Jóhanna Vigdís Biður mann að sýna skilning.
Jóhanna Vigdís Biður mann að sýna skilning. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir og Heiðar Örn Sigurfinnsson eru blíðlega foreldraleg í auglýsingu sem RÚV sýnir nú á besta sýningartíma. Þar tilkynna þau okkur að fréttatími RÚV verði næstu vikur klukkan 21.00 í stað 19.00

Kolbrún Bergþórsdóttir

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir og Heiðar Örn Sigurfinnsson eru blíðlega foreldraleg í auglýsingu sem RÚV sýnir nú á besta sýningartíma. Þar tilkynna þau okkur að fréttatími RÚV verði næstu vikur klukkan 21.00 í stað 19.00. Ástæðan er sú að RÚV telur brýnt forgangsverkefni að þóknast forföllnum íþróttaáhugamönnum sem krefjast þess að fá að glápa á beina útsendingu frá sparkleikjum á EM.

Jóhanna Vigdís og Heiðar Örn segja okkur þessi tíðindi mild á svip, eins og þeim þyki þetta nokkuð leitt en viti að við þessu sé ekkert að gera. Svo verða þau enn blíðari á svip þegar þau þakka okkur fyrir að sýna málinu skilning.

Þegar einhver þakkar manni fyrir að sýna einhverju skilning þá veit maður að svínað hefur verið á manni. Maður veit að verið er að höfða til manns betri manns, því er treyst að maður muni ekki tryllast og láta öllum illum látum heldur umbera og fyrirgefa.

Maður á ekkert svar við þessum kúgunartilburðum, sem settir eru fram eins og afsökunarbeiðni. Eina leiðin virðist vera að sætta sig við að búið er að hafa af manni kvöldfréttir í sumar. Ekki horfir maður klukkan 21.00 því þá er maður að lesa góða bók – sem er mun vitsmunalegri iðja en gláp á karlmenn að sparka bolta.