Viðar Sýrusson, löggiltur rafverktaki, fæddist í Reykjavík 3. júní 1958. Hann lést 3. júní 2024.

Foreldrar hans voru hjónin Sýrus Guðvin Magnússon, f. 27. desember 1931, d. 8. maí 2010, og Matthildur Katrín Jónsdóttir, f. 27. nóvember 1934. Sýrus og Matthildur eignuðust þrjú börn og var Viðar þeirra elstur. Systkini hans eru Ásta Kristín, f. 20. maí 1960, og Reynir, f. 29. apríl 1966.

Eftirlifandi eiginkona Viðars er Eydís Arna S. Eiríksdóttir, f. 3. febrúar 1967, og gengu þau í hjónaband 19. september 2019. Eydís á tvo syni frá fyrra hjónabandi, Eirík Birki Ragnarsson, f. 3. júlí 1984, og Ragnar Inga Ragnarsson, f. 13. júní 1987. Barnabörn Eydísar eru Sigurður Einar, Ragnar Daníel og Eydís Elsa.

Viðar lætur eftir sig tvo syni og fjögur barnabörn. 1) Með Bryndísi Helgu Hannesdóttur, f. 13. ágúst 1959: Stefán Örn, f. 3. desember 1978. Eiginkona hans er Guðný Lára Gunnarsdóttir, f. 3. nóvember 1977. Þeirra börn eru Alex Ernir, f. 17. apríl 2005, og Eldar Máni, f. 13. mars 2013. Frá fyrra sambandi á Stefán dótturina Sædísi Birtu, f. 8. apríl 1998 og Guðný Lára soninn Ingimund Bjarna Roy Símonarson, f. 22. ágúst 1998. 2) Með Bryndísi Karen Borgedóttur, f. 1. október 1958 (giftust 11. júní 1983, þau skildu): Heimir Freyr, f. 31. október 1983. Sambýliskona hans er Guðrún Elísa Ragnarsdóttir, f. 21. maí 1983. Frá fyrra hjónabandi á Heimir soninn Kjartan van der Feest, f. 27. apríl 2016. 3) Fyrri eiginkona Viðars er Elsa Ólafsdóttir, f. 27. maí 1952 (giftust 18. mars 1999, þau skildu).

Viðar gekk í grunnskóla í Kársnesskóla og síðan í gagnfræðaskóla í Þinghólsskóla. Hann ólst upp í Kópavogi og bjó lengst af þar eða í Reykjavík, keppti á unglingsárunum í sundi og stundaði hlaup af kappi allt fram á sjötugsaldurinn. Hann nam mjólkurfræði hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík 1975-1978, lauk sveinsprófi í rafvirkjun 10. júní 1980 frá Iðnskólanum í Reykjavík, hlaut meistararéttindi í rafvirkjun 4. janúar 1984 og loks löggildingu sem löggiltur rafverktaki 15. janúar 1993, auk þess meðal annars að vera með skipstjórnarréttindi. Viðar starfaði lengst á verkstæði Heimilistækja í Reykjavík, hjá vélaverkstæðinu Agli, síðar Kapp, og við lyftuviðgerðir hjá KONE í Reykjavík og víðs vegar um landið. Þá rak hann um árabil eigið fyrirtæki sem nefndist Rafheimilið. Hann bjó og starfaði einnig erlendis um hríð sem rafvirki, annars vegar í Noregi og hins vegar í Danmörku. Viðar var áfram um andans mál og heilbrigði líkama og sálar. Þar má til dæmis nefna svæðanudd, jóga og dáleiðslu, en hann stundaði einnig kajaksiglingar, köfun, maraþon og böð svo fátt eitt sé nefnt.

Útför Viðars fer fram frá Digraneskirkju í dag, 13. júní 2024, og hefst athöfnin klukkan 11.

Þann 3. júní kvaddi elsku Viðar tengdapabbi, stjúpi og afi mjög skyndilega og það á afmælisdaginn sinn. „Þeir deyja ungir sem guðirnir elska“ á við núna því Viðar var á besta aldri.

Það er ótrúlega einkennilegt hvernig lífið getur allt í einu breyst og orðið aðeins minna bjart á einu augabragði. Við minnumst manns með fallegt hjarta og bjarta sál. Manns sem ávallt stökk til ef einhvern vantaði hjálparhönd. Manns sem tók krökkunum okkar Eika sem afabörnum sínum við fyrstu kynni. Manns sem var skemmtilega fyndinn en þó mest þegar hann var ekki að reyna það og hlógum við oft að því. Manns sem var með furðulegan matarsmekk og gat því blandað saman alls konar hráefnum sem mann hefði kannski ekki órað fyrir að væru góð saman. Og stundum hreinlega voru ekki góð saman en honum fannst það og það dugði honum.

Manns sem fór allt of ungur og eftir sitja margir með brotið hjarta. Við Eiki erum afskaplega þakklát fyrir að hafa fengið faðmlag frá Viðari nokkrum dögum fyrir andlátið. Það hlýjar á einhvern hátt. Viðar var fyrstur að kaupa af mér málverk og ég minnist þess sterkt hversu mikil hvatningin var frá tengdamömmu og honum þegar kom að list minni. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát. Þau opnuðu heimilið sitt fyrir okkur ávallt þegar við komum suður og stundum skelltu krakkarnir sér suður og þá var gist heima hjá ömmu og afa.

Elsku dásamlega tengdamamma, hugur okkar er hjá þér öllum stundum. Ég vildi óska að ég gæti verið með ykkur þessa vikuna og kvatt elsku Viðar okkar en þess í stað munuð þið öll og hann taka yfir hug minn.

Elsku Viðar, fljúgðu nú yfir í sumarlandið fallega þar sem boðið er upp á ljúffengan makríl og eitthvað gott með því. Megir þú hvíla í friði okkar kæri.

Elsku fjölskylda og vinir, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Kristín Gígja, Eiríkur, Sigurður (Diddi), Ragnar Daníel og Eydís Elsa.

Elskulegur bróðir okkar, Viðar eða stóri Brói eins og við kölluðum hann í seinni tíð, er fallinn frá, langt um aldur fram. Enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér og mikilvægi þess að njóta hvers dags og alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða hefur aldrei verið ljósara.

Það er stórt skarð höggvið í fjölskyldu okkar; fyrst með fráfalli okkar ástkæra föður fyrir fjórtán árum og svo nú. Viðar var mikill vinur okkar, með stórt hjarta og bóngóður, hvern sem erindið varðaði. Alltaf til staðar og tilbúinn að hjálpa.

Þegar hugurinn reikar og sorgin er orðin staðreynd í hjörtum okkar rifjast upp fallegar minningar. Við systkinin áttum yndislega æsku í Kópavoginum, umvafin ást og kærleik. Okkur kom alltaf vel saman, enda Viðar með einstakt jafnaðargeð og skipti aldrei skapi. Bestu minningarnar eru úr Eilífsdalnum þar sem foreldrar okkar komu sér upp sumarbústað ásamt fleiri systkinum pabba og fjölskyldum þeirra. Þar var mikið brallað með frændum og frænkum, oft glatt á hjalla og farið í ýmsar hættuferðir, í allskonar leiki og skemmtilegheit enda engir símar til í þá daga. Það var ekki auðvelt fyrir foreldra okkar að fá okkur inn í háttinn á kvöldin á yndislegum, löngum sumarkvöldum. Síðar keypti Viðar einn af þessum fjölskyldubústöðum og gerði hann upp af mikilli natni ásamt eiginkonu sinni, Eydísi.

Allt lék í höndunum á Bróa, mikill verkmaður sem hann var, með það besta frá foreldrum sínum. Móður okkar sinnti Viðar af einstakri hlýju og ræktarsemi og það verður erfitt fyrir elsku mömmu að vera án hans. Við hin munum gera okkar besta að fylla í hans skarð þó erfitt verði. Við eigum eftir að sakna hans endalaust og hlökkum til að hitta hann að nýju við mun betri aðstæður og vitum að það verða fagnaðarfundir þegar pabbi og Viðar hittast á ný.

Við biðjum algóðan Guð að styrkja og vera með mömmu, Eydísi, Stefáni Erni, Heimi Frey og fjölskyldum þeirra og okkur öllum í sorginni, því hún er mikil og sár. Við systkinin kveðjum Viðar okkar með sorg í hjarta en jafnframt þakklæti fyrir öll árin sem við fengum að njóta samvista með honum. Minningin lifir.

Ásta og Reynir.

Elsku Viðar, kæri mágur minn. Þú komst óvænt og skjótt inn í líf Eydísar systur minnar. Hún kynnti þig fyrir mér sem Viðar rafvirkjann sinn. En þið Eydís urðuð fljótt ástfangin og áður en við vissum af varstu orðinn kærasti, síðan sambýlismaður og loks eiginmaður. Þar með varstu orðinn hluti af fjölskyldunni. Það var gott að kynnast þér og gaman að sjá hvað þið Eydís urðuð samrýmd og kraftmikil í framkvæmdum á nýja heimilinu ykkar.

Það er mikill missir að Viðari úr fjölskyldunni. Hann var afar hjálpsamur, duglegur og einstaklega bóngóður. Hann yfirgaf aldrei höfuðborgina án þess að verkfærataskan væri með í för. Ekki er til það heimili í fjölskyldunni þar sem Viðar hefur ekki skipt um ljós, lagt rafmagn eða sett upp ryksugukerfi. Það var ekki auðvelt að halda honum frá stórum sem smáum verkefnum þegar fjölskyldan var annars vegar. Hann var grúskari í eðli sínu og leitaði ávallt lausna frekar en gefast upp í miðju verkefni. Hinn dularfulli leki í sturtunni í Vesturbergi, sem fannst eftir nokkrar tilraunir, var til marks um það.

Viðar hafði þægilega nærveru og var jákvæður maður þannig að það var gaman að vera með honum á góðri stund. Ég minnist sérstaklega einnar slíkrar þegar hann varð 65 ára en þá skipulagði Eydís óvissuferð norður, dreif Viðar og syni sína í Zipline á Akureyri og ég fékk að fljóta með. Viðar skemmti sér konunglega þann daginn og af alkunnu örlæti sínu bauð hann fjölskyldunni í mat um kvöldið í tilefni dagsins.

Viðar var fróðleiksfús maður og leitandi í eðli sínu. Hann lagði því stund á ýmiss konar nám á lífsleiðinni auk þess að vera löggiltur rafverktaki. Má þar nefna allt frá reiki, dáleiðslu og jógakennaranámi til köfunarréttinda og pungaprófs.

Viðar reyndist sonum hennar Eydísar og barnabörnum vel og var til staðar þegar á þurfti að halda. Horfinn er góður og umhyggjusamur maður sem þungbært er að kveðja alltof snemma.

Kæri Viðar. Þú komst óvænt inn í líf Eydísar og kvaddir óvænt þennan heim. Með söknuði og sorg í hjarta bið ég þess að þú hvílir í friði. Minning þín mun lifa áfram í hjörtum okkar. Ég sendi Eydísi, Matthildi, móður Viðars, sonum og stjúpsonum hans, systkinum og fjölskyldunni allri mínar dýpstu samúðarkveðjur. Guð veiti ykkur styrk og frið á sorgartíma.

Helga Björk Eiríksdóttir.