Sonja Diego fæddist í Reykjavík 7. október 1936. Hún lést á Landakoti 1. júní 2024.

Foreldrar Sonju voru Svanfrid Auður Diego, f. 4. apríl 1917 í Valdres í Noregi, d. 17. apríl 1993, og Friðrik Aðalsteinn Diego, deildarstjóri Alþjóðaflugmálastofnunarinnar á Íslandi, f. 13. desember 1913 í Bolungarvík, d. 15. júní 1985. Sonja var elst fjögurra systkina. Næstur henni í röðinni var Sverrir Gauti, f. 24. mars 1940, d. 16. apríl 1998. Þá kom Erla, f. 20. ágúst 1943. Erla fluttist síðar til Svíþjóðar og lést þar 4. janúar 2021. Yngsta systirin, Dóra, f. 19. mars 1954, er búsett i Danmörku.

Sonja eignaðist einn son, Friðrik Diego, f. 4. febrúar 1959. Friðrik er í sambúð með Gunnlaugu Ottesen. Dóttir Friðriks og Valgerðar Guðmundsdóttur er Auður, f. 21. maí 1990. Auður er í sambúð með Árna Frey Snorrasyni og eiga þau tvo syni; Jökul Húna, f. 9. nóvember 2017, og Hlyn Kára, f. 6. júní 2021. Dóttir Friðriks og Gunnlaugar er Sonja María, f. 26. júlí 1998. Sonja María er í sambúð með Antoni Arciszewski. Gunnlaug átti fyrir tvær dætur; Helgu Sif Friðjónsdóttur, f. 26. ágúst 1975, og Hildi Mist Friðjónsdóttur, f. 20. mars 1987. Sonur Helgu er Breki Hjörvar, f. 17. ágúst 2010 og sonur Hildar er Bóas Rökkvi, f. 14. júlí 2016.

Sonja Diego ólst upp í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1955 og BA-prófi í ensku og frönsku frá Háskóla Íslands 1958, hún hélt síðan til Spánar í framhaldsnám í sagnfræði og spænsku. Sonja starfaði lengi sem blaðamaður meðal annars hjá Morgunblaðinu og síðan hjá Sjónvarpinu sem fréttamaður, þýðandi og fréttalesari. Árið 1981 stofnaði hún eigin þýðingar- og túlkunarfyrirtæki, Orðabankann sf., sem hún rak æ síðan, nánast til dauðadags. Sonja var annáluð tungumálakona, löggiltur skjalaþýðandi í ensku, frönsku og spænsku, en hafði líka gott vald á fleiri tungumálum. Við rekstur Orðabankans reyndist Kristján Sigurðsson henni ómetanlegur samstarfsmaður áratugum saman.

Útför Sonju Diego fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 13. júní 2024, klukkan 15.

Kveðja

Ef ég dey,

þá skiljið svaladyrnar eftir opnar.

Barnið borðar appelsínur.

(Ég sé til þess ofan af svölunum).

Kornskurðarmaðurinn sker korn á akrinum

(Ég heyri til hans ofan af
svölunum)._

Ef ég dey,

Þá munið að skilja svaladyrnar eftir opnar!

(Höf: F.G. Lorca. Þýð: Sonja Diego)

Friðrik Diego.

Elsku Sonja mín.

Ég er svo þakklátur fyrir allar stundirnar sem við áttum saman. Það var einstakt að koma í heimsókn til þín í yndislegu íbúðina á Bergstaðastrætinu. Þar leið okkur Auði og strákunum svo vel, og þeir voru alltaf spenntir að fara til ömmu Sonju. Mér fannst eins og það væri einhvers konar helgisiður að leggja á borð og ég dýrkaði að taka þátt í því. Þú komst mér meira að segja upp á lagið með að drekka te! Það bragðaðist best hjá þér á Bergstaðastrætinu.

Mér þótti mjög vænt um samtölin okkar, þar sem við ræddum mál líðandi stundar. Þú varst svo mikill heimsborgari, kunnir öll þessi tungumál og varst svo fróð um lönd og siði vítt og breitt um heiminn.

Takk fyrir allt, elsku Sonja, Vale, auf Wiedersehen.

Árni Freyr Snorrason.

Elsku tengdamóðir mín, Sonja Diego, er fallin frá eftir veikindi í nokkur ár. Það eru rétt tæp 30 ár síðan Friðrik, einkasonurinn, kynnti mig formlega fyrir henni heima á Bergstaðastræti. Áður vissi ég auðvitað hver hún væri enda var hún þekkt sem fréttalesari í Sjónvarpinu í mörg ár. Ég var spennt að koma í heimsókn og hitta hana en líka smá kvíðin því einhvern veginn hafði ég á tilfinningunni að venjur þeirra mæðgina væru töluvert ólíkar því sem ég átti að venjast komandi úr sjö systkina hópi. Það kom á daginn að fjölskyldurnar voru að mörgu leyti ólíkar en hafa borið gæfu til að stilla saman strengi og njóta lífsins saman. Sonja yngri fæddist svo nokkrum árum eftir hittinginn á Bergstaðastræti og hafa þær nöfnur báðar verið litríkir karakterar alla tíð síðan, það fylgir sennilega nafninu. Óteljandi samverustundir í kringum hátíðir, afmæli, sumarfrí innanlands og erlendis eru nú orðnar að sögum sem hlýja okkur fjölskyldunni og halda góðum minningum á lofti. Takk fyrir allt og allt.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Gunnlaug.

Þegar við kveðjum ömmu Sonju er sorgin mikil. Gengin er manneskja sem frá fyrstu kynnum hefur haft mikil og gæfurík áhrif á tilveru okkar mæðgna.

Auður var heppin að eiga ömmu sem alla tíð var til staðar og leiðbeindi á sinn hæverska og djúpvitra hátt.

Ófá skiptin mættum við mæðgur í Bergstaðastrætið á einstakt og hlýlegt heimili Sonju. Auði „litla stýrinu“ var fylgt í leikskóla og síðar Austurbæjarskólann þegar ég mætti snemma í vinnuna. Kristján vinnufélagi Sonju hljóp oft undir bagga og keyrði Auði í skólann, ávallt til staðar. Stundanna sem Auður og amma Sonja áttu saman nutu þær báðar vel, tengslin órjúfanleg. Árin líða, alltaf héldust samskiptin traust og áreiðanleg. Ég á Sonju margt að þakka, umhyggju, gjafmildi og uppörvun gegnum árin. Ég vil þakka fyrir allt sem Sonja gaf og var mér og mínum.

Elsku Auður og strákarnir, elsku Friðrik og fjölskylda, ég votta ykkur innilega samúð.

Hvíl í friði.

Valgerður (Vala).

Í dag kveð ég þig, elskulega amma mín, sem mér finnst svo sárt. Það er erfitt að lýsa þeim tilfinningum sem fara í gegnum huga minn á þessum tímamótum. Þú hefur reynst mér svo vel, kennt mér margt og stutt mig í einu og öllu, fyrir það verð ég alltaf þakklát. Þolinmæði þín fyrir mér var ótrúleg. Ég minnist þess að hafa setið á móti þér sem barn, þú í fullri vinnu og ég nýbyrjuð að læra ensku. Ég vildi gera orðabók og truflaði þig með endalausum spurningum en aldrei varðstu pirruð eða baðst mig að bíða. Þú gafst þér alltaf tíma til að stafa hvert eitt og einasta orð og þegar vinnunni lauk og við fengum okkur te var ég komin með dágóða orðabók. Eða þegar ég klingdi litlu bjöllunum heima hjá þér aftur og aftur, margir hefðu ærst en þú aðeins brostir til mín og sagðir: „Já, þær eru svolítið sniðugar þessar.“

Þegar ég var orðin töluvert eldri komum við Auður okkur saman um að heimsækja þig hvern þriðjudag og eyddum við það löngum frábærum stundum. Það skipti varla máli hvort við fengum okkur te og kræsingar, kvöldmat eða sátum bara að spjalla. Það var samvera okkar sem skipti máli. Mér finnst ég vera einstaklega heppin hvað við áttum gott samband, það er ekki sjálfsagt að eiga svona góða vinkonu í ömmu sinni. Ef ég spurði þig álits um eitthvað þá treysti ég alltaf á það að þú svaraðir hreinskilið og einlægt og álit þitt skipti mig miklu máli. Það að þú studdir mig í að vera ekki eins og allir aðrir er eitt af því veganesti sem þú veittir mér.

Elsku amma, orð fá því ekki lýst hversu sárt þín verður saknað.

Sonja María.

Elsku amma Sonja, þú varst mér dýrmæt vinkona og gífurlega stór hluti af mínu lífi. Þú varst hlý, klár og algjör töffari. Þú hafðir einstakt lag á því að segja þína skoðun á ljúfan en skýran máta og lést engan vaða yfir þig. Þú varst fagurkeri og einkar glæsileg kona sem hafði næmt auga fyrir fallegum „kombinasjónum“ lita og forma. Þú varst sælkeri og ég velti því oft fyrir mér hvers vegna matur bragðaðist alltaf best hjá þér. Hægt og rólega kenndir þú mér ýmsa takta í eldhúsinu sem ég, full af þakklæti, bý nú að.

Sem barn man ég eftir ótal stundum heima hjá þér á Bergstaðastrætinu. Eldsnemma á morgnana mætti mamma með mig hálfsofandi áður en hún þurfti að mæta á vakt. Þá sat ég með ykkur Kristjáni við morgunverðarborðið og drakk te úr litla glasinu „mínu“. Mér hefur alltaf þótt Bergstaðastrætið vera nánast draumkenndur staður, þar sem ég upplifði öryggi og ró. Ég man eftir að dunda mér þar að teikna, skrifa á ritvélina, horfa á barnaefni sem þú hafðir þýtt, baka með þér og fara í ævintýralegar búðarferðir í leigubíl en mest af öllu situr eftir tilfinningin sem ég fann í þinni nærveru og út frá samtölum okkar. Þar blómstraði sameiginlegur áhugi okkar á mannlegri hegðun og sálarlífi fólks.

Í seinni tíð bjuggum við til, með þínum orðum, „system sem mátti bregða frá“ þar sem við nafna þín hittumst vikulega á Bergstaðastrætinu og áttum dásamlegar stundir. Við borðuðum kökur, drukkum te og fórum á trúnó. Það mátti ræða allt við þig, amma, og þú varst alltaf hreinskilin og stuðningsrík þegar við leituðum til þín.

Þú gafst mér svo margt en eitt af því stærsta var að þú veittir mér sjálfstraust með því að impra á eiginleikum í mínu fari sem þér þóttu góðir, með því að tala fallega um mömmu og pabba, um Árna og litlu fjölskylduna okkar. Þú sagðir gjarnan „Auður og strákarnir“ með þinni hlýju og ég fann hvað þér þótti gott að vera stór hluti af lífi þeirra sem kölluðu þig jafnframt ömmu Sonju og tenging ykkar var sterk.

Með mikilli sorg í hjarta kveð ég þig.

Aber, bueno, vale, takk fyrir allt, elsku amma mín.

Auður Friðriksdóttir.

Elsku Sonja amma.

Nú er víst komið að leiðarlokum að sinni en margs er að minnast eftir 30 ára samveru. Ofarlega í huga eru jól og áramót sem við höfum fagnað saman á hverju ári fyrir utan eitt til tvö skipti þessa þrjá áratugi. Þú komst alltaf með fullt af pökkum og pinklum sem stílaðir voru á þig enda áttir þú marga að. Oft fórstu þó með helminginn óopnaðan til baka aftur en það fannst mér sem barni afar sérstakt. Matarboðanna á árum áður hjá þér á Bergstaðastræti hugsa ég til með hlýju í hjarta, þar sem þú bauðst upp á framandi kræsingar og sniðuga eftirrétti sem þú hafðir svo gaman af að leyfa okkur að smakka. Ferðalög eru einnig minnisstæð, Frakkland, Spánn, Þýskaland og ekki síst þegar þið nöfnurnar komuð til Kaupmannahafnar þegar ég bjó þar. Þú hafðir auðvitað ferðast mikið og dvalið víða erlendis á þinni ævi. Talaðir hvert tungumálið á fætur öðru og vannst við þýðingar í Orðabankanum þínum. Ég skildi aldrei hvernig þú ruglaðir öllum þessum tungumálum ekki saman eins og ég hef sjálf upplifað með þýskuna og dönskuna. En þú varst ótrúlega fær á þessu sviði og fléttaðir allskonar orð úr öðrum tungumálum inn í íslenskuna í daglegu tali.

Þessi Danmerkurferð var ein af þínum síðustu utanlandsferðum en þú varst svo brött að láta vaða og koma út og ferðaðist svo yfir til Svíþjóðar þar að auki til að kveðja Erlu systur þína. Við sátum úti í sólinni við Torvehallerne og nutum ljúffengra veitinga, alveg í þínum anda. Þú gekkst svo alla leið heim til Dóru með okkur þér til stuðnings og ég er enn að hugsa um það hversu magnað afrek það var á þessum tímapunkti. Lítil ilmvötn, varalitir, te og kruðerí koma upp í hugann þegar ég hugsa til þessarar ferðar og þín almennt. Enda varstu alltaf glæsileg til fara og vel tilhöfð. Aldrei í buxum, alltaf í pilsi, með fallega lagað hárið, gjarnan höfuðfat, ilmvatn og alltaf varalit. Bóas hafði á orði að það væri ósanngjarnt að hann hefði bara fengið að þekkja þig í tæplega átta ár, enda verður tómlegt án þín. Takk fyrir allt og allt. Auf Wiedersehen.

Hildur Mist Friðjónsdóttir.

Hljóðið i hurðinni niðri þegar hún er dregin til hliðar er hljóðið af öryggi. Sama hvað bjátaði á og hvenær sem var sólarhrings, var ljósið hjá Sonju kveikt.

Að vera athvarf fjölskyldunnar i öll þessi ár, er fegursta útfærsla á kærleik.

„Sérhver einstaklingur sem hefur með annað fólk að gera, heldur alltaf hluta af lífi þeirra í höndum sér“. Svona skrifaði danski heimspekingurinn K.E. Løgstrup og mér finnst einmitt að Sonja hafi tekið það að sér að bera ábyrgð á hverjum og einum sem kom inn um dyrnar hjá henni.

Söknuðurinn er stór og tapið óbærilegt

Eyrún María Diego Snæbjörnsdóttir.

Það var fyrir rúmum þrjátíu árum að vinur minn hringdi og spurði mig hvort ég gæti ekki aðstoðað vinkonu hans smá, kvað ég já við því. Þetta var upphaf að samstarfi okkar Sonju og órjúfanlegri vináttu. Það er því með sárum söknuði sem ég kveð hana nú í dag með ljóði eftir afa hennar, Helga Valtýsson:

Vorvindar glaðir,

glettnir og hraðir,

geysast um löndinn rétt eins og börn.

Lækirnir skoppa,

hjala og hoppa,

hvíld er þeim nóg í sæ eða tjörn.

Hjartað mitt litla, hlustaðu á;

hóar nú smalinn brúninni frá.

Fossbúinn kveður,

kætir og gleður,

frjálst er í fjallasal.

(Helgi Valtýsson)

Kristján
Sigurðsson.

Kaldur er þessi júnímorgunn. Sonja Diego hefur kvatt jarðlífið eftir langdregin veikindi. Hins vegar ber minningin um hana með sér sunnanblæ og sólskin sem hún virtist ýmist sveipa um sig eða sveiflast með. Brosmilt augnaráð leitar upp yfir gleraugun og rýnir í aðstæður. Vegur og metur þær á örskotsstundu. Á augabragði, líkt og indíáni sem pírir augun yfir varðeldinn. Þannig var Sonja.

Hún var líka fíngerð og lagleg og minnti stundum á litskrúðugt fiðrildi eða skrautblóm – en undir niðri bjó stálvilji og einbeitni. Hún var í senn kímin og festuleg, eilítið glysgjörn en jafnan hófstillt. Hún var manneskja sem sætti eigin andstæður og hélt þeim veglegar veislur í hjarta sér. Reyndar var hennar hjartans mál auðugt og síkvikt fjöltyngi, fleygt og létt með sveiflu og stæl.

Ég gleymi því seint þegar ég var eitt sinn stödd á Laugavegi 176 í þann mund sem kvöldfréttir hófust. Þá birtist Sonja á skjánum, máluð eins og Myrna Loy, eins og hún átti vanda til, en í þetta sinn var hún klædd ljósri peysu með strútsfjaðraskrauti sem nam við axlir hennar. Mér fannst þetta flott flík. Hún hóf fréttalesturinn á sinn formfasta hátt, tónninn hlutlaus og yfirvegaður að vanda. Þá gekk þar hjá prestur, þáverandi fréttastjóri, og tók andköf: „Nú, þykist hún vera engill, já? Þetta má ekki sjást!“ Brugðist var við tilmælum yfirmannsins og fréttakonan léttfiðraða dregin út af settinu í fallegu peysunni. Næst þegar hún birtist á skjánum var hún svartklædd og óskreytt. Ekkert mátti maður nú.

Við Sonja unnum saman með hléum í áranna rás, og voru verkefnin fjölbreytt, ýmist þýðingar eða túlkun. Það samstarf varð mér býsna lærdómsríkt og heilladrjúgt. Ég minnist hennar með þakklæti fyrir margar góðar stundir yfir dísætum tebolla og kexköku með marmelaði. Ég votta aðstandendum Sonju innilega samúð mína, svo og Kristjáni, samstarfsmanni hennar til margra ára. Takk fyrir allt.

Ólöf.

Á fyrstu árum sjónvarpsins var erfitt að finna vinnurými fyrir alla í takmörkuðum húsakynnum, og var þá brugðið á það ráð að nýliðar fengju inni í litlu vinnuherbergi Sonju Diego sem var fréttamaður, aðallega við erlendar fréttir, en stundum einnig aðallesari frétta og greip í ýmsar þýðingar, því að hún var eindæma vel að sér í tungumálum. Var í minnum haft þegar hún afgreiddi alþjóðlega ráðstefnu í fréttatímanum með því ræða við fjóra erlenda viðmælendur samtímis á jafnmörgum erlendum tungumálum. Sonja var einstaklega ljúf og elskuleg þegar hún gaf nýliðum rými í litla herberginu sínu. Hún var yfirleitt afar vel og smekklega klædd og vel tilhöfð og hafði ætíð mjög heitt inni hjá sér auk þess sem hún úðaði loftið og hvaðeina með afbragðsilmvötnum. Á þessum frumbýlingsárum sjónvarps, sem gamlir starfsmenn auðkenna sig sjálfa með heitinu „Svart-hvíta gengið“, voru farsímar ekki komnir, en haft var í flimtingum að prófa að leita Sonju uppi með því að reka nefið inn í dyragættina hjá henni og nota síðan nefið til að fylgja ilminum góða til hennar! Sonja var ævinlega kölluð „madam“ með sérstakri áherslu á framburð orðsins. Nú er madam öll og Svart-hvíta gengið hefur misst mikið. Hennar er sárt saknað, en eftir sitja þökk og dýrmætar minningar umvafðar ilminum ógleymanlega.

Ómar

Ragnarsson.

Þegar ég kom til starfa sem fréttamaður í erlendum fréttum á fréttastofu Sjónvarpsins síðsumars árið 1978 var þar fyrir Sonja Diego. Ég minnist þess með þakklæti hve vel hún tók mér, hjálpsöm og velviljuð leiddi hún mig í allan sannleik um hvernig sjónvarpsfréttamaður í erlendum fréttum bæri sig að.

Fréttamannsstarfið á þessum tíma var mjög frábrugðið því sem síðar varð, Reuter- og AP-fréttastofurnar tikkuðu án afláts, hlustað var á BBC World Service, síðdegis farið að huga að því hvaða fréttaljósmyndir ætti að fá sendar fyrir kvöldið, farið í gegnum fréttafilmur sem borist höfðu með flugi, yfirleitt nokkurra daga gamlar, til að sjá hvað enn væri nýtilegt en síðan lesið sér til í erlendum blöðum og tímaritum. Úr öllu þessu voru síðan skrifaðar fréttir dagsins og svo fréttaaukar sem við fréttamennirnir í erlendum fréttum reyndum að hafa að minnsta kosti einn á dag.

Fréttastofa Sjónvarpsins var með öðrum orðum ekki samkeppnisfær um það glænýjasta í myndefni sem var jú tilgangurinn með sjónvarpi að hafa á boðstólum. Við fréttamennirnir reyndum að bæta þennan missi upp með því að vanda innihaldið eins og okkur var framast unnt.

Það má segja að við höfum á þessum tíma verið á leiðinni með að verða sjónvarp með það glænýjasta ferskt á skjánum en aðferðafræðin hafi enn verið meira í ætt við útvarp og prentmiðla.

Þarna var Sonja Diego sem fiskur í vatni. Búin að starfa við fréttamennsku á Morgunblaðinu lengi vel áður en hún kom til Sjónvarpsins í byrjun áttunda áratugarins, og það sem meira er, í starfi sem byggðist á því að afla gagna víða að naut hún annálaðrar tungumálakunnáttu sinnar, altalandi á mörg tungumál.

Ég man hve stoltur maður var þegar Sonja tók á móti erlendum gestum víðs vegar að sem taka átti fréttaviðtöl við sem þá gátu farið fram á þeirra eigin tungumáli. Enda fór það svo þegar hún sagði skilið við fréttastarfið til að taka að sér stjórnunarstarf hjá Iceland Review, að þá hélt hún áfram þýðingarvinnu fyrir Sjónvarpið og þýddi fjöldann allan af fréttatengdum þáttum auk þess að sinna annarri þýðingarvinnu.

Sonja Diego bauð af sér óvenju góðan þokka, glæsileg og áheyrileg enda fengin til að annast fréttalestur löngu eftir að hún lét af störfum sem fréttamaður.

Með þakklæti í huga kveð ég þessa velgerðarkonu mína frá árum áður og færi fjölskyldu hennar samúðarkveðjur.

Ögmundur
Jónasson.