Forseti Fundarstjórn á þingi hvílir á herðum Birgis Ármannssonar.
Forseti Fundarstjórn á þingi hvílir á herðum Birgis Ármannssonar. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Það er nú orðið nokkuð ljóst að við munum ekki halda starfsáætlun sem gerði ráð fyrir að við myndum ljúka þingstörfum á föstudaginn, þannig að fyrirsjáanlegt er að við munum þurfa að bæta nokkrum dögum við,“ segir Birgir Ármannsson…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Það er nú orðið nokkuð ljóst að við munum ekki halda starfsáætlun sem gerði ráð fyrir að við myndum ljúka þingstörfum á föstudaginn, þannig að fyrirsjáanlegt er að við munum þurfa að bæta nokkrum dögum við,“ segir Birgir Ármannsson forseti Alþingis í samtali við Morgunblaðið, spurður um gang mála í þinginu.

Hann vill ekki spá um hve lengi þing mun standa, en augljóst sé að nokkrir dagar séu eftir. Ekkert samkomulag um þinglok hefur náðst á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, enn sem komið er.

„Umræður í þinginu hafa gengið frekar hægt, bæði í síðustu viku og þessari, og miklum tíma varið í umræðu um mál sem ekki eru umdeild. Það liggur fyrir að fjöldi mála er tilbúinn út úr nefndum sem hægt væri að taka til umræðu og afgreiðslu í þingsal. Því til viðbótar eru allmörg mál komin á lokastig í nefndum sem ég geri ráð fyrir að stjórnarflokkarnir hafi metnað til að klára fyrir þinglok. Það ræðst á næstu sólarhringum hvaða mál það verða,“ segir hann.

Birgir segir 20-30 mál tilbúin til umræðu í þingsal og fleiri gætu bæst við. „Við vonum að línur fari að skýrast á næstu sólarhringum,“ segir Birgir.

Eldhúsdagur var á Alþingi í gærkvöldi, en umræður ekki hafnar þegar blaðið fór í prentun. Tveir úr hverjum þingflokki voru á mælendaskrá.