[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ævar Þór Benediktsson er vinsælasti rithöfundur á Íslandi ef horft er til útlána á bókasöfnum árið 2023. Bækur hans voru lánaðar út samtals um 29 þúsund sinnum. Barnabókahöfundarnir Birgitta Haukdal og Yrsa Þöll Gylfadóttir njóta litlu minni vinsælda með ríflega 27 þúsund útlán

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Ævar Þór Benediktsson er vinsælasti rithöfundur á Íslandi ef horft er til útlána á bókasöfnum árið 2023. Bækur hans voru lánaðar út samtals um 29 þúsund sinnum. Barnabókahöfundarnir Birgitta Haukdal og Yrsa Þöll Gylfadóttir njóta litlu minni vinsælda með ríflega 27 þúsund útlán. Fjórði vinsælasti höfundurinn er Illugi Jökulsson með tæplega 21 þúsund útlán en hann hefur dælt frá sér bókum um knattspyrnuhetjur og sjóskaða á liðnum árum. Þetta eru helstu niðurstöður talnagreiningar sem Landskerfi bókasafna vann að beiðni Morgunblaðsins.

Ragnar velti Arnaldi úr sessi

Útlán á bókasöfnum hafa ekki tekið við sér eftir kórónuveirufaldurinn og þeim fækkaði á milli ára. Meðal annarra áhrifaþátta eru miklar vinsældir hljóðbóka hjá Storytel auk þess sem ýmislegt lesefni hjá háskólum er nú fáanlegt í streymi. Alls voru skráðir lánþegar tæplega 162 þúsund talsins en útlán voru 2,3 milljónir um landið allt. Tveir þriðju lánþega eru konur en þriðjungur karlar. Vinsælustu bækurnar eru sem fyrr barnabækur.

Tölur um útlán á bókasöfnum taka að miklu leyti til bóka úr jólabókaflóðinu 2022. Mikla athygli vekur að Ragnar Jónasson er nú vinsælasti skáldsagnahöfundurinn og hefur velt Arnaldi Indriðasyni úr sessi. Arnaldur hefur um langt árabil átt flest útlán á bókasöfnum en miklar vinsældir spennusögunnar Reykjavík, sem Ragnar skrifaði með Katrínu Jakobsdóttur, tryggja honum toppsætið. Alls voru tæplega 2.800 útlán á þeirri bók einni, eða um þriðjungur af heildarútlánum Ragnars.

Yrsa átti fjórar vinsælustu

Vinsældir Lárubókanna eru enn og aftur staðfestar með tölum um útlán á bókasöfnum. Birgitta Haukdal er vinsælasti barnabókahöfundur landsins ef horft er til þeirra en hún hefur sent frá sér 2-3 bækur um Láru og Ljónsa á ári síðasta áratug eða svo. Vinsældir Yrsu Þallar Gylfadóttur koma eilítið meira á óvart en hún átti fjórar vinsælustu íslensku barnabækurnar í fyrra; Varúlfinn, Prumpusamloku!, Jólaleikritið og Lús! Auk þess komust Geggjað ósanngjarnt! og Hjólahetjan inn á topp tíu. Yrsa átti því sex af tíu vinsælustu íslensku barnabókunum á bókasöfnum í fyrra. Geri aðrir betur. Gaman er að geta þess að Bjarni Fritzson átti þrjár bækur á þessum lista en Ævar Þór Benediktsson laumaði sér í tíunda sætið.

Hundmann og Kattmann

Þegar horft er til erlendra barnabókahöfunda nýtur Sally Rippin mestra vinsælda en Heyrðu Jónsi! og Binnu B. Bjarna-bækurnar hafa slegið í gegn hjá yngri kynslóðinni. Í öðru sæti er Jeff Kinney, höfundur bókanna um Kidda klaufa. Þriðji er Dav Pilkey sem ber ábyrgð á Hundmann-bókunum. Vinsælasta bókin á íslenskum bókasöfnum í fyrra var einmitt Hundmann og Kattmann með ríflega fjögur þúsund útlán.