Dysnes Tölvuteikning af því hvernig fyrsti fasi líforkuvers á Dysnesi gæti litið út, unnin af finnska fyrirtækinu GMM.
Dysnes Tölvuteikning af því hvernig fyrsti fasi líforkuvers á Dysnesi gæti litið út, unnin af finnska fyrirtækinu GMM.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrstu lóðinni á Dysnesi hefur verið úthlutað til Líforkuvers ehf. sem hyggst á næstu árum reisa þar samnefnt líforkuver. Alls eru skipulagðar um 30 iðnaðarlóðir á svæðinu og hefur áhugi á þeim verið að aukast

Margrét Þóra Þórsdóttir

Akureyri

Fyrstu lóðinni á Dysnesi hefur verið úthlutað til Líforkuvers ehf. sem hyggst á næstu árum reisa þar samnefnt líforkuver. Alls eru skipulagðar um 30 iðnaðarlóðir á svæðinu og hefur áhugi á þeim verið að aukast.

Vinna við hönnun líforkuversins er langt komin, en í fyrsta fasa er horft til vinnslu á dýraleifum sem eiga sér engan góðan farveg hér á landi.

Leitað hefur verið til finnska ráðgjafarfyrirtækisins GMM um hönnun versins, sem hefur áratugalanga reynslu af því að hanna vinnslur sem vinna verðmæti úr lífrænu efni, á öruggan og umhverfisvænan hátt.

Kristín Helga Schiöth framkvæmdastjóri Líforkuvers segir að um sé að ræða mikilvæga innviðauppbyggingu þar sem unnið verður úr lífrænum straumum í lokuðum kerfum, svo úr verði verðmæti í formi orkugjafa og jarðvegsbætis. Byggt er á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins, þar sem ekkert fer til spillis. Horft er til nágrannalanda okkar eftir fyrirmyndum og notast verður við þekkta tækni.

„Mikil áhersla hefur verið lögð á að allir ferlar uppfylli löggjöf um rétta meðhöndlun aukaafurða dýra, en í dag skortir mjög á að Ísland uppfylli kröfur um meðhöndlun dýraleifa í efsta áhættuflokki; einkum þegar kemur að meðhöndlun dýrahræja úr sveitum sem eru urðuð að langstærstum hluta,“ segir Kristín Helga við Morgunblaðið.

3-4.000 tonn af efni árlega

Vinnsla efnisins fer öll fram innandyra, þar sem byrjað er á að hakka efnið niður í ákveðna kornastærð, efnið fer í gegnum þrýstisæfingu sem gerir möguleg smitefni óvirk, vatn gufar upp og fitan er skilin frá. Eftir standa afurðir í formi fitu og kjötmjöls, sem nýttar eru sem orkugjafar í stað jarðefnaeldsneytis. Þannig verða unnin verðmæti úr efni sem nú er til mikilla vandræða fyrir heilbrigði dýra, manna og umhverfis.

Kristín Helga segir að þar sem um sé að ræða þekkta tækni og búnað væri unnt að reisa verksmiðjuna hratt og örugglega, standi vilji til þess. Gert er ráð fyrir að 3-4.000 tonn af efni berist til vinnslunnar árlega, en hún geti annað allt að 10.000 tonnum til að taka við álagstoppum.

Horfa til framleiðslu á lífgasi

„Fyrir utan vinnslu á dýraleifum standa vonir til þess að á Dysnesi verði lífgasframleiðsla, þar sem áfram er horft til nágrannalanda okkar eftir fyrirmyndum, en lífgasmetan er einn af þeim orkugjöfum sem við þurfum á að halda í orkuskiptunum sem við stöndum í. Horft er til samstarfs við landbúnað og bændur á svæðinu um nýtingu mykju til gasframleiðslu, þar sem afurðir eru í formi lífgass, koldíoxíðs og áburðar með hærra næringargildi og betra niðurbrot en mykjan í upphaflegu formi,“ segir hún.

Byggja upp græna innviði

„Með því að vinna úr ólíkum efnisstraumum á sama stað má ná fram hagkvæmni með samnýtingu tækjabúnaðar, starfsfólks og
innviða, sem er mikilvægt í fámennu landi. Eins er mikilvægt að nýta þá sérþekkingu sem hefur byggst upp í landshlutanum, en samstarf ólíkra aðila hér á svæðinu er lykilatriði í verkefni sem þessu,“ segir Kristín Helga og bætir við:

„Það er afar ánægjulegt að landeigendur sjái sömu tækifæri og við í því að byggja upp græna innviði á Dysnesi, sem munu verða
mikilvægir atvinnulífi og uppbyggingu svæðisins, landbúnaði og matvælaframleiðslu og ekki síst fyrir losunarbókhald Íslands.“

Dysneshöfn í Eyjafirði

Umhverfismat í vinnslu

Hafnasamlag Norðurlands keypti jörðina Gilsbakka árið 2010 og hluta af Syðri -Bakka árið 2015. Deiliskipulag fyrir svæðið var samþykkt árið 2015 og aðalskipulag sama ár. Fornleifaskráningu var lokið árið 2020 og nú er verið að vinna að umhverfismati fyrir hafnarmannvirki á svæðinu.

Undanfarna mánuði hefur áhugi fyrir svæðinu aukist og margir sýnt því áhuga. Hluti af skýringunni er að raforkuöryggi á svæðinu hefur lagast mikið auk þess sem jarðhræringar á Reykjanesi gera að verkum að fjárfestar skoða aðra möguleika.

Höf.: Margrét Þóra Þórsdóttir