Guðni Guðmundsson fæddist 30. september 1942. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi 16. maí 2024.

Foreldrar hans voru Þórlaug Svava Guðnadóttir, f. 2. desember 1924, og Guðmundur J. Kristjánsson, f. 8. ágúst 1921. Guðni lætur eftir sig fimm syni.

Guðni var jarðsunginn í kyrrþey 28. maí 2024 frá Kotstrandarkirkju.

Við Guðni ólumst upp í sama húsinu, mæður okkar voru systur og við bæði frumburðir foreldra okkar. Ég var tveimur árum eldri en okkur samdi alltaf vel.

Við bjuggum með fjölskyldum okkar í nálægð, afi og amma voru í næstu húsum og líka frændur og frænkur. Þegar við vorum börn var mest leikið sér úti, boltaleikir, klifrað í smjörlíkistunnum í Smára-portinu, fallin spýta og ýmsir leikir sem sjást ekki í dag.

Það bættust fleiri systkin í hópinn og fjölskyldurnar okkar stækkuðu. Þið fluttuð í Bakkagerðið og önnur frændsystkin í ykkar íbúð, alltaf var fjör á Vegó.

Á sumrin var gjarnan farið í fjölskylduferð, sofið í tjöldum, leikið og grillað saman.

Þegar ég gifti mig og engin íbúð laus á Vegó sagði pabbi þinn: „En það er laust hjá okkur.“ Hann rýmdi stofuna og lítið eldhús á efri hæðinni í Bakkagerði og þar byrjuðum við okkar búskap. Og aftur urðum við í sama húsi eins og á æskuárunum, þið systkinin orðin fjögur og fjör á bæ. Þegar loksins losnaði íbúð á Vegó fluttum við aftur til pabba og mömmu og afa og ömmu.

Árin liðu (alltof fljótt), við urðum foreldrar og allt í einu varst þú kominn aftur á Vegó, nú í afa- og ömmuhúsi með konu og strákana og það var notalegt.

Ég held að maður kunni ekki að meta, fyrr en miklu síðar, hvað það er gott að alast upp í svona mikilli nánd við fólkið sitt.

Svo kom að því að við fluttum bæði burt, börnin orðin fullorðin eins og gengur og gerist og lengra leið á milli þess að við hittumst. Síðasta sinn sem við sáumst var við jarðarför Láru móðursystur okkar en hún fór síðust af barnahóp afa og ömmu.

Við kveðjustund er margs að minnast. Gleðin stendur upp úr og minningar eru skemmtilegar. Við vorum ekki há í loftinu þegar ég dubbaði þig upp í leik, setti á þig pappírskórónu og sagði: „Guðni, nú ert þú kóngur.“ Þú horfðir brosandi á mig og sagðir: „Já og þú kónguló.“

Takk fyrir allt minn fyrsti vinur og leikfélagi.

Vigdís Fjeldsted (Viddý).