Íslendingar 80 ára afmæli lýðveldisins. Varðstöðunni um sjálfstæði þjóðarinnar lýkur aldrei og þá varðstöðu þurfum við öll að standa, hvert og eitt okkar. Sjálfstæðisbaráttunni lýkur því aldrei og í henni „eiga allir að vera þátttakendur, hver á sínum stað“, eins og komist var að orði í leiðara Morgunblaðsins.
Frelsi til að leita og njóta þekkingar
Það er óhætt að segja að sem þjóð hafi Íslendingar nýtt frelsi lýðveldisins vel og raunar betur en flestar aðrar þjóðir. Okkur tókst ekki aðeins að brjótast út úr sárri fátækt í bjargálnir heldur að byggja upp eitt mesta velsældarsamfélag heims. Samkvæmt velsældarvísitölu Sameinuðu þjóðanna situr Ísland í þriðja sæti yfir þau lönd þar sem best er að búa. Aðeins Sviss og Noregur eru ofar. Jafnvel hinir bjartsýnustu á Þingvöllum 1944 gátu ekki látið sig dreyma um að 80 árum síðar yrði Ísland talið í hópi ríkustu þjóða heims, með öflugt velferðarkerfi og meiri jöfnuð en þekkist í þróuðum ríkjum. Þótt oft hafi gefið á bátinn í efnahagsmálum hefur okkur tekist sameiginlega að sigla í gegnum storma og alltaf komið sterkari út úr þeim.
Í hátíðarræðu á 20 ára afmæli lýðveldisins sagði Bjarni Benediktsson (1908-1970) forsætisráðherra að menn yrðu að hafa frelsi til að leita þekkingar og njóta hennar. En þeir yrðu einnig að búa yfir þekkingu til að nota frelsið rétt: „Fátt hefur fyrr og síðar reynst óheillavænlegra en kenningakerfi, sem ætlað er að leysa allan vanda, en bila vegna þess að þau eru byggð á vanþekkingu úrslitaatriða. Æ ofan í æ hefur eðlileg framþróun tafist og jafnvel á okkar dögum hefur mannfólkinu verið ógnað og því steypt í hyldýpisógæfu vegna ofurveldis postula vanþekkingarinnar, sem einir þóttust vita allt og vera sjálfkjörnir til að hafa ráð allra annarra í hendi sér.“
Síðar í ræðunni benti Bjarni Benediktsson á að ekki sé hættulaust fyrir litla þjóð að vera í alfaraleið. Íslendingar líkt og nágrannaþjóðir hafi sameiginlega hagsmuni af því „að friður haldist í heiminum. Þess vegna ber okkur að leggja okkar litla skerf af mörkum í til að svo megi verða.“ Og hann bætti við: „Ef það tekst eins og góðviljaðir menn um heim allan leggja sig nú fram um, þá ætti ekki að þurfa að óttast að sjálfstæði okkar verði einungis stundarfyrirbæri. Öll saga þjóðarinnar sýnir, að engir hafa stjórnað Íslandi betur en Íslendingar sjálfir og einmitt þessa dagana erum við vitni þess, hvílíkur aflgjafi frelsið er margháttaðri menningu og listsköpun. Þess vegna veltur mest á okkar eigin vilja til sjálfstæðis, þeim vilja, sem hefur verið uppspretta afreka þjóðarinnar síðustu áratugi. Guð gefi, að hann verði aldrei brotinn af annarlegum ofbeldisöflum né dofni í okkar eigin brjóstum.“
Vilji til verja sjálfstæði
Það var gæfa okkar Íslendinga að skipa sér í hóp frjálsra lýðræðisríkja og taka þátt í varnarsamstarfi þeirra undir merkjum NATÓ frá upphafi. En hægt og bítandi hefur værukærð færst yfir okkur og við erum farin að líta á að sjálfstæðið sé sjálfgefið og fyrir því þurfi ekki að hafa. Að við getum litið undan þegar farið er fram með ofbeldi gegn frjálsri þjóð og reynt að brjóta hana niður með aðferðum hrotta sem virða í engu sjálfstæði annarra þjóða.
Skömmu eftir innrás Rússa í Úkraínu hvatti Volodimír Selenskí forseti Úkraínu þjóðir heims til að leggja landi sínu lið. Á fjarfundi með leiðtogum Evrópu lagði Selenskí áherslu á að Úkraína yrði að vinna varnarstríðið við Rússa. „Sýnið að þið séuð með okkur,“ sagði hann í ávarpi til Evrópuþingsins á fyrstu dögum innrásarinnar. „Sýnið að þið sleppið okkur ekki. Sannið að þið séuð Evrópubúar og þá mun lífið sigra dauðann og ljósið sigra myrkrið.“
Alþingi hefur verið einhuga í að styðja við Úkraínu í sjálfsvörn gegn innrásarher Pútíns. En stuðningurinn hefur verið gerður tortryggilegur af ýmsum á undanförnum vikum. Líklega er um barnslega óskhyggju og einfeldningshátt að ræða. En varnarbarátta þjóðar gegn vopnuðu ofbeldi verður ekki háð með plástrum heldur með vopnum og skotfærum. Það er holur hljómur í þeim sem segjast í orði vilja styðja við frelsisbaráttu þjóðar en hafna því að við Íslendingar leggjumst á árar með bandalagsþjóðum í viðleitni við að tryggja Úkraínu nauðsynleg vopn til að verjast. Verst er að slíkur málflutningur er vatn á myllu ofbeldismanns sem fer með stríði gegn sjálfstæðri þjóð.
Þegar við fögnum 80 ára afmæli lýðveldisins og þeim gríðarlegu framförum sem átt hafa sér stað eigum við að minna okkar á að við höfum skyldum að gegna gagnvart frjálsri þjóð sem er undir árás nágranna. Yfirgangi ofbeldismanna verður ekki mætt með rómantískum hugmyndum um vopnleysi. Frið er ekki hægt að kaupa með veiklyndi andspænis ofbeldi.
Á 17. júní eigum við að hafa í huga varnaðarorð Selenskís. Ef Úkraína fellur mun „sólin á himni þínum verða daufari“. Þegar ofbeldismenn fara með ófriði reynir á vilja sjálfstæðrar þjóðar til að verja eigið sjálfstæði í samstarfi við vina- og bandaþjóðir.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.