[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það var í svartasta skammdeginu síðasta haust sem forystusveit úr stjórnmálum og atvinnulífi þjóðarinnar lagði á sig langt og strangt ferðalag til Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum til að sækja loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Það var í svartasta skammdeginu síðasta haust sem forystusveit úr stjórnmálum og atvinnulífi þjóðarinnar lagði á sig langt og strangt ferðalag til Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum til að sækja loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28. Markmiðið að sporna gegn hamfarahlýnun.

Listi yfir þátttakendur er sýndur á grafinu hér til hliðar en meðal þátttakenda voru Guðlaugur Þór Þórðarsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri og forsetaframbjóðandi, Katrín Jakobsdóttir þáverandi forsætisráðherra, Sævar Freyr Þráinsson forstjóri Orkuveitunnar og Dagur B. Eggertsson þáverandi borgarstjóri.

Fjórtán manna sendinefnd

Fjórtán fulltrúar voru í opinberri sendinefnd Íslands og voru Guðlaugur Þór og Katrín þar fremst í flokki. Næstir komu aðrir fulltrúar stjórnvalda og stofnana ríkisins, alls níu fulltrúar, og voru þar af þrír frá Orkustofnun.

Þá voru 63 fulltrúar frá fyrirtækjum og félagasamtökum, sem og fulltrúar Reykjavíkurborgar, alþingismenn og fleiri fulltrúar úr umhverfis- og tæknigeiranum. Meðal þeirra milljarðamæringurinn Davíð Helgason. Vitnar fjöldi fyrirtækja um nýsköpun á þessu sviði.

Þá var Nótt Thorberg Bergsdóttir framkvæmdastjóri Grænvangs með í för og af því tilefni ræddi Morgunblaðið við hana um ávinning ferðarinnar. Nánar tiltekið var spurt um þátttöku viðskiptasendinefndar Íslands á loftslagsráðstefnunni.

Þverfaglegt samtal

Hvernig meturðu ávinninginn af loftslagsráðstefnunni í Dúbaí fyrir íslenskt atvinnulíf?

„Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna er meira en bara samningavettvangur aðildarþjóða að loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Hana sækja ekki bara samninganefndir heldur hefur þátttaka annarra aðila sem styðja loftslagsvegferðina undanfarin ár farið ört vaxandi. Í dag er þetta stærsta loftslagsráðstefna í heimi og þarna á sér stað þverfaglegt samtal um lausnirnar. Þetta er jákvæð þróun því mikilvægt er að markmiðum þjóða fylgi aðgerðir og samstillt átak stjórnvalda, atvinnulífs og samfélagsins alls.

Ávinningurinn af COP28 fyrir íslenskt atvinnulíf var margþættur. Fyrir sum fyrirtæki sem tóku þátt í viðskiptasendinefnd Íslands skapaðist þarna vettvangur fyrir þau að koma sínum lausnum á framfæri og efla vitund um hvernig þessar lausnir gætu gagnast öðrum þjóðum. Við sáum dæmi um að grunnur væri lagður að viðskiptasamböndum en líka fengu sum fyrirtækjanna mikla athygli í erlendum fjölmiðlum og tækifæri til að kynna sínar lausnir,“ segir Nótt.

Um 100 þúsund gestir

„Fyrir önnur fyrirtæki var ávinningurinn fólginn í að sækja sér þekkingu. Það verður að hafa í huga að það sóttu um 100 þúsund manns ráðstefnuna og dagskráin var víðtæk. Þarna er verið að ræða um hina stóru drifkrafta grænu umskiptanna og hvernig samhæfa megi helstu innleiðingarstrauma svo hraða megi vegferðinni. Það fer fram gríðarlega mikið fræðslustarf og umfjöllunarefnin eru fjölþætt.

Einn meginávinningurinn í Dúbaí var svo líka þétt samstarf stjórnvalda og atvinnulífs. Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá hvernig samstarf um að vekja athygli á íslenskum lausnum var virkt og öflugt. Ísland gegnir þarna mikilvægu hlutverki því Ísland stendur framar öðrum þjóðum í nýtingu endurnýjanlegrar orku og orkuskipta. Okkar saga sýnir að það er hægt að ná árangri í grænu umskiptunum. Við erum fyrirmynd og með því að miðla góðum árangri hér heima hvetjum við aðrar þjóðir til framþróunar og samstarfs.“

Mikill áhugi á djúpborun

Gætirðu nefnt dæmi um hvernig sá ávinningur birtist?

„Ég held að það sé hægt að nefna hversu mikla athygli KMT-verkefnið (Krafla Magma Testbed) fékk í kringum Dúbaí. Þar sáum við mikla umfjöllun um djúpborunarverkefnið í virtum alþjóðlegum fjölmiðlum. Svona umfjöllun styður íslensk nýsköpunarverkefni í sinni fjármögnunarvinnu og skapar okkur mikil tækifæri. Með því að leggja okkar af mörkum og taka þátt á þessum vettvangi eflum við líka tengsl okkar við mikilvægar samstarfsþjóðir Íslands á sviði loftslagsmála og grænna lausna, m.a. Norðurlöndin, Bandaríkin og ríki í Evrópu.“

Mjög verðmæt þekking

Hvaða breytingar eru að verða á íslensku atvinnulífi vegna loftslagsstefnunnar almennt? Hvar eru sprotarnir? Tækifærin?

„Heimurinn stendur allur frammi fyrir miklum áskorunum í t.d. orkuskiptum. Við Íslendingar búum að því að hafa farið í og lokið orkuskiptum á rafmagni og húshitun á síðustu öld. Sú þekking sem við höfum í nýtingu jarðvarma er gríðarlega verðmæt og er að verða mjög eftirsótt. Evrópuþjóðir eru nú að byrja að horfa til nýtingar jarðvarma til húshitunar og kælingar þannig að sú eftirspurn á bara eftir að aukast.

Það vekur líka eftirtekt hversu mikil gróska og nýsköpun hefur verið á Íslandi á sviði föngunar og förgunar kolefnis og áhugi á samstarfi við íslensk fyrirtæki í þróun alþjóðlegra verkefna fer stigvaxandi. Svo má nefna að Ísland er að verða vinsæll staður til að þróa og sannreyna loftslagslausnir í auknum mæli fyrir skölun. Aðstæður til þess eru afskaplega góðar hér og ég held að við munum sjá aukna ásókn aðila í að koma hingað með sín verkefni.“

Kallar á nýja innviði

Hvernig eru innviðir á Íslandi í stakk búnir til að takast á við þessar breytingar?

„Í lokaályktun COP28 var sagt að þrefalda þyrfti framleiðslu endurnýjanlegrar orku og tvöfalda orkunýtni í heiminum fyrir 2030 til að ná markmiðum Parísarsáttmálans um að halda hækkun hitastigs innan við 1,5 gráður. Loftslagsvegferðin kallar á uppbyggingu innviða og það standa allar þjóðir frammi fyrir þeirri áskorun.

Við Íslendingar erum svo lánsöm að hafa lokið orkuskiptum í húshitun og rafmagni en það er mikilvægt að við höldum áfram og klárum orkuskipti í samgöngum. Til þess þarf að tryggja áframhaldandi uppbyggingu innviða í sátt við umhverfi og samfélag,“ segir Nótt Thorberg að lokum.

Höf.: Baldur Arnarson