Aðalsteinn Ingólfsson
Aðalsteinn Ingólfsson
Má ekki gera þær kröfur til forsvarsmanna Listaháskólans að þeir skýri fyrir okkur hvers vegna aldrei hefur verið þrýst á opinbera aðila að gera skólanum kleift að nýta allt húsið í Laugarnesi?

Aðalsteinn Ingólfsson

Í „Þönkum“ sínum fullyrðir heimspekingurinn Pascal meðal annars að alla óhamingju mannsins megi rekja til þess að hann hafi ævinlega verið ófær um að halda kyrru fyrir á sama stað. Það er ekki laust við að óhamingja af þessu tagi hafi loðað við Listaháskóla Íslands allt frá því hann hóf starfsemi sína í Laugarnesi. Frá upphafi virtust forsvarsmenn hans óþarflega kvartsárir; ýmist var húsnæðið í Laugarnesi sagt óhentugt eða of lítið fyrir þá starfsemi sem þar fór fram, eða þá að skólinn var of langt frá mannlífsflórunni – þ.e.a.s. kaffihúsunum – í miðbæ Reykjavíkur.

Þetta vandamál, meint plássleysi skólans, virtist í tímans rás leyst, a.m.k. að hluta, með flutningi leiklistardeildar upp á Lindargötu og skrifstofu skólans upp í DV-húsið, en úr þrengslum og miðbæjarvanda átti síðan að leysa í eitt skipti fyrir öll með nýbyggingu við Laugaveg. Í þeirri byggingu virtist að vísu ekki gert ráð fyrir miklum vinnufriði, þar sem umferð gangandi vegfarenda var að hluta beint í gegnum hana. Umfang og útlit þessarar byggingar var aukinheldur mjög á skjön við umhverfi hennar. Eitt af því fáa sem segja má jákvætt um „hrunið“ er að það kom í veg fyrir að þetta hús yrði að veruleika.

Um svipað leyti var miðbærinn farinn að nálgast Laugarnesið, kaffihús, mathöll og hvaðeina komið í hverfið og samgöngur orðnar greiðari. Samt voru flutningar áfram ofarlega í huga forsvarsmanna Listaháskólans og talað var um ýmsar byggingar miðsvæðis í Reykjavík sem æskilega kosti. Skoðunarferðir voru farnar víða um borgarlandið og ýmsum valkostum hafnað, sumum meira að segja tvisvar, eins og Tollhúsinu við Hafnargötu.

Nú, röskum áratug seinna, er þetta sama tollhús orðið fyrirheitna landið. Nýir forsvarsmenn Listaháskólans virðast vera því fylgjandi að flytja starfsemina þangað, ráðherra er því fylgjandi og Reykjavíkurborg hefur búið í haginn fyrir fyrirhugaða listvæðingu tollhússins með því að hanna fyrir framan veggmynd Gerðar Helgadóttur útivistarsvæði með svalandi vatnsúðurum. Þessi áform hafa verið kynnt landslýð án þess að kostnaðarhliðin hafi verið reifuð svo neinu nemi. Í mín eyru hafa málsmetandi arkitektar tæpt á því að það muni að öllum líkindum kosta sem svarar hálfu tónlistarhúsinu Hörpu að byggja við Tollhúsið svo það nýtist til fullnustu til listkennslu. Fyrir utan að bílastæði og viðbyggingarmöguleikar á lóðinni eru af skornum skammti, svo ekki sé meira sagt.

Annað er það líka, og sýnu mikilvægara, sem forsvarsmenn Listaháskólans í óhamingju sinni hafa aldrei viljað ræða í neinni alvöru. Nefnilega að í Laugarnesi er skólinn, og hefur alltaf verið, á „besta stað allra staða“ svo vitnað sé í Voltaire. Frá upphafi hefur allt of stór hluti skólabyggingarinnar verið notaður undir geymslur á vegum einkaaðila, Reykjavíkurborgar og ríkisins. Með því að tæma þessar geymslur fæst pláss sem færi langt með að fullnægja þörfum Listaháskólans í nútíð. Aukinheldur segja mér myndlistarkennarar við skólann að vandfundnar séu byggingar með viðlíka lofthæð og rúmbetri salarkynnum. Sjálfur hef ég kennt við þennan skóla og notið þeirrar upplifunar í hvívetna. Varla þarf svo að taka fram að umhverfis skólabygginguna í Laugarnesi er síðan byggingarland sem nýtast mundi skólanum til framtíðar.

Má ekki gera þær kröfur til forsvarsmanna Listaháskólans að þeir skýri fyrir okkur hvers vegna aldrei hefur verið þrýst á opinbera aðila að gera skólanum kleift að nýta allt húsið í Laugarnesi, í stað þess að dreifa deildum hans um alla Reykjavík – með ærnum tilkostnaði? Það væri fyrsta skrefið á endurskoðunarferli sem gæti leitt þetta mál til farsællar lausnar.

Höfundur er listfræðingur.