Dagþór Haraldsson
Dagþór Haraldsson
Ég tek þá mér til fyrirmyndar og hef sama háttinn á og býð öllum Íslendingum í 150 ára afmæli mitt árið 2100.

Dagþór Haraldsson

Vitna í forsíðu Moggans 5. júní sl. Fyrirsögnin á forsíðunni er: „18.638 skulda TR meira en 200 þúsund kr.“ Fyrsta málsgreinin er: „Rúmlega 52 þúsund lífeyrisþegar fengu ofgreiddan lífeyrir í fyrra eða 78% allra lífeyrisþega og þurfa að endurgreiða.„ Síðan segir á bls. 12 í sama blaði: „Ástæðurnar eru fyrst og fremst vegna verðbólgu og vaxtastigs sem hefur mikil áhrif á lífeyrissjóðsgreiðslur og fjármagnstekjur.“ Þetta er kynnt 1. júní ár hvert, en reyndar mun gjalddagi gamlingjanna vera 1. sept.

5. des. 2022 héldu Willum Þór heilbrigðisráðherra og Guðmundur Ingi félagsmálaráðherra glærusýningu undir slagorðinu „Gott að eldast“ á Hilton Nordica. „Glærusýningu með tilþrifum“ eins og RÚV flutti fréttina. Áætlun þeirra átti að taka fjögur ár, já fjögur ár. Væntanlega er löngu búið að ráða starfsfólk í að sinna þessu langtímverkefni sem er dæmigert fyrir hið opinbera, þ.e. að velta málunum fram og til baka og útkoman verður engin. Þeim hefði t.d. verið í lófa lagið að hækka strax frítekjumörk atvinnutekna ellilífeyrisþega umtalsvert (núna 200 þús. á mánuði). Sú ráðstöfun myndi þýða að í mörgum tilfellum væri ellilífeyrisþeginn að borga sinn eigin ellilífeyri með sínum sköttum og jafnframt að auka sín lífsgæði í stað þess að hanga heima til að missa ekki 80% af umframatvinnutekjum til ríkisins (kuldabola). En fyrst og fremst hefðu þeir átt strax, þ.e. hefðu þeir meint eitthvað með glærusýningunni, að hækka frítekjumark annarra tekna úr 25 þús. sem er búið að vera óbreytt síðan 2017, þrátt fyrir mikla verðbólgu.

Það eru sem sé verðbætur (sem eru froða) og vaxtatekjur sem valda að mestu þessum skuldum ellilífeyrisþeganna. Tekið af vef Hagstofunnar: „Ársmeðaltal vísitölu neysluverðs árið 2023 var 592,8 stig, 8,8% hærra en meðalvísitala ársins 2022.“ Hvað skyldi þetta þýða í raun? Mjög einfalt eða ef viðkomandi átti 10 milljónir á bankareikningi og fékk 880 þús. í vexti þá hafði viðkomandi ekki grætt neitt, hann var á sléttu þar sem verðbætur eru bara froða, en ekki verðmætaaukning. En svo kemur kuldaboli (ríkið) og krefst 22% fjármagnstekjuskatts af „fjármagnstekjum“ (froðu) yfir 300 þús., það gerir 127.600 kr. á ári eða 10.583 kr. á mánuði. En ekki nóg með það því kuldaboli á enn eftir eitt fólskubragð, hann mun rýra ellilífeyrinn þinn. Þessi froða fer inn á tekjur (aðrar en atvinnutekjur) með frítekjumark upp á 25 þús. á mánuði (sem er þegar nýtt hjá langflestu fólki) og þar er skerðingin 45%. Þetta þýðir að ellilífeyririnn skerðist mánaðarlega um 33 þús. Fyrir nú utan að heimilisuppbót skerðist líka um 11,9%, segjum 6.300 kr. á mánuði. Jaðarskattur (sem er viðbót við fjármagnstekjuskatt) á ellilífeyrisþega er því 33.000 plús 6.300 eða 39.300 krónur á mánuði bara vegna verðrýrnunar (verðbótafroðu). Kuldaboli sér til þess að inneignin rýrnar! Og kuldaboli fitnar. Er óeðlilegt að ellilífeyrisþeginn vilji eiga einhverja upphæð við starfslok? Nei, alls ekki, sá hinn sami er búinn að borga sína skatta og skyldur alla ævi. Þó að við séum hætt að vinna þá viljum við vera sjálfstæð og við gerum okkur grein fyrir að óvænt áföll geta komið upp. Sem dæmi má nefna að félagi minn í Korpúlfum sagði mér að hann hefði þurft heyrnartæki og þau kostuðu yfir 700 þús. TR tók þátt í þessu en eftir stóð að viðkomandi sagðist hafa þurft að borga um 600 þús.Þessar skriftir mínar sem hafa birst í Mogganum, blaði allra landsmanna, og ég hef alltaf vitnað til sem „Gott að eldast“ eru orðnar nokkuð margar en fjalla um sama mál en á mismunandi hátt. Ég hef samt ekki minnst á fyrr en núna að Guðmundur Ingi félagsmálaráðherra „hefur gengið gegn einróma vilja Alþingis í júní 2021 um að komið yrði á fót embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks“ (Inga Sæland í Mogganum 21. mars 2024).

Í æsku var mér kennt að taka alltaf ábyrgð á tali mínu og gerðum. Það þýðir einfaldlega að þú tekur ábyrgð á því sem þú lofar. Hugmynd ráðherranna er hrein snilld. Þeir settu málið í fjögurra ára svefn og aðgerðaleysi. Mér er til efs að Willum Þór og Guðmundur Ingi verði ráðherrar í des. 2026 sem er fjórum árum eftir að þeir héldu „glærusýninguna, með tilþrifum“. Þessir tveir ráðherrar þurfa því ekki að bera ábyrgð og standa skil á loforðum sínum. Ég tek þá mér til fyrirmyndar og hef sama háttinn á og býð öllum Íslendingum í 150 ára afmæli mitt árið 2100.

Leiðsögumaður með erlenda ferðamenn.