40 ára Salvar ólst upp í Kópavogi til 12 ára aldurs en flutti þá til Akureyrar og bjó þar út menntaskólaárin. Eftir útskrift af eðlisfræðibraut Menntaskólans á Akureyri flutti hann aftur til Reykjavíkur og hefur búið þar síðan, að undanskildum…

40 ára Salvar ólst upp í Kópavogi til 12 ára aldurs en flutti þá til Akureyrar og bjó þar út menntaskólaárin. Eftir útskrift af eðlisfræðibraut Menntaskólans á Akureyri flutti hann aftur til Reykjavíkur og hefur búið þar síðan, að undanskildum fjórum árum í Kanada og Bretlandi, og býr hann í Vesturbænum. Salvar er með B.Sc.-gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og vann meðfram náminu sem blaðamaður á Fréttablaðinu. Hann lauk síðan M.Sc.-námi í viðmótshönnun frá Simon Fraser University í Vancouver.

Salvar er vörustjóri í hugbúnaðargerð hjá Reykjavíkurborg og hefur starfað þar í rúmt ár. „Ég sé um ábendingavefinn sem er gátt fyrir íbúana og alla í rauninni til að benda á hvað sem er, hvort sem það er bilaður ljósastaur eða hola í götunni. Svo sé ég um tilraunaverkefni sem snýst um að gera sundkort rafræn. Þá getur maður keypt miða í símanum og skannað sig inn.

Ég er mikill áhugamaður um frisbígolf og svo hefur aldrei elst af mér tölvuleikjaspilun. Í einhverri annarri tímalínu hefði ég mögulega endað í tölvuleikjagerð en sennilega ekki þessari, nema sem áhugamál að búa til leiki sjálfur. Ég er eins og rithöfundur, sem er með bók í maganum en er ekki byrjaður að skrifa hana. Þetta er á því stigi.“

Fjölskylda Maki Salvars er Helga Þórey Önnudóttir Jónsdóttir, f. 1975, MA í menningarfræði og var að klára kennararéttindin. Hún kennir við Menntaskólann við Sund. Sonur Salvars frá fyrra sambandi er Seifur, f. 2016. Sonur Helgu Þóreyjar er Tindur Helguson Einarsson, f. 2009. Foreldrar Salvars eru hjónin Sigurður Þór Salvarsson, f. 1955, fjölmiðlafræðingur, þýðandi og fv. blaðamaður, og Guðrún Alda Harðardóttir, f. 1955, doktor í leikskólafræðum. Þau stofnuðu og ráku leikskólann Aðalþing, en njóta nú eftirlaunaáranna á Alicante stærstan hluta ársins. „Þau koma samt alltaf heim til Íslands á sumrin sem er mjög fínt því þá er laus íbúð á Alicante fyrir fjölskylduna. Við erum einmitt að fara þangað með strákana okkar eftir viku.“