Ópera Ekki er búist við að frumvarp um Þjóðaróperu verði að lögum á þessu þingi, þar sem fjármuni skortir. Listamannalaun urðu ofan á.
Ópera Ekki er búist við að frumvarp um Þjóðaróperu verði að lögum á þessu þingi, þar sem fjármuni skortir. Listamannalaun urðu ofan á. — Morgunblaðið/Ómar
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is Ekki er útlit fyrir að frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra um Þjóðaróperu nái fram að ganga á yfirstandandi þingi, en fjárheimildir ráðuneytisins duga ekki til þess að fjármagna það mál. Fjármununum verður þess í stað varið í listamannalaun.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Ekki er útlit fyrir að frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra um Þjóðaróperu nái fram að ganga á yfirstandandi þingi, en fjárheimildir ráðuneytisins duga ekki til þess að fjármagna það mál. Fjármununum verður þess í stað varið í listamannalaun.

„Ég á ekki von á því að frumvarp um Þjóðaróperu fari í gegn á þessu þingi,“ segir Bryndís Haraldsdóttir formaður allsherjar- og menntamálanefndar í samtali við Morgunblaðið, en fyrir nefndinni liggur forgangsröðun menningar- og viðskiptaráðuneytisins, þar sem frumvarp um hækkun listamannalauna er sett í forgang á kostnað óperunnar.

Þjóðarópera og hækkun listamannalauna eru mál sem Lilja Alfreðsdóttir ráðherra málaflokksins hefur lagt áherslu á að fái framgang, en í ljósi þess að fjármögnun beggja málanna er ónóg eru listamannalaunin sett í forgang.

Samkvæmt fjármálaáætlun eru veittar 400 milljónir varanlega á ári sem nýta á til stofnunar þjóðaróperu og hækkunar starfslauna listamanna. Árlegur kostnaður vegna óperunnar er áætlaður 250 milljónir, en hækkun listamannalauna á að kosta 600 milljónir og því ljóst að kostnaður við bæði frumvörpin er áætlaður 850 milljónir og duga fyrrgreindar 400 milljónir þar skammt.

„Ráðuneytið forgangsraðar þessu máli og er að koma með tillögur að breytingum sem við erum að íhuga. Það hefur líka farið yfir með okkur hugmyndir að því hvernig hægt sé að forgangsraða frekar innan málefnasviðsins, þannig að listamannalaunin geti hlotið afgreiðslu. Ég geri ráð fyrir því að við munum afgreiða það mál út úr allsherjar- og menntamálanefnd á morgun [fimmtudag],“ segir Bryndís.

Breytingarnar sem verið er að vinna að eru m.a. að fallið verði frá stofnun sérstaks nýliðasjóðs, Vaxtar, sem og fækkun greiddra mánaðarlauna til listamanna. Í stað þess að heildarfjöldi mánaðarlauna verði 2.670 frá og með árinu 2028 verði heildarfjöldi mánaðarlauna 2.490 alls.