Kristófer Kristófersson fæddist í Keflavík 20. janúar 1964. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi 2. júní 2024.
Foreldrar Kristófers eru Sigrún Sigurðardóttir, f. 20. ágúst 1929 í Hólmaseli í Gaulverjabæjarhreppi, d. 18. maí 2008, og Kristófer Þorvarðarson, f. 11. júlí 1926 á Dalshöfða í Fljótshverfi, d. 5. janúar 1993.
Alsystkini Kristófers eru Guðrún, f. 22. desember 1959, Þorvarður, f. 28. apríl 1961, Birna, f. 26. apríl 1962, Sigurður, f. 29. september 1965, og Jón Páll, f. 22. október 1971. Hálfsystkini Kristófers samfeðra eru Eiríkur, f. 5. apríl 1948, og Elín, f. 14. maí 1949.
Kristófer giftist Koranan Nuanging, f. 22. maí 1974, þann 16. ágúst 2013 og eiga þau eina dóttur, Sigrúnu Nuttanan, f. 16. mars 2015. Fyrir átti Koranan soninn Chayanon Nuanging, f. 4. maí 2001.
Fyrstu ár ævi sinnar bjó Kristófer með systkinum og foreldrum í Ytri-Njarðvík en þau fluttu í Hveragerði 1971 og síðan á Sunnuveginn á Selfossi árið 1978 og bjó hann þar síðan með sinni fjölskyldu. Eftir grunnskólagöngu 1979 hóf hann störf sem sjómaður á Jósef Geir ÁR frá Stokkseyri. Hann var á Guðrúnu GK frá Hafnarfirði í nokkur ár og reri þar með föður sínum og bróður, Sigga, en þeir voru mjög samrýndir bræður og vinir sem fylgdust að frá fyrstu tíð. Á Guðrúnu GK tóku feðgarnir þátt í fjölbreyttum veiðiskap, m.a. veiddu þeir lifandi háhyrninga fyrir sædýrasöfn úti í heimi. Kristófer stundaði sjómennsku sem aðalstarf til margra ára, síðast á togaranum Skutli ÍS. Eftir sjómennskuna ákvað hann að einbeita sér að smíðavinnunni sem hann hafði stundað af og til fram að því. Kristófer starfaði víða sem smiður hér á landi auk þess að starfa í Færeyjum, á Grænlandi og í Noregi. Þótt hann hefði ekki klárað trésmíðanámið var hann eftirsóttur starfskraftur enda harðduglegur, ósérhlífinn og lausnamiðaður. Líf Kristófers breyttist töluvert þegar hann kynntist Koranan árið 2011 og var það mikið gæfuspor fyrir hann. Ekki síst eftir að þau eignuðust Sigrúnu árið 2015 sem hann sinnti af mikilli alúð og áhuga í leik og starfi, þrátt fyrir erfið veikindi sem hann átti við að glíma og greindust fljótlega eftir að hún fæddist. Fjölskyldan var mjög samrýnd og ferðaðist mikið um Ísland ásamt því að fara reglulega til Taílands. Auk þess að sinna fjölskyldu sinni vel ræktaði Kiddi þegar tækifæri gafst til samband sitt við systkini sín og fjölskyldur þeirra og eiga þau öll góðar og dýrmætar minningar um bróður og frænda.
Útför Kristófers fer fram frá Selfosskirkju í dag, 12. júní 2024, og hefst athöfnin klukkan 15.
Elsku Kiddi bróðir.
Þessi óumflýjanlega stund er runnin upp. Það er erfitt að sætta sig við að þurfa að fylgja þér síðasta spölinn nú, en fallegar minningar um góðan, kærleiksríkan bróður og vin hjálpa á þessari stund.
Ég er fullur þakklætis og kærleiks þegar ég renni yfir farinn veg og okkar samskipti allt frá því að ég man eftir mér. Þú hefur alla tíð passað upp á litla bróður, örverpið sem birtist fyrir slysni. Seinna lagðir þú einnig rækt við okkur öll í minni fjölskyldu og sérstaklega dæturnar sem fengu að njóta gjafmildi frænda á jólum og afmælum. Gjafirnar frá þér þóttu ávallt mest spennandi og hugulsemin mikil í kringum þær. Okkur þótti alltaf verðmætt og skemmtilegt að hafa þig hjá okkur á jólum áður en þú stofnaðir þína fjölskyldu og fórst að halda jól með þeim heima á Sunnuveginum eða í Taílandi.
Við eigum eftir að sakna heimsókna þinna til okkar í húsið sem þú áttir svo stóran þátt í byggja fyrir okkur. Þá var gott að treysta á bróður sinn og bræður og áttum við margar góðar stundir við smíðar. Ég dáðist alltaf af kunnáttu þinni og dugnaði við smíðastörfin. Maður lærði fljótt að vinnan göfgar manninn og eitthvert spjall, hangs eða áhugaleysi við byggingarstörfin var bara ekki í boði.
Ég á eftir að sakna þess að geta ekki sótt þig heim á Sunnuveginn, æskuheimili mitt og heimili þitt til síðasta dags. Það var aðdáunarvert að sjá hversu vel þér tókst til við að halda við gamla húsinu okkar og garðinum hennar mömmu. Þrátt fyrir þín erfiðu veikindi sem fylgdu þér eins og skugginn síðustu níu ár.
Þrátt fyrir skugga veikindanna má segja að ljósið sem fylgdi Sigrúnu dóttur þinni og ykkar fallega feðginasambandi hafi ávallt skinið skært og fyllt þig lífsvilja og orku til að berjast áfram. Samtalið sem við áttum kvöldið áður en þú fórst lýsir vel hversu ást þín var mikil á henni og fjölskyldunni þinni. Ég og við í fjölskyldunni allri erum svo þakklát fyrir að fá að standa undir trausti þínu og trú á að við munum halda utan um fjölskylduna þína og fá að hjálpa og fylgjast með Sigrúnu vaxa og dafna um ókomna tíð. Hafðu engar áhyggjur af því, bróðir kær.
Elsku Kiddi, takk fyrir allt og allt.
Jón (Nonni bróðir), Ólína og stelpurnar.
Í dag kveð ég minn kæra bróður Kristófer eða Kidda eins og hann var alltaf kallaður. Við Kiddi höfum alltaf verið mjög nánir og gert mikið saman í gegnum lífið.
Mín fyrsta minning er sumarið 1969 þegar ég fór í sumardvöl austur á Dalshöfða hjá Pálínu ömmu og föðursystkinum okkar. Um haustið þurfti ég að fara heim í skóla en þá kom Kristófer í staðinn fyrir mig, þá aðeins fimm ára gamall. Hér hófst okkar tímabil þar sem við vorum saman á sumrin við vinnu, þar sem okkur voru kennd hin ýmsu störf sem snúa að búskap.
Þetta var ekki eina verkefnið sem við unnum saman við, en árið 1982 vann ég við smíðar á Ísafirði við að innrétta nýja húsið hans Eiríks bróður. Okkur vantaði aðstoðarmann og að sjálfsögðu fengum við hann Kristófer til að koma vestur til að aðstoða okkur um sumarið.
Eftir þetta höfum við unnið saman í gegnum árin við hin ýmsu verk. Ekki var hægt að fá með sér betri mann en Kristófer bróður því hann var alltaf mjög duglegur, ósérhlífinn og útsjónarsamur.
Árið 2011 hófst nýtt hamingjutímabil hjá þér eftir að þú kynntist Koranan. Maður upplifði alveg nýjan Kristófer og ekki minnkaði gleðin hjá þér þegar hún Sigrún fæddist. En þremur mánuðum síðar kom reiðarslagið þegar þú greindist með krabba. Á þessum tíma voru læknarnir ekki bjartsýnir og töluðu um nokkra mánuði, þetta tók mikið á þig þar sem þarna var lífið rétt að byrja með Koranan og Sigrúnu. Það tók þig smátíma að átta þig á hlutunum og að sjá björtu hliðarnar sem þú hafðir með Koranan og Sigrúnu.
Þú lifðir fyrir það að snúast í kringum hana Sigrúnu þína hvort sem það var að hjálpa henni að læra heima fyrir skólann, fara með hana á fótbolta- eða fimleikaæfingar eða að horfa á hana keppa á hinum ýmsu mótum sem hún tók þátt í.
Þú barðist í níu ár, þetta var verkefni sem reyndi á, sumir dagar voru erfiðari en aðrir en alltaf var lífskrafturinn hjá þér mikill. Síðasta sumar var mjög erfitt hjá þér og lást þú mikið inni á spítala, þið fjölskyldan voruð búin að plana Taílandsferð í lok sumars sem þurfti að fresta. Þú barðist eins og ljón til að ná heilsu og fóruð þið fjölskyldan saman til Taílands í desember þar sem þið áttuð góðan tíma saman.
Það var svo gaman að geta haldið með þér upp á sextugsafmælið þitt þann 20. janúar síðastliðinn hjá Jóni Páli, þar var mikil gleðistund með allri fjölskyldunni. Það var líka svo gott að sjá hvað þú varst hress og glaður.
Það er sárt að kveðja þig, bróðir kær, ég á eftir að sakna allra samtalanna okkar á milli sem voru ansi mörg í hverri viku.
Elsku Koranan, Sigrún og Chayanon, söknuðurinn er mestur hjá ykkur, þið voruð það allra mikilvægasta í lífi Kristófers.
Nú ertu horfinn í himnanna borg
og hlýðir á englanna tal.
Burtu er kvíði, sjúkdómur, sorg
í sólbjörtum himnanna sal.
Þeim öllum sem trúa og treysta
á Krist
þar tilbúið föðurland er.
Þar ástvinir mætast í unaðarvist
um eilífð, ó, Jesú, hjá þér.
(Ingibjörg Jónsdóttir)
Þorvarður
Kristófersson.