Bandamenn Úkraínuforseti og Þýskalandskanslari fluttu í gær báðir ávörp í þýska þinginu í Berlín.
Bandamenn Úkraínuforseti og Þýskalandskanslari fluttu í gær báðir ávörp í þýska þinginu í Berlín. — AFP/Britta Pedersen
Innrásarlið Rússlands í Úkraínu verður brotið á bak aftur. Moskvuvaldið stendur frammi fyrir þeim möguleika einum að draga hersveitir sínar til baka – rússneskur sigur í Úkraínu er útilokaður sem og þvingaður friður á þeirra forsendum

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Innrásarlið Rússlands í Úkraínu verður brotið á bak aftur. Moskvuvaldið stendur frammi fyrir þeim möguleika einum að draga hersveitir sínar til baka – rússneskur sigur í Úkraínu er útilokaður sem og þvingaður friður á þeirra forsendum. Þetta segir Olaf Scholz Þýskalandskanslari.

Segir Scholz nú mikilvægt að Vesturlönd sendi Úkraínuher loftvarnakerfi í stórum stíl svo verja megi lofthelgi landsins fyrir sprengjuregni og -vélum Rússlands. Án öflugra loftvarna verður sókn Úkraínuhers á jörðu niðri illmöguleg.

„Ég biðla til allra þeirra sem hér eru viðstaddir: vinsamlegast styðjið frumkvæðisátak okkar sem hefur að marki að stórefla loftvarnir Úkraínu. Sendið þeim allt sem hægt er,“ segir kanslarinn, en ummælin féllu á ráðstefnu sem nú er haldin í Berlín. Á henni ræða fulltrúar Vesturlanda stöðu og framtíð Úkraínu.

Í ávarpi sínu greindi Scholz einnig frá því að þýsk stjórnvöld hefðu þegar ákveðið að senda Kænugarði þrjú Patriot-loftvarnakerfi sem hernaðaraðstoð og munu þau berast þangað fljótlega. Vopnakerfi þetta þykir henta afar vel á vígvöllum Úkraínu og er í hópi þeirra fullkomnustu í heimi.

„Loftvarnir eru lykillinn“

Volodímir Selenskí Úkraínuforseti er einnig staddur í Berlín. Segir hann hersveitir sínar gera allt hvað þær geta til að koma í veg fyrir að innrásarlið Moskvuvaldsins reisi múr og kljúfi þjóðina í tvennt. Með myndlíkingu sinni talar hann beint til þeirra Þjóðverja sem enn muna Berlínarmúrinn og ógnartíma Sovétríkjanna.

„Þið skiljið vel hvers vegna við berjumst svo hart á móti tilraun Rússa til að sundra Úkraínu. Hvers vegna við reynum bókstaflega allt til að koma í veg fyrir að múr rísi og kljúfi land okkar,“ segir Selenskí forseti.

Úkraínuforseti segir Rússa búa yfir einum styrkleika á vígvellinum og það eru yfirburðir í lofti. Takist heimamönnum að granda eldflaugum, sprengjum og loftförum Rússlandshers verður hægt að brjóta innrásarliðið á bak aftur. „Loftvarnir eru lykillinn,“ segir hann. „Helsti styrkur Rússlands umfram Úkraínu eru yfirburðir þeirra í lofti. Það er eldflauga- og sprengjuregn sem hjálpar rússneskum hermönnum á jörðu niðri að sækja fram,“ bætir hann við.

Eitt af því sem rússneskar hersveitir hafa einbeitt sér mjög að sl. vikur og mánuði eru árásir á orkuinnviði Úkraínu, en hersveitir þeirra hafa svo gott sem haldið úti linnulitlum loftárásum á orkuver og aðra innviði. Er nú svo komið að heimamenn verða að skammta mjög rafmagn og slá út einu svæði til að veita rafmagni á annað. Raforkuskortur er um allt land og er rafmagn vanalega skammtað á milli klukkan 14 og 23 dag hvern.

Selenskí segir Moskvuvaldið einnig reyna að koma í veg fyrir að Úkraína geti sótt rafmagn utan landamæra sinna með því að gera árásir á orkuinnviði sem tengjast raforkumarkaði Evrópusambandsins. Skemmdir á vatnsaflsvirkjunum Úkraínu eru „gríðarlegar“, svo gott sem öll orkuver í landinu eru skemmd, að sögn talsmanna orkufyrirtækja, og munu viðgerðir á þeim taka mörg ár.

„Það er tæknilega ómögulegt að gera við skemmd orkuver á skömmum tíma. Það er tímafrekt – mun taka vikur, ósjaldan mánuði og í einhverjum tilfellum ár,“ segir talsmaður orkuinnviða Úkraínu. Kremlverjar segja árásir á orkuver og -innviði „án nokkurs efa“ vera lögmæt skotmörk í hernaði.

Varar við „Rússadindlum“

Volodímir Selenskí Úkraínuforseti segir íbúa Evrópu þurfa að vara sig á falsumræðu og upplýsingaóreiðu um Úkraínustríðið. Innan landamæra Evrópu megi finna talsverðan fjölda af „Rússadindlum“ sem þreytast ekki á að eitra umræðuna með lygum sem uppruna sinn eiga í Kreml. Tilgangur Kremlverja með upplýsingaóreiðu sé helst sá að planta fræjum efasemda um tilgang hernaðarstuðnings Vesturlanda og sundra um leið samstöðu vestrænna ríkja. Slíkt megi ekki gerast nú þegar Úkraína þarf á stöðugum stuðningi að halda. Segir hann sundraða Evrópu einnig hættulega Evrópuríkjum og Evrópusambandinu.

AfD-liðar gegn stuðningi

Fulltrúar hægriflokksins Annar kostur fyrir Þýskaland (AfD) mættu ekki til Berlínarráðstefnunnar. Segja þeir Úkraínu ekki þurfa á „stríðsforseta“ að halda heldur „friðarforseta“. Þykja mörgum þeir þannig vera að ganga erinda Kremlverja og er óttast að uppgangur hægri afla í Evrópu ýti víðar undir þessa orðræðu.

Höf.: Kristján H. Johannessen