Fjölhæfni Ragnheiður stjórnar Dönsku þjóðarhljómsveitinni.
Fjölhæfni Ragnheiður stjórnar Dönsku þjóðarhljómsveitinni. — Ljósmynd/Per Morten Abrahamsen
„Þetta var magnað,“ segir söngkonan, fiðluleikarinn og hljómsveitarstjórinn Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir um útskriftartónleika úr Malko-hljómsveitarstjóraakademíunni í Kaupmannahöfn í liðinni viku, en þá stjórnaði hún Dönsku þjóðarhljómsveitinni í flutningi á 4

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

„Þetta var magnað,“ segir söngkonan, fiðluleikarinn og hljómsveitarstjórinn Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir um útskriftartónleika úr Malko-hljómsveitarstjóraakademíunni í Kaupmannahöfn í liðinni viku, en þá stjórnaði hún Dönsku þjóðarhljómsveitinni í flutningi á 4. sinfóníu Mahlers í stóra salnum í DR-tónlistarhúsinu. Hún útskrifast úr akademíunni í lok mánaðarins og heldur þá á vit nýrra ævintýra.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Ragnheiður aflað sér viðamikillar reynslu og fengið fjölda viðurkenninga og verðlauna í tónlistarheiminum auk verkefnastyrkja og listamannalauna. Í lok maí hlaut hún verðlaun úr Minningarsjóði Kristjáns Eldjárns gítarleikara, ásamt Kára Egilssyni píanóleikara. „Það var mjög gaman og mikill heiður að fá þessi verðlaun og gaman að Kári skyldi líka fá þau, því hann er mjög flottur og fjölhæfur tónlistarmaður.“ Hún bætir við að styrkurinn komi sér sannarlega vel. „Stuðningurinn er mikilvægur og mér þykir virkilega vænt um hann.“

Þökkum fyrir árin!

Ragnheiður var valin Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum í fyrra og hún verður á ferð og flugi næstu mánuði. „Ég syng með norrænum óperukór, sem kemur fram í Svíþjóð, Danmörku og á Íslandi.“ Í sumar verður hún mest í Danmörku og undirbýr verkefni haustsins, en meðal annars syngur hún og stjórnar samtímis upptökum með Sinfóníuhljómsveit Íslands í ágúst. Nýlega stjórnaði hún nýju tónlistarævintýri sem heitir „Tumi fer til tunglsins“ og er eftir föður hennar, Jóhann G. Jóhannsson. „Við endurtökum svo leikinn á Óperudögum í lok október.“ Á sömu hátíð syngur hún og stjórnar Pierrot lunaire, meistaraverki Schönbergs fyrir kvintett og söngkonu.

Athygli vakti í vor að við hefðbundna dimissjón og skólaslit Menntaskólans í Reykjavík sungu nemendur Abba-lagið góðkunna Thank You for the Music við íslenskan og vel viðeigandi texta, Þökkum fyrir árin! Ragnheiður söng lagið við þennan texta, þegar hún brautskráðist frá skólanum vorið 2019.

„Ég var beðin um að syngja við útskriftina mína og mig langaði að gera eitthvað sniðugt, eitthvað sem skólafélagar mínir gætu tekið þátt í. Eins og svo oft áður leitaði ég til pabba og líka til Diddúar, söngkennara míns. Diddú datt lagið í hug, við pabbi ræddum hvað hefði einkennt árin mín í MR og hann orti svo textann með hliðsjón af því við lagið. Ég plataði svo skólafélagana til að taka undir í viðlaginu.“

Ragnheiður segir ánægjulegt að lagið hafi verið flutt aftur. „Það mun nú varla ná að toppa Gaudeamus igitur sem helsta skólalagið.“

Í fyrravor lauk Ragnheiður meistaranámi í söng við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi og auk þess hefur hún verið í Malko-akademíunni í Kaupmannahöfn frá hausti 2022. Í haust byrjar hún í námi í hljómsveitarstjórn við Tónlistarháskólann í Ósló undir handleiðslu Ole Kristian Ruud og útskrifast þaðan vorið 2026. „Það er mjög spennandi nám, sem fellur vel að þörfum mínum og áhugasviði. Ég verð aðallega í hljómsveitarstjórn en fæ líka söngtíma í hverri viku. Ég held því áfram að þróa sönginn og mörg spennandi verkefni eru fram undan.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson