Franskir nemendur þreyta samræmt próf. Frakkland, og mörg önnur lönd, eyða minna í skólakerfið en ná betri árangri en Ísland á alla vegu.
Franskir nemendur þreyta samræmt próf. Frakkland, og mörg önnur lönd, eyða minna í skólakerfið en ná betri árangri en Ísland á alla vegu. — AFP/Frederick Florin
Kannski er það rannsóknarefni hvers vegna mér fannst, allt frá bernsku, að það væri fullkomlega sjálfsagt að ég gæti sigrað allan heiminn. Það þurfti ekki að hafa mikið fyrir því að ala mig upp og mér fannst námið leikandi létt út allan grunnskólann

Kannski er það rannsóknarefni hvers vegna mér fannst, allt frá bernsku, að það væri fullkomlega sjálfsagt að ég gæti sigrað allan heiminn.

Það þurfti ekki að hafa mikið fyrir því að ala mig upp og mér fannst námið leikandi létt út allan grunnskólann. Þó að ég muni ekki eftir öðru en jákvæðni og heilbrigðri hvatningu frá fullorðna fólkinu í kringum mig var enginn sem þrýsti á mig að verða þetta eða hitt þegar ég yrði stór. Ég flæktist aðeins á milli skóla en þar sem ég ílengdist var ég heppinn með kennara og samnemendur, og skólagangan því meira eða minna laus við allt vesen, og uppvaxtarárin laus við stóráföll. Lífið var ósköp venjuleg íslensk millistéttartilvera og Andrésarblöðin komu inn um lúguna alla mánudaga.

Auðvitað voru metnaðurinn og draumórarnir í litlu samræmi við raunveruleikann, en af tveimur kostum er langtum betra að dreyma of stóra drauma en að vera of jarðtengdur. Machiavelli orðaði þetta nokkurn veginn svona; það að setja sér markmið í lífinu er eins og að skjóta ör af boga: þú verður að miða fyrir ofan það sem þú vilt hæfa.

Ég fór í MR (en ekki hvað!) og fyrsta sumarfríið ferðaðist ég til Peking til að læra hrafl í kínversku. Sumarið þar á eftir var mér hleypt í sumarkúrs í alþjóðastjórnmálum hjá LSE og síðasta sumarfríið gerði ég heiðarlega tilraun til að læra arabísku í Amman. Námið fann ég sjálfur, borgaði mestmegnis úr eigin vasa, fannst þetta allt svo fullkomlega sjálfsagt, og skildi ekkert í því af hverju jafnaldrar mínir væru ekki allir að gera það sama.

Ég varð reyndar hvorki heimsfrægur arkitekt né meiri háttar alþjóðalögfræðingur, valdamikill diplómati, reffilegur pólitíkus eða aðalritari Sameinuðu þjóðanna. Friðar- og bókmenntaverðlaun Nóbels láta enn á sér standa. Ég útskrifaðist ekki frá Harvard, en gráða frá LSE er svo sem ekkert slor. Ég er heldur ekki orðinn margfaldur milljarðamæringur, en hef í staðinn ílengst á Morgunblaðinu í aldarfjórðung og gæti ekki verið ánægðari með mitt hlutskipti, og að hafa fengið að flandra um heiminn. Hundinn fann ég í Buenos Aires, heimilisköttinn í Istanbúl, eiginmann nr. 1 fann ég í Líma, eiginmann nr. 2 í Casablanca og stendur núna yfir æsispennandi og alþjóðleg leit að þeim þriðja svo ég geti jafnað Marilyn Monroe í ástarmálunum.

Ég má varla til þess hugsa hvar ég væri staddur í dag ef ekki hefði verið fyrir draumórana og takmarkalausa bjartsýnina, og mig grunar líka að ég átti mig ekki á því til fulls hverju það breytti að hafa í nokkur ár notið leiðsagnar tveggja framúrskarandi kennara á 9. og 10. áratugnum.

Helst vil ég ekki til þess hugsa hvar ég væri staddur ef íslenska skólakerfið hefði farið með mig eins og það fer í dag með þorra íslenskra pilta, þannig að þeim er skilað út í samfélagið ófærum um að lesa sér til gagns og leysa einföldustu stærðfræðidæmi. Eins og nýlegar fréttir bera með sér eru þessum drengjum allar dyr lokaðar, og botna ég ekkert í því af hverju íslenskir foreldrar fjölmenna ekki á Austurvöll alla daga til að mótmæla því hvernig hið opinbera fer með strákana þeirra.

2,74 milljónir á ári

Ný skýrsla menntamálaráðuneytisins um stöðu drengja í skólakerfinu er sláandi lesning. Ekki er nóg með að Ísland komi illa út úr alþjóðlegum samanburðarkönnunum á frammistöðu nemenda heldur er frammistaða piltanna afleit að öllu leyti og þeir standa höllum fæti á öllum skólastigum.

Þetta eru ekki drengir sem eru að fara að sigra heiminn, og áhyggjuefni fyrir bæði íslenskt samfélag og atvinnulíf hve mikill mannauður er þarna að fara í súginn.

Höfundur skýrslunnar bendir á helstu orsakir vandans og sundurliðar hvernig mætti koma betur til móts við þarfir pilta, og eru tillögurnar góðra gjalda verðar. Eitt er þó ekki nefnt í skýrslunni, og það er hvers konar grundvallarvandamál skapast með því að hafa skólakerfi sem er miðstýrt af hinu opinbera. Stór hluti af vandanum er nefnilega sá að ef það er hið opinbera sem skaffar kennsluna þá hefur almenningur í raun ekkert að segja um gæði námsins. Hér þarf að virkja krafta markaðarins í þágu nemenda því annars er ekki að búast við öðru en að kerfið haldi áfram að hjakka í sama farinu.

Það er fullreynt að eftirláta ríki og sveitarfélögum að mennta unga fólkið okkar og tími kominn á að Ísland prófi aðrar og betri lausnir.

Í því sambandi er ágætt að halda nokkrum tölum til haga, því það er allt eins víst að talsmenn miðstýringar og ríkisrekstrar reyni að halda því fram að allt sem vanti séu hærri framlög til málaflokksins. Því fer hins vegar fjarri að íslenska skólakerfið sé fjársvelt:

Samkvæmt nýjustu tölum er meðalkostnaður hins opinbera af hverjum íslenskum grunnskólanemanda 2,74 milljónir á ári, sem gerir um það bil 15.000 kr á hvern einasta skóladag. Að meðaltali eru 19,3 nemendur í bekk (ef við undanskiljum sérskóla og sérdeildir) og kostar bekkurinn því tæpar 53 milljónir árlega eða um 290.000 kr á dag.

Þetta eru háar fjárhæðir, sama hvernig á þær er litið, og hvort sem miðað er við útgjöld á hvern nemanda eða hlutfall af landsframleiðslu er íslenska skólakerfið í hópi þeirra dýrustu sem finna má. Samkvæmt töflum Alþjóðabankans fara t.d. 7,1% af landsframleiðslu Íslands til menntamála en í Finnlandi er hlutfallið 5,7%, í Þýskalandi 4,5%, í Japan 3,5% og aðeins 2,5% í Singapúr – og öll koma þessi lönd mun betur út úr samanburðarkönnunum.

Ekki er hægt að skella skuldinni á að íslenskir kennarar hafi of mikið á sinni könnu. Í samanburði við hin OECD-löndin er fjöldi nemenda á hvert kennarastöðugildi með lægsta móti á Íslandi, og er t.d. nemendafjöldinn á hvern kennara um 50% hærri í Japan og 80% hærri í Frakklandi. Kennslustundirnar eru líka færri: Íslensk börn verja um 603 stundum í skólastofunni á hverjum vetri en í Hollandi fá krakkarnir 720 klukkutíma af kennslu svo að þeim er skilað út í lífið leiftursnjöllum, fjöltyngdum og tilbúnum í hvað sem er.

Lærum af þeim skilvirku

Það liggur beinast við að gera tilraun með algjört frelsi á íslenskum menntamarkaði, samhliða því að innleiða skólaávísanir í anda Miltons Friedmans. Brýnt er að ávísanakerfinu fylgi frelsi í skólastarfinu svo að kennarar og aðrir frumkvöðlar fái það svigrúm sem þeir þurfa til að gera tilraunir með ólíkar áherslur og aðferðir. Aðhaldið, og matið á gæðum námsins, kæmi þá frá notendum menntamarkaðarins og verður að telja öruggt að ef íslenskir foreldrar fengju árlega 2,7 milljóna skólaávísun með hverju barni frá 6 ára aldri myndu þau ekki sætta sig við að fá krakkann aftur í hendurnar tíu árum og 27 milljónum síðar með litla sem enga getu til að lesa og reikna. Þegar hver skóladagur kostar 15.000 kr er heldur ekki lengur í boði að trassa heimavinnuna.

Sumir íslenskir foreldrar myndu jafnvel vilja nota ávísunina til að senda börnin sín á fína heimavist í Evrópu, því upphæðin sem hið opinbera sólundar í dag slagar hátt upp í skólagjöldin við nafntogaða skóla í Sviss þar sem prinsar, prinsessur og börn milljarðamæringa eru látin mennta sig.

En ef það þykir of framúrstefnulegt að dusta rykið af hugmyndum Friedmans, hlýtur að minnsta kosti að vera óhætt að reyna að læra af þeim þjóðum sem standa sig best í ríkisafskiptunum. Það vill nefnilega einkenna íslenska stjórnmálaumræðu að ef laga þarf einhvern málaflokk þá er bent á tiltekið land – yfirleitt Danmörku, Noreg eða Svíþjóð – þar sem útgjöldin eru meiri og sagt að lausnin sé að apa eftir þeim. Sjaldnar er bent á þau lönd sem eyða jafnmiklu eða minna en Ísland en ná mun betri árangri.

Hvernig væri að útvíkka sjóndeildarhringinn og skoða t.d. hvað er í gangi í Japan og Singapúr? Eins og nefnt var hér að ofan verja þessi lönd, í hlutfalli við landsframleiðslu, mun minna til menntamála en Ísland en lenda samt í toppsætum alþjóðlegra kannana. Eitthvað veldur því að hinn dæmigerði japanski kennari ræður við mun fjölmennari nemendahóp en íslenskur kollegi hans og skilar frá sér mun færari nemendum. Margt spilar þarna inn í, og auðvitað viljum við bara tileinka okkur það besta úr japanska og singapúrska skólakerfinu – en hvað ætli margar íslenskar sendinefndir hafi verið gerðar út af örkinni til að skrásetja skólastarfið á þessum stöðum og reyna að læra af þeim?

Það sama á við um heilbrigðismálin. Þannig muna lesendur kannski eftir því að fyrir nokkrum árum blés nafntogaður athafnamaður til undirskriftasöfnunar til að þrýsta á íslensk stjórnvöld að auka útgjöld til heilbrigðismála úr 8,7% upp í 11% af landsframleiðslu til að jafna Norðurlandameðaltalið. Í umræðunni um þetta framtak var enginn sem spurði hvort mætti ekki víkka sjóndeildarhringinn út fyrir Skandinavíu, og skoða hvernig á því stendur að Singapúr ver bara um 5,5% landsframleiðslu til heilbrigðismála og nær samt firnagóðum árangri. Af hverju ekki að herma eftir þeim frekar?

Samkvæmt nýjustu tölum heilbrigðisyfirvalda í Singapúr bíður fólk þar að meðaltali í 17 mínútur eftir að komast að hjá lækni á heilsugæslustöð – það getur sum sé heimsótt heilsugæsluna þegar því hentar og komist að um leið, og þarf ekki að panta tíma með margra daga eða margra vikna fyrirvara eins og Íslendingar eiga að venjast. Það þótti fréttnæmt á síðasta ári þegar óvenjumikið álag á heilbrigðiskerfinu í Singapúr olli því að biðin eftir að komast í sjúkrarúm á spítala lengdist úr 5 tímum að meðaltali upp í rúmlega 7 klukkustundir.

Singapúr gerir ekki allt rétt, en hér er greinlega eitthvað sem mætti reyna að herma eftir.

Svona mætti endurskoða hvern málaflokkinn á fætur öðrum, og þá held ég að yrði aldeilis gaman að búa á Íslandi.