Lárus Þorvaldur Guðmundsson, fyrrverandi prófastur og sendiráðsprestur, lést þriðjudaginn 4. júní síðastliðinn, 91 árs að aldri. Lárus fæddist á Ísafirði 16. maí 1933. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og útskrifaðist með cand

Lárus Þorvaldur Guðmundsson, fyrrverandi prófastur og sendiráðsprestur, lést þriðjudaginn 4. júní síðastliðinn, 91 árs að aldri.

Lárus fæddist á Ísafirði 16. maí 1933. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og útskrifaðist með cand. theol.-próf frá Háskóla Íslands. Á námsárunum starfaði hann sem framkvæmdastjóri Alþýðuflokksins.

Hann var vígður til prests frá Skálholti árið 1963 og skipaður sóknarprestur í Holtsprestakalli í Önundarfirði sama ár. Hann varð prófastur í Ísafjarðarprófastsdæmi árið 1978 og kirkjuþingsmaður til 1988. Lárus var virkur þátttakandi í samfélaginu á Vestfjörðum. Hann starfaði ötullega að æskulýðsmálum, stofnsetti og rak sumarbúðir ásamt öðrum, á Núpi í Dýrafirði og lengst í Holti í Önundarfirði. Náttúrverndarmál voru honum hugleikin og átti hann stóran þátt í gerð Náttúruminjaskrár Vestfjarða.

Lárus var sáttasemjari í V-Ísafjarðarsýslu og prófdómari í Núpsskóla í Dýrafirði. Hann var gilwell-skáti og stofnaði ásamt öðrum skátafélag á Flateyri. Hann var einn stofnenda Hjálms hf. útgerðarfélags á Flateyri og stjórnarformaður þess félags um árabil. Lárus átti sér mörg áhugamál, hann var með einkaflugmannspróf og átti bæði flugvél og bát. Hann notaði hvort tveggja í embættisstörfum sínum fyrir vestan. Lárus var mikill útivistarmaður og vílaði ekki fyrir sér að fara á gönguskíðum yfir fjöll, dali og sjó til þess að komast til sinna starfa.

Árið 1989 var hann ráðinn sendiráðsprestur í Kaupmannahöfn og var jafnframt umsjónarmaður í Húsi Jóns Sigurðssonar. Lárus var sæmdur dannebrogsorðunni af Margréti Danadrottingu fyrir störf sín fyrir Íslendinga í Danmörku.

Eiginkona Lárusar var Sigurveig Georgsdóttir, f. 1930, d. 2018. Lárus og Sigurveig eignuðust þrjú börn. Barnabörnin eru átta og barnabarnabörnin fimm.

Útför Lárusar fer fram í Digraneskirkju í Kópavogi föstudaginn 28. júní kl. 13.