Tekjur Útflutningsverðmæti eldisafurða var 22 milljarðar á fyrstu fimm mánuðum ársins og hefur aldrei verið meira á þessu tímabili.
Tekjur Útflutningsverðmæti eldisafurða var 22 milljarðar á fyrstu fimm mánuðum ársins og hefur aldrei verið meira á þessu tímabili. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Útflutningsverðmæti eldisafurða nam rúmlega 3,2 milljörðum króna í maí og er það 80% aukning frá sama mánuði í fyrra. Á fyrstu fimm mánuðum ársins er verðmætið því komið í 22,2 milljarða króna, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam rúmlega 3,2 milljörðum króna í maí og er það 80% aukning frá sama mánuði í fyrra. Á fyrstu fimm mánuðum ársins er verðmætið því komið í 22,2 milljarða króna, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands. Í greiningu Radarsins er vakin athygli á því að útflutningsverðmæti eldisafurða á fyrstu fimm mánuðum ársins hafi aldrei verið meira.

Í maí jókst einnig útflutningsverðmæti sjávarafurða og nam það 35 milljörðum króna en aukningin var aðeins 3,5%. Heilt yfir hafa á fyrstu fimm mánuðum ársins verið fluttar út sjávarafurðir fyrir 146 milljarða króna sem er 1,5% minna en á sama tímabili á síðasta ári. Má rekja samdráttinn að mestu leyti til loðnubrestsins.

Radarinn vekur athygli á því að verðmæti eldisafurða er rúmlega 15% af útflutningsverðmæti sjávarafurða á fyrstu fimm mánuðum ársins og um 6% af verðmæti vöruútflutnings alls á tímabilinu. Þessi hlutföll hafa aldrei verið hærri.

„Nú þegar er fiskeldi orðið veigamikill liður í útflutningi Íslendinga og mun vafalaust verða enn fyrirferðarmeira þegar fram líða stundir. Fiskeldi hefur burði til að vaxa að magni til á skömmum tíma, ólíkt veiðum á villtum fiski sem byggjast á sjálfbærri nýtingu á takmörkuðum fiskistofnum,“ segir í greiningunni.

Mismikil aukning

Mismunandi þróun hefur verið meðal vöruflokka innan sjávarafurða. Nam útflutningsverðmæti lýsis á fyrstu fimm mánuðum 11,8 milljörðum króna, sem er 18% aukning frá sama tímabili í fyrra. Á sama tímabili jókst útflutningsverðmæti ferskra afurða um 10% og saltaðra og þurrkaðra afurða um 8%.