— Morgunblaðið/Kristinn
Málefni íslenska heilbrigðiskerfisins hafa iðulega verið til umræðu bæði á vettfangi stjórnmála og almennings, m.a. vegna mikils kostnaðar, langra biðlista, álagi á heilbrigðisstarfsfólki og svo mætti áfram telja

Málefni íslenska heilbrigðiskerfisins hafa iðulega verið til umræðu bæði á vettfangi stjórnmála og almennings, m.a. vegna mikils kostnaðar, langra biðlista, álagi á heilbrigðisstarfsfólki og svo mætti áfram telja.

Innan heilbrigðiskerfisins hafa tvö skyld mál fengið mestu umræðuna, annars vegar að núverandi sjúkraskrárkerfi og lausnir valdi sóun á tíma heilbrigðisstarfsfólks á kostnað sjúklinga og hins vegar tregðu heilbrigðisyfirvalda til að leyfa nýjum aðilum að bjóða fram lausnir sínar á heilbrigðistæknimarkaði á Íslandi.

Morgunblaðið greindi frá því í lok mars sl. að landlæknisembættið kysi fremur að eiga í viðskiptum við einn aðila á markaði í stað þess að fara í lögmælt útboð á þróun, uppsetningu, þjónustu og viðbótum við heilbrigðishugbúnaðarkerfi landsins. Þar er meðal annars átt við Heilsuveru, Heklu heilbrigðsnet og sjúkraskrárkerfið Sögu. Tregða landslæknisembættisins við að ráðast í útboð kemur að sögn viðmælanda ViðskiptaMoggans í veg fyrir að nýir aðilar á markaðinum geti tengst umræddum kerfum og samhliða því boðið fram nýjar lausnir.

Sóun í heilbrigðiskerfinu

Umrædd sjúkraskrárkerfi voru til umfjöllunar á málþingi um sóun í íslenska heilbrigðiskerfinu á Læknadögum í byrjun árs. Þar kom m.a. fram að þriðjungur af opinberum útgjöldum færi til heilbrigðismála, en gert er ráð fyrir að um 380 milljarðar króna fari í málaflokkinn á þessu ári, eða 8% af vergri þjóðarframleiðslu.

Bent var á rannsóknir á málþinginu sem sýndu að allt að helmingi fjármagns, sem varið væri í íslenska heilbrigðisþjónustu, væri sóað með einhverjum hætti. Sóun í þessu tilliti var skilgreind sem þjónusta sem bætti ekki heilsu eða ylli jafnvel skaða, sem og kostnaði sem mætti forðast ef hagkvæmari kostur yrði valinn.

Þá var spurt hvort tíma lækna væri sóað. Tekið var fram að skrásetningu heilbrigðisupplýsinga væri mikilvægt að sinna, en „læknar verja ómældum tíma fyrir framan tölvuskjái á kostnað tíma með sjúklingum, í ævafornu sjúkraskrárkerfi sem styður lítið [við] læknastarfið og gerir það jafnvel flóknara og erfiðara“, eins og það var orðað í einni kynningunni.

Theódór Sigurðsson, svæfinga- og gjörgæslulæknir og formaður sjúkrahúslækna, var einni þeirra sem stóðu að málþinginu. Hann segir í samtali við ViðskiptaMoggann, spurður nánar um fyrrnefnd sjúkraskrárkerfi, að furðu sæti að læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk sitji upp með Sögu-sjúkraskrárkerfið sem hafi tekið litlum breytingum í 30 ár. Kerfið er í eigu Origo.

Spurður hvers vegna Sögu-kerfið geri störf lækna flóknari og erfiðari segir hann að það hafi í raun verið hannað fyrir einn anga heilbrigðiskerfisins sem sé heilsugæslan.

„Kerfið var upphaflega þróað eins og komuseðlar heilsugæslunnar og viðmót kerfisins lítur þannig út enn þann dag í dag. Síðar var kerfið fært yfir á spítala og stærri heilbrigðisstofnanir upp úr aldamótum,“ segir Theódór.

Hann lýsir Sögu-kerfinu á þann veg að það sé eins og að opna bók. Í stað þess að læknar fái mikilvægustu upplýsingar um sjúklinga fremst, verða þeir að blaða sig gegnum allt kerfið, jafnvel að öftustu síðu. Theódór bætir við að margir læknar hafi verið ánægðir með Sögu til að byrja með en nú séu margir þeirra að vakna við vondan draum, þar sem kerfið sé orðið gamalt, henti varla nútímalæknastörfum og fari illa með tímann þeirra á kostnað sjúklinga.

Hann segir að störf gjörgæslulækna geri þær kröfur að vera alltaf á hlaupum og miklu máli skipti að fá heilsufarsupplýsingar sjúklinga sem fyrst. Í Sögu-kerfinu sé það þó ómögulegt.

„Það tekur heila eilífð í Sögu-kerfinu að finna mikilvægustu upplýsingarnar sem á að vera hægt að finna á svipstundu,“ segir hann.

Að sögn Theódórs hafi Sögu-kerfið lítið notagildi í læknislegum tilgangi, það er að segja að annast sjúklinginn og komast að niðurstöðu um hvernig eigi að meðhöndla hann.

Læknastéttin hefur kallað eftir að gerðar yrðu breytingar á kerfinu sl. 20 ár og segir hann aðspurður að tíminn sé löngu kominn til að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar til að útbúa nútímalegt sjúkraskrárkerfi á Íslandi.

Mikil margfeldisáhrif

Samkvæmt opinberum gögnum hefur eigandi Sögu og Heilsuveru fengið greiddar um 470 milljónir króna fyrir hugbúnaðargerð og -vinnu frá 1. janúar 2023 til 30. apríl 2024. Spurður um þann kostnað telur Theódór hann vera verulegan og bendir á að hver og einn notandi þurfi einnig að greiða ýmiss konar gjöld fyrir notkun kerfisins.

„Allar uppfærslur á Sögu-kerfinu eru einnig kostnaðarsamar og seinar inn og bera oft merki þess að þeir sem vinna við kerfið hafi litla innsýn í að vinna með sjúklingum. Þessir aðilar eru ekki læknar, hjúkrunarfræðingar eða annað heilbrigðisstarfsfólk,“ segir hann.

Þrátt fyrir að umræddur aðili hafi fengið þessar greiðslur frá heilbrigðisyfirvöldum segir Theódór aðspurður að sá tími lækna, sem sé sóað við að vinna í svona gömlu sjúkraskrárkerfi, sé ekki metinn til fjár, enda vaxi læknar ekki á hverju strái.

„Heildarkostnaðurinn hleypur á miklu miklu meira en bara þessum hálfa milljarði króna sem fer í sjúkraskrárkerfin á ári og margfeldisáhrifin eru gríðarlega mikil,“ segir hann.

Heilsuvera auki álag á lækna

Theódór tekur Heilsuveru sem dæmi, sem sama fyrirtæki á og þjónustar, og segir að sú lausn hafi margfaldað álag á heimilslækna, sem séu að bugast undan skilaboðum og verkefnum sem þeir nái ekki að sinna. Að hans mati var ekki gert ráð fyrir því við hönnun Heilsuveru hvaða afleiðingar það hefði í för með sér að hafa enga síu á öll þau skilboð sem berast heimilslæknum, skilaboð sem skipta fleiri þúsundum.

„Varðandi það sem snýr að læknum þá virkar Heilsuvera þannig að t.d. þegar fólk hringir á heilsgæsluna til panta tíma, þurfa læknar að gera grein fyrir erindinu og hversu aðkallandi það er. Hins vegar þegar fólk sendir skilboð í gegnum Heilsuveru fara þau bara efst í bunkann. Það er svo á ábyrgð læknisins að meta hvaða erindi séu mest aðkallandi sem verði að svara strax,“ útskýrir Theódór.

Aðspurður að lokum telur Theódór að þetta gamla kerfi, viðbætur við það og nýju lausnirnar sem innleiddar hafa verið í íslenskt heilbrigðikerfi, leiki stóran þátt í því að læknar séu að sligast undan álagi og fólk eigi mjög erfitt með að fá tíma hjá sínum heimilslækni.

Aðgangshindranir nýrra aðila

„Við höfum verið að benda á að það eru aðgangshindranir á markaði, þar sem einn aðili á og þjónustar sjúkraskrárkerfið Sögu. Viðskipti landlæknisembættisins við þennan aðila og forvera þess við umrædd kerfi voru öll í trássi við lög um opinber innkaup, með því að bjóða þau ekki út þegar átti að gera það,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í samtali við ViðskiptaMoggann.

Hann segir að það valdi tortryggni að nýsköpunarfyrirtækjum, sem vilja bjóða önnur sjúkraskrárkerfi eða lausnir og verða fá tengingu við kerfin sem fyrir eru, sé gert að leita til keppinautarins.

„Við höfum verið að benda bæði landlæknisembættinu og heilbrigðisráðneytinu á að það þurfi að gera bragarbót í þessum málum og opna fyrir samkeppni á þessum markaði. Einnig eiga heilbrigðisyfirvöld að fara að lögum,“ segir Ólafur.

Hann bendir á landlæknir hafi ekki vilja una úrskurði kærunefndar útboðsmála á sínum tíma um það hefði átt að bjóða út þróun á Sögu-kerfinu og Heilsuveru, sem og fjarfundabúnaðar til notkunar á heilbrigðissviði, af sama fyrirtækinu.

„Embættið kýs fremur að láta reyna það fyrir dómstólum hvort þessi innkaup hafi verið lögmæt. FA þykir þessi afstaða landlæknis miður og telur það liggja fyrir að þarna hafi verið farið á svig við lög,“ segir hann.

Ólafur álítur að lokum að það þurfi að koma utanumhaldi á heilbrigðistæknimarkaði í annað horf, svo öll fyrirtæki sitji við sama borð. Það eigi að vera hvati frá stjórnvöldum til nýsköpunar og hér ríki eðlileg samkeppni á þessum markaði.