Fljótshlíð Menningarsetrið á Kvoslæk með fjóra viðburði í sumar.
Fljótshlíð Menningarsetrið á Kvoslæk með fjóra viðburði í sumar.
Menningarviðburðir á Kvoslæk í Fljótshlíð, sem ábúendur, hjónin Björn Bjarnason og Rut Ingólfsdóttir, hafa staðið fyrir mörg undanfarin ár, hefjast um helgina. Alls verða fjórir viðburðir í sumar. Fyrstur til að mæta er Óttar Guðmundsson læknir, sem …

Menningarviðburðir á Kvoslæk í Fljótshlíð, sem ábúendur, hjónin Björn Bjarnason og Rut Ingólfsdóttir, hafa staðið fyrir mörg undanfarin ár, hefjast um helgina. Alls verða fjórir viðburðir í sumar.

Fyrstur til að mæta er Óttar Guðmundsson læknir, sem mun fjalla um innbyrðis deilur Fjölnismanna og áhrif þeirra á Sigurð Breiðfjörð. Fyrirlestur Óttars verður laugardaginn 15. júní og hefst kl. 15. Að honum loknum verða kaffiveitingar eins og jafnan eru í boði á Kvoslæk.

Deilur Fjölnismanna

Í kynningu um fyrirlestur Óttars segir að Fjölnismennirnir Konráð Gíslason og Jónas Hallgrímsson hafi deilt harkalega á rímnakveðskap Sigurðar Breiðfjörð á árunum 1835-1837. Tómas Sæmundsson á Breiðabólstað var þeim ekki sammála og urðu miklar deilur innan ritstjórnar Fjölnis um málið. Mun Óttar fjalla um þetta ósamkomulag og áhrif þess á Sigurð Breiðfjörð og Fjölnismenn.

Gleðistundirnar á Kvoslæk verða fleiri. Sunnudaginn 7. júlí mæta harmonikuleikararnir Jónas Ásgeir Ásgeirsson og Eyrún Gylfadóttir.

Laugardaginn 27. júlí mun Steinunn Þórarinsdóttir myndhöggvari segja frá verkum sínum á Íslandi og um víða veröld.

Síðasti viðburður sumarsins verður sunnudaginn 1. september þegar Rut Ingólfsdóttir og vinir hennar í 14 manna strengjasveit leika verk eftir Mozart. Einnig frumflytja þau Cantus II eftir John Speight, sem samið var sérstaklega handa Rut. Stjórnandi verður Hjörtur Páll Eggertsson.

Allir viðburðir á Kvoslæk í sumar hefjast kl. 15.