[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Selma Lóa Björnsdóttir fæddist 13. júní 1974 í Reykjavík en ólst upp í Garðabænum. Hún gekk í Flataskóla og Garðaskóla og varð stúdent frá Verzlunarskóla Íslands 1994. Fimm ára gömul fór Selma að læra á selló sem hún æfði í þrjú ár

Selma Lóa Björnsdóttir fæddist 13. júní 1974 í Reykjavík en ólst upp í Garðabænum. Hún gekk í Flataskóla og Garðaskóla og varð stúdent frá Verzlunarskóla Íslands 1994.

Fimm ára gömul fór Selma að læra á selló sem hún æfði í þrjú ár. Hún söng með Skólakór Garðabæjar 1980-87 og lærði djassballett hjá Hafdísi Jónsdóttur 1985-89. Frumraun hennar í leikhúsi kom þegar hún var aðeins sjö ára gömul en hún söng álfadísina í uppfærslu barnakórs Garðabæjar á Öskubusku. Þegar Selma var tíu ára fengu hún og systur hennar hlutverk í barnaóperunni Örkinni hans Nóa sem var sýnd í Íslensku óperunni og stuttu seinna komu þær fram í óperunni Carmen. Einnig fékk Selma hlutverk Kamillu í barnaleikritinu Kardemommubænum í Þjóðleikhúsinu.

Selma gerði síðan hlé á leiklistinni í Versló en hún var danshöfundur í nemendamótssýningunni á söngleiknum Jesus Christ Superstar og vann á lokaárinu sínu söngvakeppni skólans, Verzló væl, en vinkona hennar skráði hana til leiks án vitundar hennar.

Selma stundaði skrifstofustörf hjá Myndformi í Hafnarfirði 1994-96 en árið 1995 var hún ráðin til að leika Rosaliu í uppfærslu Þjóðleikhússins á West Side Story og brátt tók leiklistar- og söngferillinn yfir. „Ég var fyrst ráðin inn í Þjóðleikhúsið sem dansari og svo komust þeir að því að ég sat sungið og þá fékk ég stærri hlutverk og svo leyfðu þeir mér að prófa að leika.“ Hún lék m.a. í söngleikjunum Rocky Horror Picture Show og í Grease og meðfram þessu var hún í hljómsveitinni Fantasíu og hafði umsjón með unglingaþættinum Ó-inu í Ríkissjónvarpinu 1996-97.

Vinsældir Grease urðu gríðarlega miklar og í framhaldinu var Selma beðin um að vera fulltrúi Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva vorið 1999 og réð hún lagavalinu. Hún valdi lagið All out of Luck sem er eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson og lenti hún í 2. sæti eftir æsispennandi baráttu um fyrsta sæti. Var þetta besti árangur Íslands í söngvakeppninni og síðan þá hefur Ísland einu sinni lent í 2. sæti.

Í framhaldinu gaf Selma út plötuna I Am sem var söluhæsta íslenska hljómplata ársins 1999 og seldist í yfir tíu þúsund eintökum. Selma hefur alls gefið út þrjár sólóplötur og tvær dúettaplötur með Jóhönnu Vigdísi Arnardóttur.

Ferill Selmu hefur allar götur síðan verið afar fjölbreyttur. Hún lék m.a. í Litlu hryllingsbúðinni, Sheilu í Hárinu, í Gauragangi 2, Halldór í Hollywood, Footloose, var Eva appelsína í Ávaxtakörfunni, Harpí í Hafinu bláa, Brynhildur álfadrottning í Benedikt búálfi, Lady of the lake í Spamalot og Kathy Selden í Syngjandi í rigningunni. Hún lék í Rómeó og Júlíu Vesturports og skrifaði og samdi tónlist fyrir sýninguna Bíddu bara ásamt Sölku Sól og Björk Jakobs fyrir Gaflaraleikhúsið. Hún hefur einnig leikið mikið fyrir sjónvarp og í kvikmyndum, t.d. í Verbúðinni, Undir trénu og síðast Kulda en hún var tilnefnd til Edduverðlauna fyrir hlutverk sitt í þeirri mynd í ár.

Frumraun Selmu sem leikstjóra var í Gosa sem var sýndur í Borgarleikhúsinu árið 2007. Hún hefur leikstýrt út um allan heim og hér heima m.a. í Vesalingunum, Oliver Twist, Kardemommubænum, Karíusi og Baktusi, Hleyptu þeim rétta inn, Shakespeare verður ástfanginn, Fjarskalandi og Í hjarta Hróa hattar.

Hún var einn fjögurra listrænna stjórnenda Söngvakeppninnar í ár. Hún hefur verið dómari í Idol og Ísland Got Talent og Allir geta dansað og listrænn stjórnandi Ísland Got Talent. Hún hefur í seinni tíð stýrt leikaravali fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti, m.a. sjónvarpsþáttunum Kötlu, Ófærð og King and Conqueror, sem nú er í tökum, og kvikmyndunum Eiðnum og Snertingu.

Núna sinnir Selma sex störfum. Hún er leikkona, söngkona, leikstjóri, veislustjóri, sér um leikaraval í bíómyndum og er athafnastjóri hjá Siðmennt. „Ég gef fólk saman, er með borgaralegar fermingar og nafngjafir og hef gert það síðan 2018. Ég vinn sem sagt við þessa sex hluti og mér finnst það algjörlega frábært. Það hefur líka reynst mér vel að setja ekki öll eggin í eina körfu.“

Það er nóg um að vera á næstunni hjá Selmu og er hún komin með verkefni út árið. „Það er búið að bjóða mér tvö leikstjórnarverkefni sem ég er að íhuga, og ég mun sjá um leikaraval fyrir erlenda mynd núna í haust. Svo er ég mikið bókuð í að syngja og leikstýri talsetningu á teiknimyndum. Ég var að leika í sjónvarpsseríu um Vigdísi forseta og er að fara að leika í sjónvarpsþáttaseríu en ég má ekki segja hver hún er.

Ég vinn mikið við áhugamálin mín,“ segir Selma þegar hún er spurð út í þau. „Ég fer mikið í sund, mér finnst gaman að fara í göngur á sumrin og elska að ferðast. Svo er ég að rembast við að læra ítölsku á netinu. Við maðurinn minn lærðum saman salsa og fórum á salsa festival í Króatíu og mig langar að halda því áfram.“

Fjölskylda

Sambýlismaður Selmu er Kolbeinn Tumi Daðason, f. 27.7. 1982, fréttastjóri Sýnar. Þau eru búsett í Vesturbænum í Reykjavík. Foreldrar Tuma eru hjónin Daði Kolbeinsson, f. 5.11. 1950, óbóleikari, og Sesselja Halldórsdóttir, f. 25.2. 1951, víóluleikari. Þau voru bæði í Sinfóníuhljómsveit Íslands og eru búsett í Reykjavík.

Börn Selmu eru Gísli Björn Rúnarsson, f. 5.12. 2002, flugþjónn hjá Play, og Selma Rún Rúnarsdóttir, f. 23.1. 2007, nemi í MR. Börn Tuma eru Elsa María Kolbeinsdóttir, f. 2.4. 2010, og Finnur Atli Kolbeinsson, f. 31.5. 2011.

Systur Selmu eru Birna, f. 19.6. 1970, eigandi Dansskóla Birnu Björns, búsett í Garðabæ; Hrafnhildur, f. 7.2. 1972, óperusöngkona, búsett á Englandi, og Guðfinna, f. 21.8. 1978, starfar hjá Icelandair, búsett í Reykjavík.

Foreldrar Selmu eru hjónin Björn Friðþjófsson, f. 19.8. 1948, húsasmíðameistari og Aldís Elíasdóttir, f. 8.1. 1947, húsmóðir. Þau eru búsett í Reykjavík.