Raforkuflutningsfyrirtækið Landsnet, sem er í eigu ríkisins, segir frá því í nýrri frétt á heimasíðu sinni að það hafi keypt 310 GWst af rafmagni í útboði á dögunum fyrir 9.418 króna meðalverð á megawattstund.
Í fréttinni segir að kerfisstjórn Landsnets kaupi rafmagn á raforkumarkaði til að mæta flutningstapi en flutningstöp séu sú raforka sem tapast vegna viðnáms í raflínum og spennum í raforkuflutningskerfinu. „Um 2% þeirrar raforku sem mötuð er inn á kerfið tapast á leið til notenda. Það samsvarar um 400 GWst/ári sem jafngildir framleiðslu Kröflustöðvar,“ er útskýrt í fréttinni.
Landsnet er einn stærsti kaupandi raforku á Íslandi.
Jafnframt kemur fram að um 34% verðhækkun á meðalverði sé að ræða frá því í fyrra.
Til samanburðar má geta þess að raforkumarkaðurinn Vonarskarð, sem er sá eini hér á landi og er í einkaeigu, hélt nýlega söluferli þar sem raforkuverðið var rúmlega 10% lægra. Mismunurinn samsvarar rúmlega 250 milljónum króna.
Sex markaðsaðilar tóku þátt í útboði Landsnets; HS Orka, N1, Orka heimilanna, ON, Rafhlaða og Straumlind. Athygli vekur að stærsti raforkusali landsins, Landsvirkjun, tók ekki þátt en fyrirtækið er reglulegur þátttakandi á raforkumarkaði Vonarskarðs.
Það var Elma Orkuviðskipti, dótturfyrirtæki Landsnets, sem hélt utan um útboðið fyrir Landsnet en um fyrsta útboð Elmu var að ræða. Markmið Elmu er að stofna raforkumarkað í samkeppni við Vonarskarð. Í fréttinni segir Katrín Olga Jóhannesdóttir, forstjóri Elmu, að útboðið hafi tekist einstaklega vel.