Ólíkindatól Stjarnan Cristiano Ronaldo er á leiðinni á sitt ellefta stórmót.
Ólíkindatól Stjarnan Cristiano Ronaldo er á leiðinni á sitt ellefta stórmót. — AFP/Miguel Riopa
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Evrópumótið í knattspyrnu karla í Þýskalandi hefst annað kvöld með leik Þýskalands og Skotlands. Þjóðirnar í E-riðli hefja leik mánudaginn 17. júní og þjóðirnar í F-riðli degi síðar. Morgunblaðið lýkur yfirferð sinni á riðlum mótsins með síðustu tveimur í dag

EM 2024

Jökull Þorkelsson

jokull@mbl.is

Evrópumótið í knattspyrnu karla í Þýskalandi hefst annað kvöld með leik Þýskalands og Skotlands. Þjóðirnar í E-riðli hefja leik mánudaginn 17. júní og þjóðirnar í F-riðli degi síðar. Morgunblaðið lýkur yfirferð sinni á riðlum mótsins með síðustu tveimur í dag.

Í E-riðli eru Belgía, Úkraína, Slóvakía og Rúmenía og í F-riðli eru Portúgal, Tékkland, Tyrkland og Georgía. Fyrir fram eru riðlarnir tveir nokkru slakari en hinir fjórir en Portúgal er líklegast til árangurs af liðunum átta.

Tvö lið komast áfram úr hvorum riðli auk þess sem fjögur af þeim sex liðum sem enda í þriðja sæti riðlanna komast líka í 16-liða úrslit.

Belgar í öðruvísi hlutverki

Belgía er að ganga í gegnum kynslóðaskipti en leikmenn eins og Eden Hazard og Dries Mertens verða ekki með landsliðinu í sumar. Markvörðurinn Thibaut Courtois verður þá ekki heldur með en hann var meiddur megnið af tímabilinu hjá Real Madrid.

Belgía hefur verið eitt helsta landslið heims síðasta áratuginn en aldrei staðið undir væntingum. Liðið náði lengst í undanúrslit á HM 2018 en hefur ekki fylgt því eftir. Nú er ekki búist við eins miklu af liðinu og verður áhugavert að sjá það í öðru hlutverki.

Belgar eru líklegastir í sínum riðli en næst kemur Úkraína, sem komst á mótið með því að slá Ísland út í umspili.

Ísland hefði því verið í E-riðli með því að vinna leikinn við Úkraínu í mars og hefði spilað gegn Rúmeníu á þjóðhátíðardeginum, 17. júní.

Erfitt að segja til

Úkraínumenn eru með marga góða knattspyrnumenn og mikill meðbyr með liðinu. Oleksandr Zinchenko og Mykhailo Mudryk munu þurfa að eiga gott mót vilji Úkraína ná langt.

Slóvakía er með áhugavert lið en þjóðin var með Íslandi í undankeppni EM og vann báða leikina gegn íslenska liðinu. Milan Skriniar og Stanislav Lobotka eru lykilmenn í liðinu og með betri leikmönnum heims í þeirra stöðu.

Rúmenía kom mörgum á óvart þegar liðið fór taplaust og langefst upp úr sínum riðli í undankeppni EM. Rúmenska liðið hefur ekki náð að fylgja því góða gengi eftir í síðustu vináttulandsleikjum og verður áhugavert að sjá hvort liðið geti hrist það af sér.

Stjörnum prýtt lið Portúgals

Portúgalska landsliðið hefur sjaldan verið eins vel mannað en Cristiano Ronaldo er ekki eina stjarna liðsins. Leikmenn eins og Bruno Fernandes, Bernardo Silva, Rúben Dias, Rafael Leao og Diogo Jota eiga allir eftir að leika stórt hlutverk í liði Portúgals.

Ronaldo er á leiðinni á sitt ellefta stórmót og eftir afar svekkjandi HM veturinn 2022 er hann staðráðinn í að svara fyrir sig. Portúgal er komið með nýjan þjálfara, Spánverjann Roberto Martínez, sem setur mikið traust á Ronaldo og mun hann eflaust spila meira í sumar en á HM síðast. Portúgal er líklegt til árangurs en liðið hefur valdið vonbrigðum síðan það vann EM í fyrsta skipti árið 2016.

Einu nýliðarnir

Georgíumenn eru einu nýliðar mótsins en verða að vera upp á sitt besta vilji þeir fara upp úr riðlinum. Khvicha Kvaratskhelia er algjör lykilmaður í liði Georgíu.

Tékkland og Tyrkland eru jöfn og spennandi lið. Tékkar gerðu mjög vel á síðasta stórmóti og komust í átta liða úrslit en Tyrkir voru hræðilegir og töpuðu öllum leikjunum. Liðin eru líkleg til að komast bæði áfram og líta á Georgíuleikinn sem skyldusigur. Hinn 19 ára gamli Tyrki Arda Güler er einn mest spennandi leikmaður mótsins og á eflaust eftir að láta til sín taka.

E-RIÐILL

Belgía

Slóvakía

Rúmenía

Úkraína

17.6. Rúmenía – Úkraína 13

17.6. Belgía – Slóvakía 16

21.6. Slóvakía – Úkraína 13

22.6. Belgía – Rúmenía 19

26.6. Slóvakía – Rúmenía 16

26.6. Úkraína – Belgía 16

F-RIÐILL

Tyrkland

Georgía

Portúgal

Tékkland

18.6. Tyrkland – Georgía 16

18.6. Portúgal – Tékkland 19

22.6. Georgía – Tékkland 13

22.6. Tyrkland – Portúgal 16

26.6. Georgía – Portúgal 19

26.6. Tékkland – Tyrkland 19