Vinsælt Íbúðir á efstu hæð í fjölbýlishúsi í Gróttubyggð ruku út.
Vinsælt Íbúðir á efstu hæð í fjölbýlishúsi í Gróttubyggð ruku út. — Tölvumynd/Onno
Mikill áhugi var á nýjum íbúðum í Gróttubyggð á Seltjarnarnesi þegar sala hófst fyrir tæpum tveimur vikum. Um þriðjungur þeirra íbúða sem þá fór í sölu seldist strax. „Þetta hefur gengið mjög vel,“ segir Daði Hafþórsson, fasteignasali hjá Eignamiðlun

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Mikill áhugi var á nýjum íbúðum í Gróttubyggð á Seltjarnarnesi þegar sala hófst fyrir tæpum tveimur vikum. Um þriðjungur þeirra íbúða sem þá fór í sölu seldist strax.

„Þetta hefur gengið mjög vel,“ segir Daði Hafþórsson, fasteignasali hjá Eignamiðlun. „Dýrustu íbúðirnar fóru fyrst. Þær eru allar á þriðju hæðinni í fyrra húsinu,“ segir hann enn fremur.

Alls eru um 20 íbúðir þegar seldar að sögn Daða. Verðmiðinn á þessum dýrustu íbúðum er í kringum 215 milljónir. Þær eru tæpir 170 fermetrar með tveimur baðherbergjum, þvottahúsi og tveimur stæðum í bílageymslu.

Daði segir að nú sé verið að skoða málin fyrir aðra mögulega kaupendur, verðmeta hús þeirra og fleira slíkt. Fjöldi samninga sé í farvatninu og áhuginn mikill.

Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu munu um 500 manns búa í Gróttubyggð þegar hverfið er fullbyggt. Jáverk er að leggja lokahönd á byggingu tveggja fjölbýlishúsa og þriggja fjórbýlishúsa sem Tark arkitektar hönnuðu. Fyrsta húsið verður afhent í haust. Alls fóru 59 íbúðir í sölu í þessari fyrstu atrennu. Fjölbýlishúsin eru næst sjónum og blasa við þegar keyrt er áleiðis að útivistarsvæði við Gróttu.

Daði segir að kaupendur séu afar ánægðir með að vandað hafi verið til verka við byggingu húsanna. Íbúðir eru með aukinni lofthæð og loftskiptakerfi sem gerir fólki kleift að fá ferskt loft inn þótt gluggar séu lokaðir. Sérstök einangrun er í loftum sem bætir hljóðvist.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon