Velsæld Jane Goodall ávarpaði þingið í gegnum fjarfundabúnað.
Velsæld Jane Goodall ávarpaði þingið í gegnum fjarfundabúnað. — Ljósmynd/Stjórnarráðið
Doktor Jane Goodall, mannfræðingur og einn frægasti dýra- og umhverfisverndarsinni í heimi, ávarpaði alþjóðlegu ráðstefnuna Velsældarþing, sem haldin er í Hörpu þessa dagana, með fjarfundabúnaði í gær

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

Doktor Jane Goodall, mannfræðingur og einn frægasti dýra- og umhverfisverndarsinni í heimi, ávarpaði alþjóðlegu ráðstefnuna Velsældarþing, sem haldin er í Hörpu þessa dagana, með fjarfundabúnaði í gær.

„Við erum að ganga í gegnum nokkuð dimma tíma núna,“ sagði Goodall og vísaði með því til þeirra átaka sem eru í heiminum. Jafnframt beindi hún sjónum sínum að mannréttindabrotum og umhverfisvandanum sem blasir við okkur.

Goodall hefur helgað stóran hluta ævi sinnar rannsóknum á simpönsum. Í ávarpinu sagði hún þá mjög líka mönnum en að helsti munurinn á mönnum og simpönsum væri mannleg greind.

„Aðeins við mennirnir getum rannsakað og reynt að byrja að skilja leyndardóma sólkerfisins. Hvernig stendur á því að við, greindasta dýrategundin á jörðinni, séum að eyðileggja okkar eina heimili, jörðina? Það virðist vera sambandsleysi á milli okkar snjalla heila og mannshjarta okkar,“ sagði Goodall.

Markmið Velsældarþingsins er að skapa vettvang þverfaglegra umræðna þar sem megináherslan er á að skapa grundvöll fyrir sjálfbært velsældarhagkerfi til framtíðar. Er þetta annað skiptið sem Velsældarþingið er haldið.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra flutti opnunarávarp og ræddi um velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar á þinginu.

„Á undangengnum áratugum hafa ríkisstjórnir og alþjóðastofnanir sameinast um að innleiða aðferðafræði velsældar og sjálfbærrar þróunar við stefnumótum og ákvarðanatöku og forgangsraða á grunni efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta,“ sagði Bjarni í ávarpinu

Hann segir að leitast sé við með þessum hætti að líta ekki einungis til efnahagslegra mælikvarða þegar lagt er mat á þróun lífsgæða almennings. Bjarni tók við viðurkenningu frá doktor Hans Kluge, Evrópuforstjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem Chris Brown, yfirmaður Evrópuskrifstofu stofnunarinnar í fjárfestingu í heilsu og þróun, afhenti fyrir hönd Kluge.

Höf.: Kári Freyr Kristinsson