Enn á ný koma upp á yfirborðið fréttir af því hversu kostnaðarsamt það er fyrir fjölskyldur í landinu að eiga efnileg börn og ungmenni sem ná svo langt að komast í landslið Íslands í sínum íþróttagreinum

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Enn á ný koma upp á yfirborðið fréttir af því hversu kostnaðarsamt það er fyrir fjölskyldur í landinu að eiga efnileg börn og ungmenni sem ná svo langt að komast í landslið Íslands í sínum íþróttagreinum.

Hannes Jón Jónsson, framkvæmdastjóri Körfuknattleikssambands Íslands, skýrði frá því í hlaðvarpi Valtýs Björns, Mín skoðun, að sambandið þyrfti að rukka foreldra ungmenna í yngri landsliðum í körfubolta um samtals 50 milljónir króna á þessu ári.

Í framhaldi af því skýrði Margrét Elíasdóttir frá því á Facebook að landsliðsverkefni Önnu Margrétar, dóttur hennar, kostuðu hana 660 þúsund krónur í ár.

Þetta hefði ekkert breyst síðan synir hennar, Martin og Arnór Hermannssynir, gengu í gegnum það sama í körfuboltanum fyrir nokkrum árum.

Foreldrar ungmenna í öðrum íþróttagreinum þekkja þessa stöðu mæta vel því svona er þetta sennilega í öllum íþróttagreinum hér á landi, nema í fótboltanum.

Fyrir vikið er alveg ljóst að fjölmörg ungmenni sem koma frá efnaminni heimilum heltast úr lestinni og fá ekki tækifæri til að fylgja eftir draumum sínum og keppa fyrir Íslands hönd í sinni íþróttagrein.

Þegar úthlutun úr Afrekssjóði ÍSÍ er skoðuð sést að um 512 milljónir króna renna til sérsambanda á árinu 2024. Þar af eru rúmar 18 milljónir eyrnamerktar árangri ungmenna. Fram kemur að 32 sérsambönd hafi hlotið styrk vegna afreksíþróttastarfs og landsliðsverkefna.

Er ekki svigrúm þarna til að gera mun betur?