Listamennirnir Manfreð og Hans við athöfnina í Sveinatungu í Garðabæ.
Listamennirnir Manfreð og Hans við athöfnina í Sveinatungu í Garðabæ.
Hans Jóhannsson fiðlusmíðameistari var nýverið útnefndur bæjarlistamaður Garðabæjar en athöfnin fór fram í Sveinatungu. Við sama tækifæri var Manfreð Vilhjálmsson arkitekt heiðraður fyrir ómetanlegt ævistarf

Hans Jóhannsson fiðlusmíðameistari var nýverið útnefndur bæjarlistamaður Garðabæjar en athöfnin fór fram í Sveinatungu. Við sama tækifæri var Manfreð Vilhjálmsson arkitekt heiðraður fyrir ómetanlegt ævistarf.

„Hans fagnar nú 40 ára starfsafmæli og sýning á hljóðfærum hans sem fór fram í Ásmundarsal var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Þótt Hans hafi helgað sig nýsmíði á klassískum strengjahljóðfærum hefur hann einnig flutt fyrirlestra um hljóðfærasmíði og hljóðvistfræði víða um heim og tekið þátt í gerð sjónvarpsmyndar um efnið. Síðustu ár hafa hljóðrannsóknir á strokhljóðfærum verið eitt af verkefnum Hans en verkefnið er unnið með hópi vísindamanna og hljóðfærasmiða við Cambridge-háskóla í Bretlandi,“ segir í tilkynningu frá Garðabæ. Við athöfnina lék strengjakvartett á hljóðfæri sem öll eru verk Hans.

Í athöfninni var Manfreð Vilhjálmsson arkitekt einnig heiðraður fyrir ómetanlegt starf í þágu byggingarlistar. „Nýlega ánafnaði Manfreð Hönnunarsafni Íslands teikningar sínar til varðveislu en hann fékk heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands árið 2019 enda hafa verk hans markað djúp spor í sögu arkitektúrs á Íslandi. Starfsferill Manfreðs spannar yfir 60 ár og endurspeglar metnaðarfulla listræna og faglega sýn hans í mjög fjölbreyttum verkefnum. Árbæjarkirkja, Ísafjarðarkirkja, Þjóðarbók­hlaðan, afgreiðslustöðvar Nestis við Elliðaár frá 1957 og Garðaskóli eru meðal verka Manfreðs sem lauk námi í arkitektúr í Gautaborg árið 1954,“ segir um Manfreð í tilkynningunni.