Hödd rekur sitt eigið ráðgafafyrirtæki, Kvis, og hefur í nægu að snúast á þeim vettvangi enda fjölbreytt verkefni á borði hennar. Þess á milli stundar hún útivist og kann best við sig upp á fjallstoppi.
Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?
Þær eru líklega helst þær að ég þarf að vera mjög meðvituð um hvernig takturinn er í þjóðfélaginu. Hann er, að mér finnst, óvenjuharður og fyrirgefur fátt þessi misserin. Fyrir hönd viðskiptavina minna þarf ég að reyna að sjá lokaniðurstöðu í ákveðnum málum og stundum er gáfulegra að hreinlega sitja hjá en að taka slagi sem mér finnst fyllilega eiga rétt á sér. Ég hef gaman af lífinu en sé ég alveg ærleg þá leiðist mér hvernig margir móðgast og hreinlega verða reiðir yfir öllu og engu. Fólk er að móðgast fyrir hönd fólks sem er ekki einu sinni móðgað sjálft og einstaklingar og fyrirtæki eru tekin af lífi án þess að fá tækifæri til að bera hönd fyrir höfuð sér. Ég sakna þess að það sé hægt að eiga skoðanaskipti, rökræða og hreinlega vera bara ósammála án þess að allt fari í bál og brand. Við getum og eigum að gera betur.
Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?
Það var fyrirlestur og framhaldsnámskeið hjá kærri vinkonu minni og dóttur hennar – Mæðgunum. Mæðgurnar eru þær Solla Eiríks og Hildur Ársælsdóttir og fyrirlesturinn og námskeiðið ber heitið Meira grænt. Þeim tókst ekki að gera mig að grænmetisætu en ég fór út södd og sæl og mun fróðari.
Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?
Þær eru margar, en til dæmis PR-biblían hans Edward L. Bernays, sem heitir Public Relations. Svo get ég nefnt bókina Crisis, Issues and Reputation Management. Annars finnst mér líka koma mér til góða í starfi að ég hef mikinn áhuga á hegðun og tilfinningum mannskepnunnar og les mér, því tengt, til gagns og gamans.
Hvernig heldurðu
þekkingu þinni við?
Með gúggli, bókalestri og samtölum við mér fróðara fólk um hin ýmsu mál. Ég er á því að maður öðlist mestu þekkinguna þegar maður er óhræddur að viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðrum að maður veit ekki allt.
Hugsarðu vel um líkamann?
Já ég geri það. Hreyfi mig reglulega, borða yfirleitt hollan mat og reyni að sofa vel. Er svo alltaf að verða betri í að klappa sjálfri mér og leyfa mér að anda djúpt. Ætla samt að verða enn betri í því.
Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýtt starf?
Ég væri barnasálfræðingur. Ég hef alveg ógurlega gaman að börnum og ungu fólki og á auðvelt með að ná til þeirra. Tel að það væri hægt að búa til mun fleiri vandaða fullorðna einstaklinga með því að eiga samtöl við börn og hlusta á tilfinningar þeirra og þrár og bregðast við þeim.
Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?
Hraðinn í samfélaginu er bæði kostur og galli en hann er mikill á öllum vígstöðvum. Það er svo galli hversu harður og neikvæður taktur er í þjóðfélaginu en þá kemur á móti að í honum liggja fjölmörg tækifæri til að stíga upp og gera betur. Ég viðurkenni að þessi neikvæði taktur býr jú til vinnu fyrir mig og því jákvæður fyrir mig rekstrarlega. Það liggja tækifæri í öllu ef maður kýs að sjá þau.
Hvað gerir þú til að fá orku og innblástur í starfi?
Á samræður við fólk, les, horfi á sjónvarp og kvikmyndir og hreyfi mig. Helst kemur innblásturinn af samskiptum við aðra.
Hvaða lögum myndir þú breyta ef þú værir einráður í einn dag?
Ég myndi lyfta grettistaki í að afgullhúða lög og reglur sem eru gjörsamlega að sliga samfélagið. Mér finnst alveg furðulegt hvað við höfum gengið víða miklu lengra í að búa til regluverk, en nauðsynlegt hefur verið. Eins myndi ég láta gera lagabreytingar til að efla eftirlitsstofnanir með það fyrir augum að stytta málsmeðferðartíma og tryggja hlutlægni stjórnenda – líkt og til dæmis fólst í nauðsynlegri lagabreytingu sem gerð var á lögum um Samkeppniseftirlitið fyrir nokkrum árum. Gilda þau lög hins vegar eðlilega ekki afturvirkt gagnvart núverandi stjórnendum. Ég held að flest getum við verið sammála um að engum sé hollt og ekki samfélaginu heldur að eftirlitsstofnunum sem þessari sé stjórnað af sömu einstaklingum svo jafnvel áratugum skiptir.
Ævi og störf
Menntun: Fjölbrautaskólinn við Ármúla 2002, Háskóli Íslands, BA í lögfræði 2013, Háskóli Íslands, mag. jur. í lögfræði 2015.
Störf: Þjónustufulltrúi og sölumaður á fyrirtækjasviði Vodafone 2001 – 2008, framkvæmdastjóri Sambands ungra sjálfstæðismanna 2009 – 2010, blaða- og fréttamaður hjá Morgunblaðinu 2011, frétta- og dagskrárgerðarmaður hjá Stöð 2 árin 2011 – 2015 og fjölmiðlaráðgjafi og lögfræðingur hjá Kvis frá 2015.
Áhugamál: Fjallgöngur skora hátt og ég veit fátt betra en að vera á fjallstoppi. Fyrir utan þær er ég forvitin og áhugasöm um ansi margt, enda er ég kölluð „gúgglarinn“ í vinahópi. Í þeim efnum má nefna líkamsrækt, útivist, pólitík, bókalestur, gott fólk, ferðalög, mat, golf, tungumál og Scrabble. Nýjasta áhugamálið mitt er svo landeldi og það er nú meiri snilldin.
Fjölskylduhagir: Bý með dætrum mínum, þeim Tinnu og Lív.