Viðbygging Tölvugerð mynd af frumhönnun byggingarinnar gefur hugmynd um fyrirhugaða staðsetningu.
Viðbygging Tölvugerð mynd af frumhönnun byggingarinnar gefur hugmynd um fyrirhugaða staðsetningu. — Tölvuteikning/Helgi Valur Harðarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Reisa á 1.500 fermetra nýbyggingu fyrir verknámsbrautir við Verkmenntaskólann á Akureyri og þar með verður bætt úr langvarandi og aðkallandi húsnæðisþörf. Samningur um bygginguna var undirritaður í maí af Ásmundi Einari Daðasyni menntamálaráðherra,…

Viðtal

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Reisa á 1.500 fermetra nýbyggingu fyrir verknámsbrautir við Verkmenntaskólann á Akureyri og þar með verður bætt úr langvarandi og aðkallandi húsnæðisþörf.

Samningur um bygginguna var undirritaður í maí af Ásmundi Einari Daðasyni menntamálaráðherra, Sigríði Huld Jónsdóttur, skólameistara VMA, Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra á Akureyri, Eyrúnu Ingibjörgu Sigþórsdóttur, sveitarstjóra Dalvíkurbyggðar, Snorra Finnlaugssyni, sveitarstjóra Hörgársveitar, Finni Yngva Kristinssyni, sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar, Þórunni Sif Harðardóttur, sveitarstjóra Svalbarðsstrandarhrepps, og Þresti Friðfinnssyni, sveitarstjóra Grýtubakkahrepps. Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri í Fjallabyggð, var fjarverandi.

Ríkið greiðir 60% byggingarkostnaðar og sveitarfélögin 40%.

Lengi búið við þröngan kost

Í fyrirhugaða byggingu, sem mun rísa við norðvesturhorn núverandi skólahúss, færist nám í húsasmíði og bifvélavirkjun og við það rýmkast um aðrar verknámsbrautir skólans sem margar hafa lengi búið við þröngan kost. Skólinn var formlega settur á stofn 1. júní 1984 og er því 40 ára á árinu en síðasti byggingaráfangi skólans var tekinn í notkun haustið 2010.

Skóflustunga á næsta ári

Nú verður ráðist í hönnun byggingarinnar og breytingar á núverandi húsnæði en myndir hafa verið tölvugerðar af frumhönnun hennar sem gefa fyrst og fremst hugmynd um fyrirhugaða staðsetningu byggingarinnar og stærð hennar í samanburði við núverandi byggingar skólans.

Ásmundur Einar sagði við undirritunina að dagurinn væri ánægjulegur ekki eingöngu fyrir Eyjafjarðarsvæðið heldur landið allt. Samningurinn væri hluti af átaki stjórnvalda til þess að bæta aðstöðu í framhaldsskólum til iðn- og starfsnáms með það að markmiði að geta tekið við fleiri nemendum. Taldi ráðherra enga hindrun í vegi þess að næstu skref gengju hratt og vel fyrir sig og vænti þess að unnt yrði að taka fyrstu skóflustunguna að byggingunni snemma á næsta ári.

Ásthildur sagðist við sama tækifæri, fyrir hönd sveitarfélaganna sjö, hlakka mikið til að sjá verkefnið fara af stað. Verkmenntaskólinn væri svæðinu gríðarlega mikilvægur og hróður hans hefði borist víða. Með nýjum byggingarkafla muni skólinn halda áfram að eflast sem sé afar ánægjulegt og mikilvægt.

Aukin aðsókn í verknám

Sigríður Huld segir í samtali við Morgunblaðið að allar núverandi verklegar greinar séu í dag í húsnæði sem er annaðhvort ekki byggt miðað við núverandi námskrá eða hafa verið færðar inn í kennslurými sem byggt var fyrir bóknám. Segir hún að nemendum í bóklegu námi fari fækkandi í íslenskum framhaldsskólum og að á móti þurfi iðn- og starfsnám meira pláss en aðsókn í það hefur aukist á undanförnum árum.

Kostir og gallar

Sífellt fleiri velja iðn- og starfsnám að sögn Sigríðar en á móti fækkar þeim sem velja bóknámsbrautir. Fjölgunin sem hefur orðið á nemendum í iðn- og starfsnámi birtist fyrst og fremst, bæði hjá VMA og öðrum framhaldsskólum sem bjóða upp á iðn- og starfsnám, í því að eldri nemendur sækja í kvöld- og helgarnám til þess að leggja stund á einhverja iðngrein. Því fylgja bæði kostir og gallar. Sigríður segir að þannig nýtist húsnæði skólanna betur enda ekki eingöngu í notkun frá átta til fjögur. Hættan sem þetta getur hins vegar valdið er að iðn- og starfsnám verði meira og minna kvöld- og helgarnám fyrir fullorðið fólk og tækifærum nýnema sem eru að klára 10. bekk í dagskóla í iðn- og starfsnámi fækki ef nýnemum heldur ekki áfram að fjölga – það borgi sig ekki lengur að halda úti iðn- og starfsnámi á daginn.

Læknar og lögfræðingar

Sigríður segir alls konar fólk hafa sótt í iðn- og verknám undanfarið. Þegar fyrst hafi verið farið af stað með kvöldskóla í húsasmíði hafi meðal annars læknar og lögfræðingar sótt um í námið. Hún segist svo sem ekki hafa hugmynd um það en þó álykta að læknar og lögfræðingar séu kannski ekki fólk sem skráir sig í húsasmíði með það fyrir augum að stofna byggingafyrirtæki. „Ég held að þar sé frekar um að ræða fólk sem hefur gaman af þessu, vill kannski geta haldið sínu húsi við eða aðstoðað börnin sín við ýmis viðvik án þess að fara að vinna við iðnina.“

Þá segir hún fólk sækja um sem einhvern tímann hefur flosnað upp úr námi og er að koma af vinnumarkaði aftur í skóla sem og þau sem hafi verið á vinnumarkaði en vilja skipta um starfsvettvang. „Þetta er alls konar.“

Bylting í aðstöðu til verknáms

Gera þarf verulegar breytingar

Sigríður Huld segir undirritun samnings vegna nýbyggingarinnar afar mikilvæga en ekki síður að nú fylgi vilyrði stjórnvalda um endurnýjun innan núverandi húsnæðis. Það þurfi að gera verulegar breytingar á húsnæðinu og hægt væri að byrja strax á morgun að bæta til dæmis aðstöðu í matvælagreinum og háriðn en ekki sé hægt að færa rafvirkjun fyrr en hægt verði að komast inn í gamla byggingadeildarhúsnæðið þegar byggingadeildin flytur í nýju bygginguna. Rafiðngreinar eru í dag kenndar á þremur mismunandi stöðum í skólahúsnæði Verkmenntaskólans, meðal annars að hluta til í álmu sem byggð var sem kennslurými fyrir bóknám. Það sé mikilvægt að bæta úr því. Sigríður Huld segist þá varla geta ímyndað sér að frekari stækkun þurfi við húsnæði framhaldsskóla í Eyjafirði næstu 20-30 árin nema stórkostlegar breytingar verði á mannfjölda á svæðinu.

Höf.: Ólafur Pálsson