Geir Waage
Geir Waage
Öll hafa Nató-ríkin borið fé á Kænugarð, vitandi það sem alkunna er, að hvergi er spilling þroskaðri og gripdeildir fimlegri en þar á bæ.

Geir Waage

Það er sammerkt þeim styrjöldum sem Vesturveldin standa að um þessar mundir að átökum á vígvöllum fylgja kúgunaraðgerðir á efnahagssviði auk áróðursstríðs í fjölmiðlum.

Vesturveldin eru að baki ófriðnum í Úkraínu og í Palestínu með mismunandi hætti. Margir telja að zíonistar í Ísrael hafi sjálfir lagt drög að styrjöld sem nú stendur allt frá stofnun ríkisins, en einkum með viðbrögðum sínum við herhlaupi Hamas í október sl. Þau viðbrögð hafi brotið af Ísrael samúð þorra heimsbyggðarinnar; leiðtogar Vesturvelda styðja þá, en vaxandi meirihluti fólks hefur snúizt gegn þeim. Verst er þeim, að áróðursstríðið hefur tapazt. Fjölmiðlar greina frá atburðum, þótt fréttamenn gjaldi fyrir með lífi sínu. Stríðið er tapað hvernig sem gengur á vígvelli. Hörmulegt er hlutskipti þeirra gyðinga, sem saklausir eru af zíonisma, en eru í vaxandi mæli ofsóktir fyrir meinta glæpi þeirra. Þessum gyðingum fjölgar um heim allan.

Öðru máli gegnir um stríð í Úkraínu. Vesturveldin misstu þegar í öndverðu undirtök í efnahagsþvingunum; stórefldu efnahag Rússa á kostnað Evrópuríkja þar sem Þýzkaland hefur lengi knúið áfram velsæld Evrópusambandsins. Treglega drógust þeir til aðildar að hernaði; sendu fyrst hjálma, síðar vígdreka og lofa nú orrustuþotum: Neita þó um langdræg skeyti sem önnur Nató-ríki hafa látið í tje ásamt áhöfn og miðunartækni og þannig eignazt beina aðild að stríðinu. Þagað er um fallna Nató-hermenn. Öll hafa Nató-ríkin borið fé á Kænugarð, vitandi það sem alkunna er, að hvergi er spilling þroskaðri og gripdeildir fimlegri en þar á bæ.

Rússar hafa nú öll undirtök á vígvelli: Hafa einbeitt sjer að því að eyða herliði og búnaði Úkraínu með þeim árangri, að þrír öflugustu herir sem Vesturveldin hafa þjálfað og vopnað í álfunni frá stríðslokum liggja nú í valnum og vopnabúr Nató tæmast.

Eftir stendur áróðursstríðið. Þar er ekkert lát á. Þó eru farnar að birtast fréttir, greinar og myndbönd, jafnvel í opinberum miðlum á Vesturlöndum, sem opna sýn á veruleikann þótt enn megi heyra furðusögur af frumstæðum, heimskum, drukknum og getulausum Rússunum sem berjist með skóflum, safni örflögum úr ísskápum og þvottavélum í græjurnar sínar og falli þúshundruðum saman.

Að baki þessum áróðri sem öllu snýr í andhverfu sína má greina það sem hvorki má heyrast eða segja, að styrjöldin í Úkraínu hófst með byltingu á vegum Bandaríkjamanna árið 2014. Byltingarstjórnin hóf strax borgarastyrjöld gegn rússneskumælandi íbúum ríkisins. Rússar komu þeim til hjálpar. Friður var saminn í Minsk. Honum var ekki fylgt eftir. Allar götur síðan skaut Kænugarðsstjórnin á íbúa Donetsk-borgar úr fallbyssum þar til fyrir skömmu, er Rússar tóku víghreiður hennar í Avdikva. Friður var saminn í Konstantínópel í apríl 2022. Þeim friði spillti Boris Johnson og annar aðalsamningamaður Kænugarðsstjórnar fannst myrtur í kjölfarið. Hinn lifir og mun vera forseti þingsins þar. Hann hefur staðfest, að samningar höfðu tekizt er þeim var spillt. Þessi forsaga hefur ekki farið hátt í vestrænum fjölmiðlum frekar en aðdragandi atburða ársins 2014: Útþensla Nató í austur. Myndu Bandaríkin þola kínverskar eða rússneskar herstöðvar í Mexíkó eða Kanada?

Í Mbl. 6. júní getur að lesa trúarjátningu utanríkisráðherra Íslands um þessa atburði. Ríkisstjórn hennar hefur lofað því, að hún muni bera fjóra milljarða króna af skattfje Íslendinga árlega í sársvanga óligarkana í Kænugarði utan allra fjárlaga. Þetta er vitaskuld gert í þágu réttlætis, friðar og mannréttinda, en svo sem kunnugt er af ummælum forystu ríkisstjórnarinnar mun Kænugarðsstjórnin vera útvörður evrópskra og vestrænna gilda í veröld manna! Þar situr fyrrverandi forseti ríkisins án annars umboðs en þess sem hann gaf sér sjálfur að loknu kjörtímabili. Forysta stærsta stjórnarandstöðuflokksins situr í fangelsi eða liggur í moldu.

Öryggislögregla landsins heldur úti opinberum lista yfir þá menn heima og heiman sem hún vill feiga og hefur ekki látið sitja við orðin tóm. Öll er öfugmælavísa ráðherrans stef um ágæti hernaðarbandalags sem í öndverðu var stofnað gegn öllu því sem Vesturveldin ástunda nú um heim allan. NATÓ hætti að vera varnarbandalag þegar því var ólöglega beitt til árása á Júgóslavíu fyrir tveimur áratugum og hefur síðan verið beitt til árása á ríki utan Evrópu og staðið að hernaði í Líbíu og í Afganistan. Nú er óskað aðildar Nató að „öryggisaðgerðum“ á Kyrrahafi í námunda við Taívan, sem Bandaríkin og flest aðildarríki Nató, þar með talið Ísland, viðurkenna þó opinberlega að sé hluti Kína.

Það sem er þó öldungis rétt hjá ráðherranum er að Ísland er aðili að Nató. Á þó ekkert erindi á vígvelli bandalagsins, hvorki með aðgerðum beinlínis né óbeinlínis. Þar ættu Íslendingar hins vegar að tala fyrir friði og leggja honum lið í stað vígbúnaðar. Satt sagði Kissinger heitinn er hann mælti: „Það má vera hættulegt að eiga Bandaríkin að óvini, en að eiga þau að vini er banvænt.“* Þetta mætti ráðherrann íhuga á milli þess sem hún fer með hina „vestrænu“ trúarjátningu sína einslega og opinberlega.

*WSJ 10.12. 2023

Höfundur er pastor emeritus.

Höf.: Geir Waage