Magnús Eric Kolbeinsson fæddist 7. nóvember 1951. Hann lést 2. júní 2024.

Útför Magnúsar fór fram 12. júní 2024.

Þá er fallinn frá vinur og samstarfsmaður til nærri tuttugu ára, Magnús Kolbeinsson. Maggi var líklega einn best menntaði skurðlæknir á Íslandi og nam sitt fag við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum. Hann vann víða á Íslandi, þ. á m. í Keflavík, Akranesi, Vestmannaeyjum og í Neskaupstað. Hann var frumkvöðull þegar hann flutti inn og kynnti byltingarkennda meðhöndlun æðahnúta með hitameðferð. Þessari nýju tækni var ekki vel tekið í upphafi en er nú sú meðferð sem flestir, ef ekki allir, beita. Hann hafði óbrigðult minni. Hann virtist muna eftir öllum sínum sjúklingum, jafnvel árum eftir að þeir komu til hans. Hann mundi oftast hvað hafði verið gert í aðgerðinni og hverjir voru með honum í henni.

Hann var virkur í sí- og endurmenntun sem hann sótti til Bandaríkjanna sem honum þótti standa öðrum ríkjum framar. Hann var ótrúlegur húmoristi og hafði gaman af að segja sögur af mönnum og málefnum. Þá var hann góð eftirherma og stundum birtust manni einstaklingar, oft gamlir skurðlæknar, ljóslifandi þegar hann var að segja af þeim sögur.

Hann hafði mikla unun af tónlist. Það var þess vegna oft glatt á hjalla í Álftamýri þegar við vorum að gera aðgerðir. Hann kom einu sinni til mín og sagði: „Ásgeir, nú þurfum við að fara og kaupa stuðtæki.“ Við vorum með lánstæki og ég vissi að þetta stóð fyrir dyrum. Ég varð svolítið langleitur þegar leiðin lá í Elko. Og síðan gengum við þaðan út með „stuðtæki“, útvarp með geislaspilara og kröftugum hátölurum.

Hann lifði fyrir fagið og félagsskapinn. Af og til fórum við á skurðstofunni í „night on the town“. Þá buðu hann og svæfingalæknirinn á stofunni í mat á veitingastað og svo var gjarna farið á pöbbarölt. Alltaf byrjuðu þessar gæðastundir á heimili hans. Uppgjöf var ekki til í hans huga. Hann var frábær vinur en ef honum fannst að sér vegið var hann harður í horn að taka. Heilsan var farin að gefa sig en hann var staðráðinn í að vinna áfram, a.m.k. næstu tvö árin.

Hann hafði unun af góðum félagsskap en hann vildi vera frjáls og eigin herra. Hann vildi þess vegna haga hlutum eins og þeir hentuðu honum. Hann hlustaði þó á aðra og tók mark á ráðleggingum, að vissu marki, en hann þoldi ekki að verið væri að hræra of mikið í hans pottum. Hann þoldi ekki „óhæft skrifstofufólk og mannauðsstjóra með völd og ekkert vit“ og blöskraði yfirbyggingin í stjórn heilbrigðisstofnana. Í Álftamýrinni var hann forstjóri, framkvæmdastjóri, mannauðsstjóri og yfirlæknir.

Hann var smekkmaður og fagurkeri og bjó í afar fallegri íbúð með útsýni yfir hafið. Maður á væntanlega aldrei eftir að kynnast manni eins og Magga. Ótrúlegur og eftirminnilegur persónuleiki, sérlundaður piparsveinn, sérvitringur, fagurkeri, húmoristi en fyrst og fremst vinur sem þeim sem náðu að kynnast honum þótti vænt um. Einfarinn sem gat ekki verið einn. Við hjónin vottum ættingjum hans innilega samúð okkar. Hvíl í friði.

Ásgeir Valur og Hildur.