Hvassahraun Hugmyndir voru um nýjan alþjóðaflugvöll í hrauninu.
Hvassahraun Hugmyndir voru um nýjan alþjóðaflugvöll í hrauninu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Sveinbjörn Indriðason forstjóri Isavia segir það mundu kosta hundruð milljarða að byggja annan alþjóðaflugvöll sem geti sinnt tengiflugi líkt og Keflavíkurflugvöllur.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Sveinbjörn Indriðason forstjóri Isavia segir það mundu kosta hundruð milljarða að byggja annan alþjóðaflugvöll sem geti sinnt tengiflugi líkt og Keflavíkurflugvöllur.

Tilefnið er umræða um öryggi Keflavíkurflugvallar vegna jarðhræringa á Reykjanesi og fyrri umræða um að reisa flugvöll í Hvassahrauni.

Spurður hvort raunhæft væri að byggja annan alþjóðaflugvöll á Suðurlandi, meðal annars til að dreifa betur umferð erlendra ferðamanna, segir Sveinbjörn mikilvægt að gera sér grein fyrir umfangi slíkrar fjárfestingar fyrir jafn lítið hagkerfi og Ísland er.

„Það er óhætt að fullyrða að það gæti kostað 300 til 500 milljarða króna að byggja nýjan alþjóðaflugvöll sem gæti tekið við tengifluginu,“ segir Sveinbjörn og tekur fram að það sé fagnaðarefni að erlend flugfélög á borð við easyJet skuli hafa tekið ákvörðun um að fljúga beint á Akureyrarflugvöll.

Kallar á meiri fjárfestingu

Sé hins vegar til skoðunar að byggja tengistöð til að þjónusta mun fleiri farþega í tengiflugi þurfi að koma til miklu meiri fjárfesting í innviðum.

Stærð flugvélanna sé ekki aðalatriðið í þessu samhengi heldur fjöldi véla sem þarf að þjónusta daglega og allur sá fjöldi farþega sem þeim fylgir.

Hins vegar liggi fyrir að flugvellirnir á Akureyri og Egilsstöðum geti til dæmis ekki tekið á móti stóru Airbus A380-þotunum en þær taka allt að 853 farþega.

„Reynslan hefur sýnt að íslensku flugfélögin sjá viðskiptatækifæri í tengiflugi með minni vélum, Airbus-vélunum eða Boeing-vélunum, og það sama gera erlendu flugfélögin.

Hins vegar er ekkert sem stendur tæknilega í vegi fyrir að byggja annan alþjóðaflugvöll fyrir beint flug til og frá Íslandi. Stóra spurningin er hins vegar alltaf sú hvort það sé rétt forgangsröðun á ríkisfjármagni. Það er þannig líklegt að sá flugvöllur muni seint og mögulega aldrei standa undir sér fjárhagslega. Fjárbindingin er einfaldlega svo mikil.

Myndi bitna á uppbyggingu

Í öðru lagi er ekki sérlega skynsamlegt að færa þannig tekjur frá Keflavíkurflugvelli en þær eru nú nýttar til að byggja upp tengistöðina sem styður við vöxt innlendu flugfélaganna sem skapar flugtengingar en það skilar sér síðan í hagvexti. Þannig að heildarmyndin er miklu stærri en svo að málið snúist um að byggja upp flugbraut úti á landi og ætla að nýr alþjóðaflugvöllur fari allt í einu að trekkja að erlend flugfélög. Það er því að mörgu að hyggja. Málið snýst ekki bara um að setja niður flugbraut. Síðast þegar byggð var flugbraut í Evrópu minnir mig að hún hafi kostað 60-70 milljarða. Bara flugbrautin,“ segir Sveinbjörn.

Þetta eru háar upphæðir. Af hverju kostar svona mikið að gera flugbraut?

„Dæmigerð flugbraut er kannski 2,5-3 km á lengd og þarf að vera að minnsta kosti 45 metrar á breidd. Það eru allt aðrir staðlar sem fylgja því að gera flugbraut en að leggja vegi. Það þarf að fara dýpra í jarðvegsskiptum. Flugbraut krefst annars styrkleika í undirlagi, malbikið þarf að vera þykkara og svo fylgir meðal annars ljósabúnaður og flugleiðsögubúnaður. Jafnframt þarf slík framkvæmd að fara í gegnum umhverfismat og staðlarnir sem þarf að uppfylla eru miklu meiri og strangari en við vegagerð.

Alþjóðlegum flugvelli fyrir tengiflug fylgja líka margvíslegir innviðir. Þar má nefna fráveitu, bílastæði, flugskýli, eldsneytisafgreiðslu, flugafgreiðslu og aðra innviði en samanlagt er þetta fljótt farið að hlaupa á hundruðum milljarða. Það er staðreynd sem við þurfum að horfast í augu við í þessu litla landi okkar.“

Stuðullinn myndi lækka

Spurður hvort þessi kostnaðaráætlun eigi við alþjóðlegan flugvöll í Hvassahrauni minnir Sveinbjörn á að rætt hafi verið um að sá flugvöllur gæti tekið á móti tengiflugi. Hægt væri að lækka kostnaðinn með því að hafa aðeins eina flugbraut, sem þó myndi sennilega kosta yfir 60 milljarða til viðbótar við aðra flugstöð og flugvallartengda innviði, sem hlaupi á fleiri tugum milljarða króna, en það geri það að verkum að nýtingarstuðullinn verður lægri en ef um tvær flugbrautir er að ræða.

Spurður hvaða áhrif jarðhræringarnar á Reykjanesskaga, sem spáð er að muni jafnvel vara í nokkrar aldir, hafi á framtíðarmöguleika Keflavíkurflugvallar segir Sveinbjörn að völlurinn sé líklega á besta hugsanlega stað á Reykjanesinu með tilliti til eldsumbrota. Völlurinn standi uppi á heiði og sé utan þess svæðis þar sem jarðvísindamenn telja að eldgos geti komið upp. Því sé ekki talið að hraunrennsli geti ógnað innviðum. Öðru máli gegni um Hvassahraun.