Börnin Þorgerður, Logi, Jón Ívar heldur á Kára og Edda Eik árið 2020.
Börnin Þorgerður, Logi, Jón Ívar heldur á Kára og Edda Eik árið 2020.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nanna Viðarsdóttir fæddist 12. júní 1974 í Reykjavík. „Ég fæddist á Íslandi en fluttist eins árs gömul til Noregs og bjó þar næstu sex árin. Fjölskyldan flutti þá heim og ég hóf skólagöngu í Varmárskóla

Nanna Viðarsdóttir fæddist 12. júní 1974 í Reykjavík.

„Ég fæddist á Íslandi en fluttist eins árs gömul til Noregs og bjó þar næstu sex árin. Fjölskyldan flutti þá heim og ég hóf skólagöngu í Varmárskóla. Eftir tveggja ára dvöl í Mosfellsbænum fluttist fjölskyldan í Efra-Breiðholt og þar eyddi ég æskuárunum. Hólabrekkuskóli var skólinn minn og þar eignaðist ég mína bestu vini sem ég umgengst enn mikið í dag.“

Á unglingsárunum fékk faðir Nönnu starf hjá Þróunarsamvinnustofnun við að veita heimamönnum í Namibíu ráðgjöf í tengslum við stjórn fiskveiða. Fjölskyldan fluttist þá til bæjarins Swakopmund í Namibíu. Þá tók við nýr kafli í lífi Nönnu, skólaganga næstu þrjú árin við English High School of Swakopmund.

„Það var mikið ævintýri að flytja til Afríku. Fyrst í stað fannst mér erfitt að flytja mig um set. Að vissu leyti fannst mér verið að rífa mig upp með rótum, frá vinum og unglingsárum í Reykjavík en með tíð og tíma fann ég fegurðina í lífinu þar, ég eignaðist góða vini og öðlaðist dýrmæta reynslu af því að búa í nýju samfélagi sem er að mörgu leyti ólíkt því sem við þekkjum.“

Um tvítugt flutti Nanna svo aftur til Íslands og hóf í kjölfarið nám í líffræði í Háskóla Íslands. Hún lauk BS-gráðu þaðan árið 1999 og MBA-námi við Háskólann í Reykjavík árið 2005.

Hún hóf störf hjá Íslenskri erfðagreiningu í febrúar 2000 sem starfsmaður á rannsóknarstofu. Þar hefur hún starfað óslitið síðan og gegnt þar ýmsum störfum, við rannsóknir, fjármál og starfsmannahald. Árið 2021 tók hún við starfi mannauðsstjóra fyrirtækisins.

„Ég hef kunnað mjög vel við mig hjá Íslenskri erfðagreiningu á meðal þess hæfileikaríka fólks sem þar starfar. Það er sjálfsagt ekki algengt að hafa alltaf starfað hjá sama fyrirtækinu en þannig hefur það atvikast hjá mér. Ég hef fengið ný tækifæri þar, sem ég hef verið þakklát fyrir og uni hag mínum vel þar.“

Nanna og fjölskylda hennar hafa tekið upp á ýmsu saman. Þau hafa ferðast víða og eftirminnilegasta ferðalagið er hálfs ár fæðingarorlof sem þau eyddu á ferðalagi um Mið- og Suður-Ameríku árið 2018.

„Við vorum að velta fyrir okkur hvort við gætum ekki ferðast eitthvað saman í fæðingarorlofinu eftir að við eignuðumst yngsta soninn. Við maðurinn minn höfðum bæði búið erlendis og vildum gefa börnum okkar færi á því sama. Á endanum ákváðum við að taka drengina okkar úr skóla og fara í langt ferðalag.

Við heimsóttum Kúbu, Mexíkó, Kólumbíu, Gvatemala og Perú og eignuðumst þar afar dýrmætar minningar. Dætur okkar, sem voru þá í námi á Íslandi, heimsóttu okkur um jólin. Börnin tóku köfunarpróf og lögðu stund á spænsku. Við tókum námsbækur drengjanna með og gerðumst barnakennarar á virkum dögum. Verst þótti sonum okkar þó að vera teknir af fótboltaæfingum en við leystum það með því að skrá þá á æfingar með fótboltaliðum í þeim bæjum sem við dvöldum í. Okkur reiknast til að þeir hafi æft með um 10 fótboltaliðum meðan á ferðalaginu stóð. Þegar heim kom hafði yngsti sonur okkar, sem þá var eins og hálfs árs gamall, flogið sextán flugferðir, þannig að það er óhætt að segja að hann sé vel sigldur.“

Nanna hefur mikinn áhuga á handavinnu hvers konar og notar þá tækifærið til að hlusta á hljóðbækur. Í frístundum stundar hún síðan golf, skíði og stangveiði með fjölskyldu og vinum. Best þykir henni að vera í sumarhúsi fjölskyldunnar í Kiðjabergi þegar færi gefst.

„Ég hef verið ötull stuðningsmaður barna minna í leik og starfi, ekki síst í tengslum við nám þeirra og íþróttaiðkun. Ég hlakka mikið til að fylgja þeim eftir í því sem þau taka sér fyrir hendur.“

Fjölskylda

Eiginmaður Nönnu er Þórólfur Jónsson, f. 5.9. 1974, lögmaður á LOGOS lögmannsþjónustu. Þau búa í Vesturbæ Reykjavíkur. Foreldrar Þórólfs: Hjónin Jón Magnús Benediktsson, f. 26.2. 1951, fyrrverandi framkvæmdastjóri, býr í Ártúnsholti í Reykjavík, og Þorbjörg Ólafsdóttir, f. 8.1. 1950, d. 11.5. 2021, ljósmóðir.

Börn Nönnu og Þórólfs eru 1) Edda Eik Vignisdóttir (stjúpdóttir Þórólfs), f. 12.3. 1998, nemi í tölvunarfræði við HR, býr í Sunnusmára í Kópavogi; 2) Þorgerður Þórólfsdóttir, f. 16.4. 2000 (stjúpdóttir Nönnu), nemi í læknisfræði við HÍ, býr á Bárugötu í Reykjavík. Maki: Guðmundur Freyr Arnarson, nemi í verkfræði í HÍ; 3) Jón Ívar Þórólfsson, f. 19.2. 2006, nemi við Verzlunarskóla Íslands; 4) Logi Þórólfsson, f. 14.9. 2008, nemi við Hagaskóla, og 5) Kári Þórólfsson, f. 28.10. 2017, nemi í Melaskóla.

Hálfsystkin Nönnu eru Ágúst Freyr Tackács Ingason, f. 22.9. 1969, sérfræðingur á sviði viðskiptaþróunar og framleiðandi, býr í Reykjavík, og Katrín Le Roux Viðarsdóttir, f. 2.7. 1996, nemi við HÍ og yfirþjónn, býr í Reykjavík.

Foreldrar Nönnu eru Rannveig K. Baldursdóttir, f. 25.4. 1951, iðjuþjálfi, býr í Kópavogi og Viðar Helgason, f. 25.2. 1950, fiskifræðingur, kvæntur Louise Le Roux, f. 6.12. 1970, rannsóknar- og þróunarstjóra, og búa þau í Breiðholti.