Án titils (portrett af listamönnunum í íslenskum kvenbúningum; peysufötum og upphlut), 2000 Libia Castro (1970) og Ólafur Ólafsson (1973) Ljósmynd
Án titils (portrett af listamönnunum í íslenskum kvenbúningum; peysufötum og upphlut), 2000 Libia Castro (1970) og Ólafur Ólafsson (1973) Ljósmynd
Andspænis áhorfandanum standa karl og kona og horfa beint í myndavélina, klædd í peysuföt og upphlut. Bak við þau er álverið í Straumsvík. Parið stendur stolt fyrir miðju myndarinnar og ber höfuðið hátt

Andspænis áhorfandanum standa karl og kona og horfa beint í myndavélina, klædd í peysuföt og upphlut. Bak við þau er álverið í Straumsvík. Parið stendur stolt fyrir miðju myndarinnar og ber höfuðið hátt. Klæðnaður þeirra minnir áhorfandann á fortíðina, gamlar hefðir og sögu landsins. Felst því viss ögrun í klæðaburðinum, þar sem karlmaðurinn fer hér á skjön við hefðina og kýs að klæðast heldur búningi kvenna en karla. Varpa þau þannig fram spurningum um stöðu kynjanna og stöðu þjóðarinnar, þar sem úreltar hugmyndir eru settar í nýjan búning. Þá beinist gagnrýni þeirra að viðteknum hugmyndum um kynjahlutverk, þjóðerni og landið sjálft en slíkar hugmyndir tóku vissulega heilmiklum breytingum á 20. öldinni.

Verkið er einmitt frá því um aldamótin 2000 en í hlutverki parsins eru listamennirnir sjálfir sem gerir verkið einnig að sjálfsmynd þeirra. Með því að taka sér slíka stöðu innan myndarinnar styðja þau því og auka enn frekar við gagnrýni verksins á viðteknar hugmyndir, sem tvinnast saman við hugmyndir um sjálfið og sjálfsmyndina í tengslum við uppruna. Listamannatvíeykið, Ólafur Ólafsson og Libia Castro, eru annars vegar frá Íslandi og hins vegar Spáni og gefur bakgrunnur listamannanna verkinu því nýja vídd, þar sem spurt er hvað það sé að vera Íslendingur á 21. öldinni.

Í nánum tengslum við þessar vangaveltur um sjálfið eru svo spurningar um landið, sem hefur lengi verið samofið vitund og sjálfsmynd þjóðarinnar. Enn fremur hafa peysufötin verið álitin tákn um þjóðerni og sjálfstæði Íslendinga allt frá því að þau hlutu sæmdarheitið þjóðbúningur á 19. öld. Hér mætir sú rómantík sem fólgin er í búningnum, sjálfsmyndinni og landslagsmyndinni loks nýrri náttúru og nýjum veruleika iðnaðar og álframleiðslu, sem umbreytir landinu. Þá varpa hinir upplitsdjörfu listamenn fram áleitnum spurningum um landvernd og landnýtingu á þessum nýju tímum en verkið var skapað þegar harðar deilur stóðu um virkjanaframkvæmdir á hálendinu til að afla raforku fyrir álframleiðslu.