Íslenskar bílaleigur hafa aðeins keypt um 80 rafmagnsbíla það sem af er ári, eftir að hafa keypt að meðaltali um 760 rafmagnsbíla á ári síðustu þrjú ár. Á árunum 2021-2023 keyptu bílaleigurnar tæplega 2.300 rafmagnsbíla

Íslenskar bílaleigur hafa aðeins keypt um 80 rafmagnsbíla það sem af er ári, eftir að hafa keypt að meðaltali um 760 rafmagnsbíla á ári síðustu þrjú ár. Á árunum 2021-2023 keyptu bílaleigurnar tæplega 2.300 rafmagnsbíla.

Þetta er í samræmi við þá þróun sem hefur átt sér stað frá áramótum, þar sem sala á rafmagnsbílum hefur dregist verulega saman í samanburði við árin þar á undan. Eins og Morgunblaðið greindi frá sl. laugardag er það mat þeirra sérfræðinga á bílamarkaði sem blaðið hefur rætt við að markaðurinn fyrir rafmagnsbíla hafi verið orðinn vel mettur undir lok síðasta árs.

Það skýrist að miklu leyti af þeim ívilnunum sem ríkið bauð upp á fyrir kaup á rafmagnsbílum, sem þó eru nú taldar hafa skekkt almenna þróun á bílamarkaði.

Eins og sjá má á grafinu hér fyrir ofan hefur sala á bensín- og dísilbílum tekið kippp á meðan sala á tvinn- og tengiltvinnbílum (Hybrid og Plug-in Hybrid) hreyfist minna hlutfallslega.

Rétt er að taka fram að bílasala hefur almennt dregist saman á milli ára það sem af er ári. Þegar horft er á fyrstu fimm mánuði ársins hefur bílasala dregist saman um tæp 34% á milli ára. Samdrátturinn er þó minni í sölu til bílaleiganna, eða tæp 25%. Bílaleigurnar keyptu rúmlega 8.100 bíla árið 2022 og um 7.800 bíla í fyrra, sem er að mestu í samræmi við árin 2016-2018 – þegar hvað mestur uppgangur var í ferðaþjónustunni.

Skýringarnar á minni kaupum bílaleiganna á rafmagnsbílum má að sögn viðmælanda blaðsins meðal annars rekja til þess að enn á eftir að tryggja innviði víða um land fyrir hleðslu bílanna og að nýr skattur sem leggst á rafmagnsbíla gerir bílaleigum erfitt fyrir við verðlagningu bílanna.

Þó eru margir sem telja að lítil innstæða hafi verið fyrir kaupum bílaleiganna á rafmagnsbílum árin á undan, enda lítil eftirspurn eftir þeim. Ívilnanir ríkisins kunni þannig að hafa ýtt undir óeðlileg kaup leiganna á rafmagnsbílum, enda sýni nýjar tölur eðlilegri stöðu.