Afþreying Telur að skemmtistaðurinn standist ekki þinglýsta kvöð.
Afþreying Telur að skemmtistaðurinn standist ekki þinglýsta kvöð. — Morgunblaðið/Eggert
„Við skynjum ekki neinn raunverulegan vilja hjá Regin til þess að leysa þetta mál,“ segir Böðvar Héðinsson, íbúi í miðbæ Reykjavíkur, í samtali við Morgunblaðið en íbúar við Kolagötu 1, hjá Hafnartorgi, hafa kvartað undan skemmtistaðnum Skor á fyrstu hæð hússins

Drífa Lýðsdóttir

drifa@mbl.is

„Við skynjum ekki neinn raunverulegan vilja hjá Regin til þess að leysa þetta mál,“ segir Böðvar Héðinsson, íbúi í miðbæ Reykjavíkur, í samtali við Morgunblaðið en íbúar við Kolagötu 1, hjá Hafnartorgi, hafa kvartað undan skemmtistaðnum Skor á fyrstu hæð hússins.

Hefur Skor fengið að starfa þrátt fyrir þinglýsta kvöð sem kveður á um annars konar starfsemi. Hann tekur það skýrt fram að þrátt fyrir einhvern hávaða frá staðnum, þá sé aðalatriðið brot á þinglýstri kvöð, sem fasteignafélagið Reginn, er nýverið breytti um nafn í Heimar, hafði sjálft frumkvæði að.

„Skemmtistaðurinn Skor var opnaður fyrirvaralaust við Kolagötu 1 í byrjun árs 2022 án þess að íbúar væru upplýstir um hvað væri í vændum. Samkvæmt þinglýstri kvöð sem er á húsinu er ekki heimilt að vera með slíka starfsemi þar. Í kvöðinni er einungis rætt um íbúðir, verslunarhúsnæði og skrifstofurými í húsinu,“ segir Böðvar og bætir við að ekki sé heldur gert ráð fyrir skemmtistað. „Það er ótrúlegt hvernig komið er fram við okkur íbúana.“

Böðvar segist hafa reynt að fá svör en án árangurs. Ef hann fái svar þá sé það eitthvað í þá áttina að málið verði tekið til skoðunar. „Ég held að við höfum verið að berjast á vitlausum vígstöðvum og velti fyrir mér hverjir hagsmunir íbúa séu fyrst ekkert almennilegt svar hefur borist enn,“ segir Böðvar.

„Áfram er brotið á íbúum“

Hann segir málið snúast um hina þinglýstu kvöð á húsinu. Að henni hafi staðið ÞG verk, sem byggði húsið, og Reginn, sem á alla fyrstu hæðina.

„Þeir skrifuðu undir þessa kvöð sem inniheldur falleg orð á borði, um að gæta skuli hagsmuna allra og allir skuli sýna hver öðrum tillitssemi,“ segir Böðvar. „Áfram er brotið á íbúum með veru skemmtistaðarins, í boði Regins. Þarna er fyrirtækið að ganga á bak orða sinna og hunsa þinglýsta kvöð.“

Höf.: Drífa Lýðsdóttir