Davíð Stefán Guðmundsson
Davíð Stefán Guðmundsson
Að gefa blóð tekur um 30 mínútur og eru starfsmenn Blóðbankans sérfræðingar í að láta þér líða vel meðan á ferlinu stendur. Svo eru veitingar í boði.

Davíð Stefán Guðmundsson

Ár hvert þarf Blóðbankinn á milli 2 og 3 þúsund nýja blóðgjafa, m.a. vegna þess að hópurinn eldist og einhverjir gjafar geta ekki gefið lengur. Sérstaklega biðla ég til yngra fólks og þá einkum kvenna að gerast blóðgjafar þar sem Ísland sker frá öðrum norrænum löndum hvað lágt hlutfall kvenna í hópi blóðgjafa varðar.

Að gefa blóð tekur um 30 mínútur og eru starfsmenn Blóðbankans sérfræðingar í að láta þér líða vel meðan á ferlinu stendur. Að blóðtöku lokinni býðst blóðgjöfum úrval af girnilegum kræsingum. Það má með sanni segja að blóðgjafi yfirgefur Blóðbankanum mettur á líkama og sál – því sælla er að gefa en þiggja.

Fimmtudaginn 13. júní verður mikið um að vera í Blóðbankanum. Allir þeir sem koma í blóðgjöf fá glaðning. Stjórn Blóðgjafafélagsins býður upp á grillaðar pylsur milli kl. 11 og 14. Ef þú vilt kynna þér blóðgjöf án þessa að bóka tíma þá er þér velkomið að kíkja í heimsókn í Blóðbankann og ræða við starfsmenn Blóðbankans eða fulltrúa Blóðgjafafélags Íslands

Alþjóðlegi blóðgjafadagurinn er haldinn hátíðlegur 14. júní ár hvert. Dagurinn er nú haldinn hátíðlegur í 20. sinn til heiðurs blóðgjöfum um heim allan sem gefa af óeigingirni blóð og blóðhluta sem síðan er gefið til sjúkra. Mikil þörf er á að fjölga blóðgjöfum, því er tilvalið að nýta þennan hátíðisdag til að ganga í hóp vaskrar sveitar blóðgjafa sem tryggja samfélaginu dýrmætt framboð af blóði og blóðhlutum. Án framlags okkar góðu blóðgjafa yrði erfitt, jafnvel ómögulegt að framkvæma skurðaðgerðir og aðstoða einstaklinga í gegnum erfið veikindi.

Blóðgjafar og sér í lagi þeir sem hafa áhuga á að gerast blóðgjafar eru hvattir til að mæta í Blóðbankann á Snorrabraut 60 eða á 2. hæðina á Glerártorgi á Akureyri og láta gott af sér leiða. Best er að panta tíma í blóðgjöf með því hringja í síma 543 5500 (Reykjavík) eða 543 5560 (Akureyri). Einnig er hægt að bóka tíma á www.blodbankinn.is.

Dagurinn 14. júní var valinn sem alþjóðlegur dagur blóðgjafa, en það er afmælisdagur nóbelsverðlaunahafans Karl Landsteiner. Karl uppgötvaði ABO-blóðflokkakerfið árið 1900. Að alþjóðlega blóðgjafadeginum standa WHO, Alþjóða Rauði krossinn, Alþjóðasamtök blóðgjafafélaga og Alþjóðasamtök blóðgjafa. Að baki þessum samtökum eru 192 aðildarríki Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, 181 landssamtök Rauða krossins, 50 landssamtök blóðgjafafélaga og þúsundir sérfræðinga um blóðgjafir.

Áhugasamir um blóðgjafir og starfsemi BGFÍ geta gerst meðlimir félagsins á heimasíðu félagsins, www.bgfi.is.

Fyrir hönd Blóðgjafafélags Íslands.

Höfundur er formaður Blóðgjafafélags Íslands.

Höf.: Davíð Stefán Guðmundsson