Hella Sveitarstjórnin hafði ekki áhuga á að sameinast Ásahreppi.
Hella Sveitarstjórnin hafði ekki áhuga á að sameinast Ásahreppi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sveitarstjórn Rangárþings ytra hefur hafnað beiðni frá hreppsnefnd Ásahrepps um að hefja formlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaganna. Ásahreppur sendi nýverið erindi til bæði Rangárþings ytra og Rangárþings eystra þessa efnis

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Sveitarstjórn Rangárþings ytra hefur hafnað beiðni frá hreppsnefnd Ásahrepps um að hefja formlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaganna. Ásahreppur sendi nýverið erindi til bæði Rangárþings ytra og Rangárþings eystra þessa efnis.

Á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra í gær samþykktu fimm fulltrúar af sjö að hafna erindi Ásahrepps. Í bókun Á-listans sem er í meirihluta er rifjað upp að íbúar Ásahrepps hafi hafnað sameiningu fimm sveitarfélaga á Suðurlandi með miklum meirihluta árið 2021. Skoðanakönnun sem gerð var í Ásahreppi samhliða nýafstöðnum forsetakosningum sýni að 56% þeirra sem tóku afstöðu séu ekki hlynnt sameiningu. Það sé að mati sveitarstjórnarfulltrúanna ekki gott veganesti inn í sameiningarviðræður auk þess sem Rangárþing ytra standi vel og því sé ekkert sem þrýsti á að hefja slíkar viðræður yfirhöfuð. ­Tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gátu þess í bókun að eðlilegra hefði verið ef íbúum hefði verið gefinn kostur á að kjósa um þennan sameiningarkost.

Ekki náðist í Anton Kára Halldórsson, sveitarstjóra Rangárþings eystra, í gær en sveitarstjórnin þar hefur ekki tekið umrædda beiðni fyrir. Búast má við að það verði gert á fundi hennar í dag.